20.11.1972
Neðri deild: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

79. mál, hafnalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. 8. landsk. þm. sagði hér áðan, að um visst tímabil var ákvæði í hafnal. um það, að verbúðir skyldu teljast styrkhæf hafnarmannvirki. Síðan var þetta fellt úr l., og mun ástæðan til þess hafa verið sú, að það taldist orka mjög tvímælis, hvort íbúðir fyrir sjómenn gætu talizt hafnarmannvirki í sjálfu sér, hvort slíkt verkefni væri ekki frekar á verksviði útgerðarmanna á stöðunum eða útgerðarmanna og sveitarfélaga, að standa undir slíkri útvegun íbúðarhúsnæði fyrir aðkomusjómenn.

Þetta ákvæði var notað, á meðan það var í gildi, á nokkrum stöðum, og varð auðvitað til þess að leysa úr þörf, og ég hygg, að þeir, sem reynslu hafa af þessu ákvæði, mundu gjarnan vilja fá það inn aftur.

Vitanlega var þetta rætt í mþn., sem endurskoðaði nú hafnal., og menn töldu þetta álitamál. En niðurstaðan varð sú að taka þetta ekki inn í frv., og rn. hefur ekki gert till. um það heldur. Þannig er það rétt, að það er ekki í frv. nú. Hins vegar liggja fyrir, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, allmargar till. frá Hafnasambandi sveitarfélaga, frá þingi þess á Akureyri núna í sumar, og hafa örfáar þeirra verið teknar inn í frv., eins og það liggur núna fyrir, þær sem talið var, að væri alveg sjálfsagt að taka með í frv. En að öðru leyti gerði ég ráð fyrir, að till. Hafnasambandsins mundu í heild fara til þeirrar n., sem fær frv. til meðferðar, sem mun verða fjhn., að ég hygg. 7. till. Hafnasambandsins er um það, að við upptalningu undir 2. tölul. í 7. gr. bætist: „hafnarskemmur, verbúðir.“ Þessi till. fer því ásamt öllum öðrum till. Hafnasambandsins til hv. n., sem fær frv. til meðferðar, og tel ég það standa opið til ákvörðunar, hvort taka skuli hið gamla ákvæði inn aftur, og er þá till. um, að hafnarskemmur komi þar líka. Væri vitanlega mikil réttarbót fyrir sveitarfélögin, ef þetta yrði tekið inn og þar með a.m.k. ákveðið 40% framlag til slíkrar mannvirkjagerðar. En þetta tel ég sem sé til athugunar fyrir hv. n. ásamt öllum öðrum till. Hafnasambandsins.