15.11.1972
Neðri deild: 13. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Frsm. 1. minni hl. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. sjútvn. rakti hér áðan, eru þessi nál. um frv. að l. um breyt. á 1. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Og eins og hann gat um líka réttilega, var þetta frv. sent ýmsum aðilum til umsagnar, sem flestir sendu umsögn, þó ekki tveir, og allir eins og hann las, á þá lund, að þeir mæltu með samþykkt frv. Þó kom fram af einni umsögninni, sem síðar hefur verið staðfest í viðtölum víðar, að að sumu leyti er þessi afstaða umsagnaraðilanna byggð á því, að ríkisvaldið lét ekki annarra kosta völ til að leysa úr rekstrarkreppu útvegs og fiskiðnaðar en þess, sem frv. tilgreinir.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu frv., eins og kemur fram af nál., og afstaða mín byggist á því, að ég tel, að frv. fari í bága við tilgang verðjöfnunarsjóðs, eins og lög skilgreina hann, eða eins og stendur í 1. gr. laganna: „Stofna skal sjóð, er nefnist Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins. Hlutverk sjóðsins er að draga úr áhrifum verðsveiflna, er verða kunna á útflutningsafurðum fiskiðnaðarins.“

M.ö.o.: tilgangur sjóðsins er að bæta upp óvæntar verðlækkanir á erlendum mörkuðum, en samkv. frv. á allt í einu að gripa ofan í sjóðinn til þess að bæta upp minni afla á vissum fisktegundum en ráð hefði verið fyrir gert í verðútreikningum og hækkaðan rekstrarkostnað. Þetta á að gera í bili, á meðan ríkisstj, er að hugleiða, hvernig hún eigi að bregðast raunhæft við vandanum.

Varla verður það misskilið af lögunum um verðjöfnunarsjóð, að hann er stofnaður af framlögum sjómanna, útgerðar og fiskiðnaðar og því í raun eign þeirra, deildaskipt eftir teg. afurða.

Í aths. við frv. er tekið fram, að nauðsyn hafi þótt við verðákvörðun á fiski fyrir verðlagstímabilið 1. okt. til 31. des. þessa árs að hækka fiskverð verulega til að bæta kjör sjómanna til samræmis við kjör annarra stétta og bæta hag útgerðarinnar, en þessa hækkun þoli fiskiðnaðurinn þó ekki bótalaust og því sé fangaráðið að grípa ákveðna lúku úr verðjöfnunarsjóðnum. Þetta er líkt úrræði og ef atvinnuleysistryggingasjóði yrði að hluta varið til þess að greiða verkamönnum og öðrum eigendum sínum, þó ekki nema sumum, uppbót á vinnulaunin, ef atvinnurekandinn teldist þess ekki umkominn að greiða þau að fullu, svo að viðhlítandi þætti.

Að öllu þessu athuguðu virðist það fráleitt, að Alþ. fari að lögleyfa umbeðna notkun á verðjöfnunarsjóði, og gæti enda boðið heim alls konar líkri ráðsmennsku með aðra sjóði stofnaða í sérgreindum tilgangi.

Hinu er ekki ástæðu til þess að andæfa, enda mun sjóðsstjórnin hafa til þess vald án lagasetningar, að lána ríkisstj. umræddar 85–90 millj. kr. rekstrarkreppu útvegs og fiskiðnaðar til úrlausnar, meðan valdhafarnir eru að finna og koma sér saman um sina endanlegu lausn á vandanum. Undirritaður leggur því, til að frv. verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Þar sem frv. fer í bága við tilgang og anda l. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, en bráðabirgðatilgangi frv. má ná með láni úr sjóðnum, og til þess þarf enga nýja lagasetningu, telur d. ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um frv. þetta, en tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“