16.11.1972
Sameinað þing: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

58. mál, vegagerð í Mánárskriðum

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Hv. varaþm. okkar sjálfstæðismanna í Norðurl. v. flutti ásamt mér, þegar hann átti sæti á hinu háa Alþ. fyrir skömmu, till. til þál. um kostnaðaráætlun við vegagerð í Mánárskriðum. Till. er á þessa lund:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera áætlun um kostnað við vegagerð niðri við sjó í Mánárskiðum á Siglufjarðarvegi.“

Þegar vegur var lagður frá Hraunum í Fljótum um Almenninga, Mánárskriður og Úlfsdali og jafnframt lögð göng í gegnum Strákafjall, er ekki að efa, að sú framkvæmd var ein hin stærsta, sem fram til þess tíma hafði verið unnin í vegamálum hér á landi, enda var það vissulega svo, að þessi framkvæmd varð feikileg samgöngubót fyrir Siglfirðinga og aðra. Nú er unnið að því að bæta mjög veginn í Fljótum í Skagafirði með því að endurbyggja hann. Þegar því verki er lokið, má vonast til þess, að leiðin til Siglufjarðar þurfi ekki að verða öllu þungfærari að vetrarlagi en ýmsar aðrar leiðir, sem um landið liggja, enda þótt þarna séu mestu snjóapláss á landinu.

En sá trafali er á þessari leið, að þegar vegurinn var lagður frá Hraunum og til Siglufjarðar, þótti ekki fært að leggja hann neðarlega í Mánárskriðum eða niðri undir sjó, og var hann lagður hátt uppi í skriðunum. Það hefur í för með sér, að þarna lokast vegurinn án þess að um mikla fannkomu þurfi að vera að ræða. Það mun á sínum tíma hafa verið horfið frá því að leggja veginn neðar, vegna þess að bæði var vegarstæðið erfitt og talið mjög kostnaðarsamt að leggja hann þar. En það er nú orðið nokkuð síðan þessi vegur var lagður, og við búum vissulega yfir miklu meiri tækni og betri tækjakosti til vegagerðar nú en þegar þessi vegur var lagður. Þess vegna sýnist okkur flm. einsýnt, að það sé rétt, að gerð sé á ný kostnaðaráætlun um þessa vegagerð og athugaðir möguleikar á því, hvort ekki muni vera hægt að færa veginn neðar í hinar svonefndu Mánárskriður. Ef það væri hægt, mundi það stuðla að því, að vegurinn yrði miklu snjóléttari, og leiða til þess, að stórfé sparaðist á ári hverju, sem fer í snjómokstur einmitt í þessum Mánárskriðum.

Herra forseti. Ég legg til, að þessari till. verði vísað til hv. fjvn.