22.11.1972
Neðri deild: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Við 2. umr. ræddi ég þetta mál ekki efnislega, en það langar mig að gera með örfáum orðum nú við þessa 3. umr.

Það kom fram í framsöguræðum fulltrúa Alþfl. og Sjálfstfl. í þeirri n., sem um málið hafði fjallað, og í þeim nál., sem fram komu frá 1. minni hl. og 2. minni hl. sjútvn., að upplýsingar, sem hæstv. sjútvrh. hefði gefið um tilkomu þessa máls við 1. umr., væru ekki alls kostar réttar. Hæstv. sjútvrh. hafði sagt í framsöguræðu sinni fyrir málinu, að málið væri flutt að beiðni forsvarsmanna sjávarútvegsins, og mun þá fyrst og fremst. hafa verið átt við Landssamband ísl. útvegsmanna, sem sérstakt samband hafði verið haft við um málið.

Í bréfi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna til sjútvn. þessarar hv. d., undirrituðu af Kristjáni Ragnarssyni, kemur hins vegar fram, að hér er eitthvað málum blandað. Framkvæmdastjóri Landssambands ísl. útvegsmanna segir svo í bréfi sínu til sjútvn., með leyfi hæstv. forseta:

„Fulltrúar L.Í.Ú. í verðlagsráði sjávarútvegsins áttu viðræður við sjútvrh. 22. sept., að hans beiðni, um þau vandamál. sem við blöstu við ákvörðun fiskverðs. Hann lýsti þar þeirri skoðun ríkisstj., að fiskverð þyrfti að hækka, án þess þó að tilgreina hve mikið. Hins vegar taldi hann, að fiskkaupendur gætu ekki staðið undir þeirri hækkun vegna erfiðrar rekstraraðstöðu og þyrftu jafnvel á aðstoð að halda. Þar sem ekki voru fyrirhugaðar neinar ráðstafanir af hálfu ríkisstj. fyrir n.k. áramót til lausnar á þessu máli, teldi hann, að það fjármagn, sem til þyrfti að koma til að gera fiskverðshækkun mögulega, yrði að takast úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Fulltrúar L.Í.Ú. mótmæltu þessu,“ segir framkvæmdastjórinn, „og bentu á, að ekki væri ástæða til að taka fé úr verðjöfnunarsjóðnum, því að ekki væri um neitt verðfall að ræða á fiskafurðum.“

Hér er m.ö.o. um það að ræða, að þegar ráðh. leggur frv. fyrir telur hann það flutt í samráði við og nánast mátti skilja orð hans svo, að það væri gert að beiðni, en alla vega í samráði við þau samtök, sem hér skipta mestu máli, þ.e.a.s. Landssamband ísl. útvegsmanna. Nú hefur sambandið sagt það skýrt og skorinort við n. þessarar hv. d., að svo hafi ekki verið. Það er ekki hægt að líta þannig á, að frv. sé flutt í samráði, — svo að ég noti það orðalag, — við samtök, sem mótmæla því, að frv. sé flutt, þótt þau síðar, þegar þeim er ekki gefinn kostur á annarrí fjáröflun til þarfar, sem þeir telja alveg óhjákvæmilega, þá fella þeir sig við þá ráðstöfun, sem hér er um að ræða, sætta sig við hana fremur en ekki neitt. Það liggur því algerlega ljóst fyrir, að Landssamband ísl. útvegsmanna hafði mótmælt slíkri lagasetningu, hafði mótmælt því frv., sem hér er nú til 3. umr., áður en það var flutt, en sætti sig hins vegar við það, að frv. næði fram að ganga, fyrst útvegsmönnum er ekki gefinn kostur á öðru en þessu.

Þetta er hins vegar ekki í samræmi við það, sem hæstv. sjútvrh. sagði, þegar hann mælti fyrir frv. við 1. umr., og því nauðsynlegt að fá úr því skorið, hvernig á þessari misklíð eða hvernig á þessu ósamræmi stendur. Ég tel því, að ekki sé hægt að ljúka þessari 3. umr. málsins, án þess að hæstv. sjútvrh. sé viðstaddur til þess að gera hv. þdm. grein fyrir því, hvernig stendur á misræminu milli orða hans við 1. umr. málsins og ummæla Landssambands ísl. útvegsmanna um sama mál.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja frá 2. umr. málsins, að hæstv. sjútvrh. hefur leyfi frá störfum og varaþm. hans hefur tekið sæti hans á Alþ. Mér dettur auðvitað ekki í hug, að varaþm. hans geti svarað fyrir hans hönd í þessu máli, og ætlast ekki heldur til þess af neinum af samráðh. hans, að þeir geri það. Það væri ósanngjarnt að ætlast til slíks. Hér getur hæstv. sjútvrh. einn gefið nauðsynlegar skýringar á því, hvernig á því stendur, að ummæli hans við 1. umr. málsins eru ekki í samræmi við það, sem mér finnst hann hefði átt að muna, að Landssamband ísl. útvegsmanna hafði mótmælt því, að þessi leið yrði farin til lausnar þessum vanda, enda er nú staðfest bréflega til n., að það hefur átt sér stað. Það kom sér ekki aðeins illa við 2. umr. málsins, að hæstv. ráðh. skyldi þá ekki vera við. Það kemur sér enn verr nú við 3. umr. málsins, þegar eftir því er leitað, að hann sé hér viðstaddur til að gefa skýringar á jafnalvarlegu atriði og því, sem hér er um að ræða.

Þegar ég við 2. umr. málsins óskaði eftir því, að hæstv. forseti í samráði við hina forsetana, starfsbræður sína, og í samráði við skrifstofu Alþingis athugaði, hvort fjarvistarleyfi hæstv. ráðh. samrýmdist ákvæðum í gildandi lögum, gildandi þingsköpum og kosningarlögum, þá var það vegna þess, að mér vitanlega væri fjarvist hans frá Alþ. ekki byggð á því, að bann gæti ekki mætt á þingfundum, heldur teldi sig ekki hafa tíma til þess, þá svaraði hæstv. forseti strax á þeim fundi, þó að ég hefði skýrt tekið fram og hefði orðað fsp. mína mjög hóflega og mjög varlega, að ég óskaði þess ekki, að hann svaraði á þeim fundi, heldur hefði samráð við aðra forseta þingsins og skrifstofu Alþingis, því að mér væri algerlegar ljóst, að hér væri um „prinsip“-mál að ræða, vandasamt „prinsip“mál, sem þyrfti að taka afstöðu til ekki sízt með hliðsjón af því, að þingforsetar og formenn þingflokka höfðu þá alveg nýlega gert með sér óformlegt samkomulag um, að þm. skyldu ekki kalla inn varamenn, nema brýn nauðsyn krefði. Hæstv. ráðh. sem varaformaður þingflokks Alþb. var einmitt einn þeirra manna, sem á þeim fundi voru, og var aðili að því samkomulagi. Þess vegna taldi ég þeim mun meiri ástæðu til þess, að málið yrði athugað rólega um nokkurn tíma. Það, sem ég raunverulega meinti, var auðvitað það, að forsetar og formenn þingflokka hittust aftur til þess að ræða það vandamál. sem hér væri um að ræða, og finna á því einhverja skynsamlega lausn. Hæstv. forseti tók hins vegar þann kostinn, því miður, að svara mér þegar á þessum fundi, ég segi enn: því miður, að mjög vanhugsuðu máli, vegna þess að hæstv. forseti sagði, að þegar hæstv. ráðh. hafi beðið um fjarvistarleyfið, hafi verið ákveðið, að hann færi til útlanda í opinberum erindagerðum. Ég vissi raunar þá þegar og hef kannað það til fullnustu síðan, að á þeim degi, sem hann bað um fjarvistarleyfi, og á þeim degi, sem honum var veitt það, hafði hann þegar afturkallað ferð sína til útlanda, enda er það ekki nefnt einu orði í bréfi hans né heldur bréfi forseta, að leyfið sé veitt vegna farar til útlanda í opinberum erindum, svo sem venja er, þegar þannig stendur á, heldur eingöngu borið við önnum. Það var því ekki rétt staðhæfing hjá hæstv. forseta, þegar hann sagði, að þegar hann hefði beðið um orlofið og verið veitt heimild til þess, að varamaður tæki sæti, hafi ferð hans til útlanda verið ráðin. Það hafði þegar verið horfið frá henni, þegar beiðnin var borin fram og leyfið var veitt. Það var einmitt þess vegna, sem ég bar fsp. mína fram. Annars hefði ég auðvitað ekki gert það.

Þá sagði hæstv. forseti líka í úrskurði sínum, ef ég má nota það orð um ummæli hans, að það væri undarlegt, að ég skyldi hera fram aths. við annað eins og þetta, og hagaði orðum sínum þannig, að ómögulegt var annað en að skilja þau þannig, enda eflaust þannig til ætlazt, að ég hefði marg gefið tilefni til sams konar ráðstöfunar og þeirrar, sem hér er um að ræða. Ég kunni svarið við þeirri ásökun á þessum degi, en vildi samt ekki hafa það yfir, nema ég væri alveg viss um, að ég færi með rétt mál. Þess vegna hef ég beðið skrifstofu Alþ. að athuga, hvernig beiðnum mínum um, að varaþm. tæki sæti mitt hér á Alþ., hafi verið háttað, og svarið er þannig frá skrifstofu þingsins:

Ég hafði verið þm. í 10 ár, áður en ég varð ráðh., frá 1946–1956. Ég hafði aldrei beðið um, að varamaður tæki sæti mitt á Alþ., í þessi 10 ár vegna fjarvistar. Ég var ráðh. í 15 ár, frá 1956–1971. Á þeim 15 árum bað ég einu sinni um það, árið 1964, að þm. tæki sæti mitt á Alþ. vegna fjarvistar, — í eitt skipti. Síðan er það kunnara en frá þurfi að segja, að eftir að ég lét af ráðherrastörfum, dvaldist ég um þriggja til fjögurra mánaða skeið í Kaupmannahöfn við rannsóknarstörf, og það var einmitt á s.l. hausti. há tók að sjálfsögðu varamaður sæti mitt allan þann tíma. Það var þegar frá þingbyrjun, svo að ekki var um það að ræða, að ég hefði beðið um, að þm. tæki sæti mitt vegna þess, að ég þyrfti að fara frá þingstörfum. M.ö.o.: í þau skipti, sem ég þurfti í embættiserindum að fara til annarra landa, var fjarvistin jafnan svo stutt, að hvorki var talin ástæða til þess af mér, flokki mínum né heldur ríkisstj., að varamaður tæki sæti í minn stað. Í þeim mæli reyndi ég að gegna þeirri sjálfsögðu skyldu minni að hafa fjarvistir mínar sem allra stytztar.

Þessi ummæli hæstv. forseta, sem eins og önnur ummæli hans hafa eflaust verið mælt í fljótræði, hafa því við ekkert að styðjast og eru hvorki rétt né heldur smekkleg. En það skiptir auðvitað litlu máli í því sambandi, sem hér er um að ræða. Mergurinn málsins er sá, að ég tel ekki hægt að ljúka 3. umr. þessa máls, nema hæstv. ráðh. hafi tvímælalaus forföll frá því að geta komið hingað og rætt þetta mál við þm., sérstaklega gefið skýringar á því misræmi, sem var í framsöguræðu hans annars vegar og í bréfi Landssambands ísl. útvegsmanna hins vegar. Ég leyfi mér því að beina þeirri spurningu til hæstv. forseta, hvort honum sé kunnugt um, hvort hæstv. sjútvrh. sé í borginni eða ekki. Hann var í borginni í gær, hann var í borginni í morgun, og mér er forvitni á því að vita, hvort hann er í borginni nú á þessari stundi. Ef hann er í borginni á þessari stundu, tel ég alveg óforsvaranlegt að halda áfram umr. málsins, nema hann sé hér til fyrirsvars fyrir þessu máli sínu. Ég get vel skilið, ef hann væri á þessari stundu að gegna áriðand skyldustörfum á mikilvægum fundi eða í einhverjum mikilvægum viðræðum. Við því hef ég ekkert að segja. Þá er eðlilegt, að umr. málsins sé frestað. En ef hann er í borginni og ef hann er að gegna öðrum störfum, sem eru mikilvægari en þau að standa hér í umr., — og ég skal fúslega viðurkenna, að um þau störf getur verið að ræða, þá óska ég, að umr. málsins sé frestað, þangað til hæstv. ráðh. sér sér fært að koma hingað og ræða við þm. um málið að gefnu þessu alveg sérstaklega tilefni, sem ég tel langt frá því að vera lítilvægt.