20.11.1972
Neðri deild: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

79. mál, hafnalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þakka þær vinsamlegu umr., sem orðið hafa um hafnalagafrv., en vildi gjarnan, að umr. nú gæti lokið, svo að það kæmist til meðferðar í n., þar sem áherzla er lögð á það, að frv. nái sem allra fyrst afgreiðslu þingsins.

Út af því, sem hv. 3. þm. Sunnl. sagði hér áðan um, að það væri dregið vald til hendi hafnarstjórnanna og sveitarstjórnanna með þessu frv., þá vil ég algerlega andmæla því. Ég held, að það finnist ekki í þessu frv. neitt í þá átt. Hins vegar vil ég segja það, að þess er varla að vænta, að mikið sé dregið af valdi ríkisins yfir hafnarmannvirkjum, þegar hlutur ríkisins í fjármagni til hafnarframkvæmda er stórlega aukinn. Það væri að stefna í öfuga átt með þau atriði. Hér er um að ræða aukin fjárframlög af hendi hins opinbera og því ekki gerandi ráð fyrir því, að jafnframt því séu lögleidd ákvæði um að gera samtímis umráð vitamálastjórnar, hafnamálastjórnar og ráðh. eða rn. minni. En samt sem áður er heldur stefnt í þá áttina í þessu frv.

Mér virtist koma fram alger misskilningur hjá hv. 3. þm. Sunnl. varðandi það, að ákvæði um, að verbúðir séu styrkhæfar, sé í gildandi hafnal. Svo er ekki. Það var skýrt tekið fram, bæði af mér áðan og af hv. 8. landsk., að þetta ákvæði hefði á sínum tíma verið í hafnal., en svo fellt niður og hefði ekki verið tekið upp í þetta hafnalagafrv. Það er engan veginn verið að fella það niður úr gildandi hafnal. nú. Það er alger misskilningur. — Ég held, að það hafi verið aðallega þessi atriði, sem ég taldi ástæðu til að leiðrétta.

Svo var hv. 1. þm. Norðurl. e. með fsp. til mín um það, hvernig bæri að skilja 4. tölul. 6. gr. frv. Í upphafi gr. segir: „Skilyrði fyrir greiðslu kostnaðarhluta ríkissjóðs og ábyrgð ríkissjóðs að láni samkv. 5. gr. eru:“ Svo koma tölul. 1, 2 og 3, en spurt er um 4. liðinn: „Að fyrir liggi athugun á því, hvort hafnarsjóður geti staðið undir greiðslu eigin kostnaðarhluta, hvort sem er í formi framlags eða greiðslna af lánum.“ Þarna eru heimtaðar upplýsingar um það, hvernig greiðslugetu viðkomandi hafnarsjóðs er háttað, og ég sé ekki, að þetta sé á nokkurn hátt hægt að misskilja. Að fengnum þessum upplýsingum yrði vafalaust að taka afstöðu til þess, hvort hægt væri að samþykkja mannvirkjagerðina eða ekki, að fengnum upplýsingum um greiðslugetu hafnarsjóðsins. Það er engan veginn óeðlilegt, að óskað sé slíkrar vitneskju, áður en ákvarðanir eru teknar um kannske rándýra mannvirkjagerð.

Þessi tölul. er nýr, segir í skýringum með frv., 4. tölul. er nýr og er settur til að skapa aukið aðhald, svo að ekki séu ákveðnar framkvæmdir, sem viðkomandi sveitarfélag geti fyrirsjáanlega ekki risið undir. Þessi liður er settur þar inn af þessum ástæðum og er engan veginn útilokandi samkv. sinni hljóðan, heldur til þess að vitneskja liggi jafnan fyrir um greiðslugetu viðkomandi hafnarsjóðs, áður en mannvirkjagerðin er samþykkt, og það tel ég mjög eðlilegt.