14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

53. mál, vararafstöðvar

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Mér virðist, að svör hans staðfesti þær aths., sem ég lét fylgja fsp. hér áðan. Það gerist ekki oft, að slíkir atburðir verða, en þegar þeir gerast, þá skapast mjög alvarlegt ástand. Ég held, eins og kemur fram í skýrslu rafmagnsveitnanna, að kjarni þessa máls sé, að það þarf að koma upp nokkrum nýjum föstum varaaflstöðvum og skipta út þeim lélegustu, sem nú eru fyrir hendi og kallast varastöðvar, eins og segir í skýrslunni. Og það þarf að koma upp hæfilegum fjölda færanlegra stöðva. Ég tek undir það, sem kom fram í svarinu, að hugsanlegt væri, að þetta gerðist í áföngum. En þetta þarf sem sagt að verða.

Ég fagna því einnig, sem fram kom í svari ráðh., að ákveðið hefur verið að setja upp á Norðurl. v. færanlega 500 kw. stöð, sem komi í veg fyrir, að slíkir atburðir sem urðu nú í október endurtaki sig.

Ég vil að lokum þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans og þá sérstaklega fyrir það ítarlega fskj., sem fylgír svari hans og undirbúið er af hálfu Rafmagnsveitnanna. Ég vona, að málið í heild verði athugað gaumgæfilega á grundvelli þessarar skýrslu með það fyrir augum, að nauðsynlegar úrbætur verði gerðar.