21.11.1972
Sameinað þing: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

276. mál, samningur Íslands við Efnahagsbandalagið

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram þá fsp. til hæstv. utanrrh., hvenær samningur sá, sem gerður hefur verið milli Íslands og Efnahagsbandalagsins, verði lagður fyrir Alþ. til staðfestingar.

Hinn 22. júlí s.l. undirritaði ríkisstj. samning við Efnahagsbandalagið um viðskipti Íslands og bandalagsins. Efni hans er í aðalatriðum sams konar og samningur Íslands við Fríverzlunarsamtök Evrópu, EFTA. Samningsumleitanir við Efnahagsbandalagið fylgdu í kjölfar aðildarumsóknar Breta, Dana, Norðmanna og Íra. Öll þau lönd Fríverzlunarsamtakanna eða EFTA sem sóttu ekki um aðild, ræddu viðskiptasamninga við bandalagið. Samningar við öll þau nema Finna hafa verið undirritaðir og eiga allir að taka gildi 1. jan. 1973. Er gert ráð fyrir því, að þeir hafi þá verið staðfestir af þjóðþingum hlutaðeigandi landa. Finnar hafa lokið samningum og gera ráð fyrir að undirrita þá og staðfesta fyrir áramót. Noregur hefur hér auðvitað sérstöðu, þar eð aðild Norðmanna var felld við þjóðaratkvgr. En viðræðum milli þeirra og Efnahagsbandalagsins eru hafnar, og er stefnt að því að ljúka þeim fyrir vorið.

Sú skoðun hefur heyrzt, að ekki sé hægt að fullgilda samning Íslands og Efnahagsbandalagsins hér á hinu háa Alþ. vegna bókunar af hálfu Efnahagsbandalagsins varðandi viðskiptafríðindi fyrir íslenzkar sjávarafurðir í Efnahagsbandalaginu. En þar segir, að Efnahagsbandalagið áskilji sér rétt til að láta ákvæði bókunarinnar ekki koma til framkvæmda, ef ekki fæst viðunandi lausn fyrir aðildarríkin og Ísland á efnahagserfiðleikunum, sem leiðir af ráðstöfunum Íslands varðandi fiskveiðiréttindi.

Af hálfu íslenzku ríkisstj. var talið algerlega óeðlilegt að blanda saman deilum um fiskveiðilögsögu Íslendinga og viðskiptamál. Var sú staðhæfing tvímælalaust rétt. Þess vegna var af hálfu íslenzku ríkisstj. því bætt við bókunina, að Ísland áskildi sér rétt til að taka ákvörðun um afhendingu fullgildingarskjala sinna. Þetta veldur því, að samningurinn getur tekið gildi 1. jan. 1973 og Íslendingar fengið öll fríðindi samkv. honum, að því er snertir viðskipti með iðnaðarvörur, jafnvel þótt landhelgisdeilan væri enn óleyst, en einnig að því er snertir viðskipti með sjávarafurðir, ef lausn hefði þá fundizt á henni.

Ef samningurinn verður ekki fullgiltur fyrir áramótin, gætu Bretar og Danir, sem hverfa úr EFTA um áramótin, lagt venjulega tolla á allan innflutning íslenzkra afurða frá áramótum, án þess að tollahækkanir þurfi að gerast í áföngum. Hér er því um hagsmunamál fyrir íslenzka útflutningsverzlun að ræða. Auk þess verður ekki annað séð en að leggja verði fyrir Alþ. nú ályktun um heimild fyrir ríkisstj. til þess að samþykkja þær breytingar á EFTA- samningnum, sem brottför Breta og Dana úr EFTA um næstu áramót veldur.

Þess er sjálfsagt að geta að lokum, að draga má fullgildingu samningsins, en síðustu forvöð til að fullgilda hann eru 30. nóv. 1973, og tekur hann þá gildi 1. jan. 1974. En það er tvímælalaust hagkvæmast fyrir Íslendinga að fullgilda hann nú og láta hann taka gildi um næstu áramót. Þess vegna er þessi fsp. fram borin.