22.11.1972
Neðri deild: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

86. mál, námsflokkar

(Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., fjallar um það, að greiðsla kostnaðar við svonefnda námsflokka falli undir skólakostnaðarlög.

Eins og allir vita, er skólakerfi okkar fyrst og fremst byggt á því, að þeir, sem ganga í skóla og nema, séu að búa sig undir það, sem þeir væntanlega komi til með að starfa á lífsleiðinni, og afla sér þekkingar undir þau störf. En í seinni tíð eru að vaxa mikið bæði kröfur og óskir um það, að þeir, sem eru komnir til starfs, geti á ýmsan hátt endurnýjað sig í starfi, endurnýjað þekkingu sína og aflað sér nýrrar þekkingar, m.ö.o., eftir að menn eru komnir á fullorðinsárin, geti þeir sótt sér aukna þekkingu, og þá er sú leið mjög farin nú, að myndaðir eru svokallaðir námsflokkar, oft á vegum viðkomandi sveitarfélaga, þar sem kennarar eru fengnir til að kenna ýmsar námsgreinar, tungumúl og hitt og annað, en þessi kostnaður fellur yfirleitt á viðkomandi sveitarfélög og sem skólagjöld eða námsflokkagjöld, sem þeir, sem námsins njóta, verða að greiða og eru oft alltilfinnanleg.

Hér er lagt til, að til að létta þessa námstilhögun falli þessi kostnaður undir skólakostnaðarlögin, og er vísað til þeirra greina, sem vel gætu spannað yfir þetta. Það er 16. gr. í skólakostnaðarl., sem hljóðar svo með leyfi forseta: „Öll föst laun skólastjóra, fastra kennara og annarra starfsmanna, sem menntmrn. ræður, setur eða skipar, svo og laun stjórnskipaðra prófdómenda, greiðast beint úr ríkissjóði.“ Og svo aftur varðandi kostnaðinn heima fyrir, sbr. 22. gr. skólakostnaðarl., sem hljóðar svo: „Sveitarfélög greiða ein húsvörzlu, hitun, lýsingu, ræstingu og allan annan rekstrarkostnað, sem ekki er sérstaklega nefndur, og ráða starfslið til þeirra starfa, sem hér um ræðir, að fengnum till. skólastjóra.“

Frvgr. er stutt og á að ná til þessa hvor tveggja og hljóðar svo:

„Starfræki sveitarfélag námsflokka, sem aðgangur er frjáls að, skal fara um kostnað við rekstur þeirra eftir ákvæðum Ill. kafla laga um skólakostnað, nr. 49 1967, enda hafi menntmrn. samþykkt í fjárhagsáætlun hvers skólaárs, námsskrá og ráðningu skólastjóra eða forstöðumanns og kennara.“

M.ö.o. menntmrn. hefur það að sjálfsögðu í valdi sínu, að ekki fari þarna neitt úrskeiðis með óeðlilegan kostnað. En verði farið inn á þessa braut, má létta mjög þessa námsbraut fullorðinna, og ég held, að það sé vissulega full þörf á því. Ég vil aðeins skjóta því hér fram, að t.d. á Akureyri starfa nú í vetur 200 manna námsflokkar. Mér er kunnugt um, að slíkt starf fer fram talsvert víðar, en þó er það fyrst og fremst á vegum stærri bæjarfélaga. En það er engu að síður þörf á, að þetta námsflokkakerfi nái til smærri sveitarfélaga, og ég hygg, að þetta gæti greitt götu þess.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og menntmn. að loknum umræðum.