23.11.1972
Sameinað þing: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

68. mál, eignarráð á landinu

Björn Pálsson:

Herra forseti. Jafnaðarmenn hafa flutt þáltill. tvö undanfarin þing, sem ganga í svipaða átt og þessi till. gengur, en nokkru skemmra. Ég hef ekki talað í þessu málí á undanförnum þingum, vegna þess að ég hef ekki tekið þetta alvarlega, þennan tillöguflutning, og ég geri það ekki enn þá. Ég held, að reynslan hafi sýnt, þar sem jafnaðarmenn hafa verið við völd, að þeir hafi ekki gert neinar stórbreytingar og alls ekki farið inn á það, að ríkið eignaðist allt landið, þannig að ég held, að þeir séu að gera þetta sér til gamans og til þess að láta tala um sig, frekar en þeir meini mikið með þessu. En eins og till. er flutt núna, þá er hún allvíðtæk og þess vegna e.t.v. ástæða til að íhuga hana dálítið betur en gert hefur verið. Í 2. tölulið segir svo:

„Sú grundvallarregla verði mörkuð, að stefnt skuli að því, að allt land verði með tímanum alþjóðareign (eign ríkis eða sveitarfélaga).“ — Ég skil nú alþjóðareign þannig, að það sé öll þjóðin, en ekki einstök sveitarfélög. Og ég álít, að þarna sé um hugsunarvillu að ræða. Fámenn sveitarfélög eru allt annað heldur en alþjóð. Svo er áframhald: „en bújarðir megi ganga kaupum og sölum til búrekstrar, meðan bændur kjósa þann hátt á fremur en hafa lönd sín á erfðafestu. Ríki og sveitarfélögum sé þó tryggður forkaupsréttur á öllu landi.“

Mér hefur skilizt, þegar menn hafa talað um, að ríkið ætti að eiga allar jarðeignir í landinu, að höfuðástæðan fyrir því hafi verið, að það væri ekki hægt að braska með þær, menn gætu ekki grætt á að selja þær eða kaupa, og það ætti að koma í veg fyrir brask. En samkv. þessu eiga menn að mega halda áfram að braska með jarðir, sem ríkið þykist þó eiga. Sennilega er átt við það, að ríkið eigi að eiga landið, en bændurnir eigi að eiga húsin, — ég veit ekki um ræktunina. Ég skil þessa till. þannig, að það sé ætlazt til, að það sé greitt verð fyrir það, þegar landið sé tekið. En við vitum það ósköp vel. að óræktað land hefur ekki verið metið mikils, þegar bændur hafa þurft að selja jarðirnar, og þeir hafa ekki fengið það verð fyrir jarðirnar, sem hús og ræktun hafa kostað, í flestum tilfellum, þannig að þegar þeir eru að rækta jarðir sínar, þá gera þeir það fyrst og fremst til þess að gera þær þannig, að það sé búandi á þeim, og þeir gera það ekki að öllu leyti í óeigingjörnum tilgangi, því að eins og kom glöggt fram hjá frsm., þá skilur hann tilfinningar bóndans gagnvart jörð sinni. Það eru svo mörg sambönd þar á milli, að þeir leggja fram krafta sína og eignir til þess að prýða það býli, sem þeir búa á, af því að þeir eru bundnir þessum jörðum sínum ákaflega sterkum böndum. En ég held, að kostirnir verði takmarkaðir við það, að ríkið eignist landið, ef bændurnir mega halda áfram að braska með það eftir sem áður.

Í öðru lagi á ríkið allmikið af jörðum. Ég sé ekki, að það sé neitt til fyrirmyndar, hvernig þær eru setnar. Ég hygg, að það séu þær jarðir, sem lengst eru á eftir hvað allar umbætur snertir. Og meðan svo er, þá sé ég enga ástæðu til þess, að ríkið sé að leggja áherzlu á að eignast allar jarðir landsins.

Í 3. gr. segir svo: „Stöðuvötn í afréttum og öll fallvötn verði lýst alþjóðareign, þar í falinn virkjunarréttur. Ríkið eitt geti leyft og leigt fiskræktar- og veiðirétt, svo sem viðkomandi sveitarfélögum og öðrum félagslegum samtökum, en greiddur sé arður til landeigenda samkv. arðskrá.“

Við vitum það ósköp vel. að mjög mikill hluti af ám í landinu eru hreinlega ræktaðar upp af þeim bændum, sem búa við þær, og það er ekkert nema gott um það að segja. Og ímyndið þið ykkur, að það hefði gengið betur að rækta upp þessar ár, ef ríkið hefði átt þær? Ég er sannfærður um, að svo hefði ekki verið, og bændur hafa unnið mjög gott verk í þessari fiskrækt. Ég er sannfærður um, að hún á eftir að taka miklum framförum enn.

Þó að við búum í harðbýlu landi, þar sem veðrátta er misjöfn, þá eigum við viss auðæfi og þar á meðal þessi vötn, sem eru enn þá ómenguð. Við eigum enn fremur vötn á heiðum, og það er ekki farið að rækta þau enn þá. Ég er viss um, að bæði má gera það og það verður gert. Það hefur réttilega verið bent á það, að útlendingar hafa fengið leigðar þessar ár til að veiða í þeim. Það má deila um það, hvort við eigum eingöngu að láta Íslendinga sitja fyrir. Útlendingarnir hafa fengið þessar ár, af því að þeir hafa borgað meira fyrir þær. Það má vera, að við höfum efni á því að neita því í framtíðinni og Íslendingar veiði eingöngu í þeim. En Íslendingar hafa vitanlega setið við alveg sama borð. Hæstbjóðandi hefur fengið þær.

Hitt er annað atriði, sem sjálfsagt er að athuga og það er að semja viturlega löggjöf í þessum efnum. Það getur vel komið til greina t.d., að viðkomandi sveitarfélög fengju einhverja ákveðna prósentu af veiðileigu og hún rynni ekki öll til bændanna, sem við árnar búa. Þess ber enn fremur að gæta, að í flestum sveitarfélögum eru það ekki öll býlin, sem fá gjald fyrir þessa veiðileigu. En við verðum að athuga það, að þegar vatnsfall myndast, þá er það visst vatnasvæði, sem vatnið safnast af, og það væri athugandi, hvort það ætti ekki að láta þessi vatnasvæði öll njóta þeirra tekna, sem verða af vatninu, sem safnast í árnar, en eigi aðeins þær jarðir, sem eiga einhverja landrönd meðfram ánum. Allt þetta má athuga. Það hefur enn fremur verið þannig, að ósjarðirnar hafa fengið mikinn hluta, mjög verulegan hluta af þessum leigum, og það er víssulega athugandi að dreifa því meira. Þetta er af því, að aðstaða þeirra er betri til að ná laxinum, en vitanlega væri enginn lax þarna, ef ekki væri vatnasvæði, sem myndaði vatnsfall. og væri þess vegna réttara að jafna þessum tekjum meira á milli þeirra, sem búa á viðkomandi vatnasvæði. Þetta er allt saman athugandi. En að ríkið færi að slá eign sinni á öll vötn í landinu, bæði ár og stöðuvötn, ég held, að það yrði ekki til bóta. Ég held satt að segja, að ráðh, okkar hafi alveg nóg að gera, þó að við förum ekki að láta þá sýsla við að hafa yfirstjórn á allri fiskrækt í landinu og öllu því kerfi, því að sannleikurinn er sá, að ástæðan fyrir því, að bændurnir eru ekki farnir að gera meira með stöðuvötnin, er einfaldlega sú að, þeir hafa ekki haft tíma til að sinna því. Og í öðru lagi veit ég ekki til, að þetta hafi verið athugað nægilega vel. Það væri miklu meiri þörf á, að einhverjir færu til þeirra landa, þar sem þróunin er orðin meiri í þessu efni. Mér er sagt, að það sé í Ameríku, — ég held, að ég hafi lesið um það, að þeir gætu undir vissum kringumstæðum skipt um silungsstofn í vötnum og ræktað upp betri silung. — Það gæti komið til greina að fóðra þennan silung, þannig að það væri hægt að hafa meira magn af honum. Ég er alveg sannfærður um, að í heiðarvötnum okkar liggja mikil auðæfi, en get ekki fallizt á, að ríkið fari allt í einu að slá eign sinni á þetta,— mér skilst á þessari till., að það ætti að vera endurgjaldslaust. Ég hef enga trú á, að framtakið yrði meira af ríkisins hálfu heldur en ég ætla, að muni verða af hálfu bænda og sveitarfélaga. Í flestum tilfellum eru það afréttirnar, sem eiga vötnin, og hefur kannske minna verið gert einmitt af því, að einstaklingarnir í sveitunum eiga ekki þessi vötn.

Ég skil það vel, að fólkið, sem býr í þéttbýlínu, langi til að fara að sumrinu út á landsbyggðina og skemmta sér, fá að tjalda þar og jafnvel að veiða smávegis. En þetta hefur það fengið. Ég veit ekki til þess að á afréttunum okkar hafi nokkurn tíma verið bannað, að fólk ferðaðist um þær, að það reisti sín tjöld þar, að það renndi fyrir silung. Við höfum ekkert skipt okkur af þessu. Við höfum horft á ferðamenn gera þetta, og ég held, að það sé heimilt að veiða sér til matar í vötnum uppi á afréttum.

Annað er það, sem getur vel komið til greina og ætti ekki að þurfa neitt eignarnám til þess eða ríkið færi að eiga allar jarðir, og það er, að ríkið ætti viss svæði. Það eru t.d. komnar í auðn sveitir norðan til á Vestfjörðum og firðirnir á milli Eyjafjarðar og Skjálfanda. Það væri ekkert við það að athuga, að þetta væri athugað og einhver sanngjörn þóknun þá borguð þeim, sem ættu, ef ríki eða bæjarfélög vildu girða þarna eitthvert ákveðið svæði, til þess að fólkið gæti verið þarna frjálst og óháð öllum. Ég fyrir mitt leyti hef ekkert við það að athuga og vildi gjarnan greiða fyrir, að svo yrði.

En ég held, að það yrði ekki til hagsbóta. fyrir þjóðfélagsheildina á nokkurn hátt og allra sízt fyrir einstaklingana, sem í þéttbýlinu búa, þó að ríkið færi að eiga landið, við mættum eiga húsin. Ef ríkið á landið, þá hlyti það að eiga túnin. Og svo mættum við braska með þetta eins og okkur sýndist eftir sem áður. Ég sé ekki annað en þetta sé hrein vitleysa. Ef ríkið ætlar að slá eign sinni á vötnin, þá getur alveg eins farið að slá þannig eign sinni á sjóinn kringum landið. Það má vera, að það þykist eiga hann, en það hefur ekki komið neitt fram. Það hafa allir fengið að veiða. Það er alveg eins ástæða til þess að taka lóðirnar í kaupstöðunum og húsin í kaupstöðunum eins og fara að taka eignir bændanna. Ef menn á annað borð aðhyllast það, að einstaklingurinn eigi ekki að fá að eiga löndin, þá er það mál út af fyrir sig. En ég hefði haldið, að það hefði ekki mikið fylgi í þessu landi. Ég hef þá skoðun á eignarréttinum, að það sé eðlilegt, að einstaklingurinn fái að eiga það, sem hann þarf að nota, og það sé engum manni til meins, þess vegna sé það alveg eins eðlilegt, að einstaklingurinn fái að eiga íbúðina, sem hann býr í, eins og fötin, sem hann er í. En hitt er svo annað mál, hvort hann á að fá að eiga margar íbúðir, þar sem aðrir menn þurfa að búa. Það getur verið umdeilanlegt. Ég hef þá skoðun, t.d. um samvinnufélögin. Ég álít, að þau eigi að leysa verkefni, þar sem það er hagkvæmara, að þau geri það, heldur en einstaklingurinn, ef þau geta gert það betur, en ef einstaklingarnir geta gert það betur, þá hafi þeir rétt til þess og eigi ekki að setja neinar skorður við því. Þetta er mín skoðun á þessum hlutum. Ég er þess vegna fús að vera með umbótum á löggjöf um veiðiréttindi manna, þ.e. arðskiptinguna. Ég álít hana vera ósanngjarna, og ég gæti vel fallist á breytingar. Ég gæti líka fallizt á það, að sveitarfélögin fengju einhverjar ákveðnar prósentur af þeim veiðitekjum, sem yrðu í hverju sveitarfélagi. En ég álít, að við eigum að lofa eigendunum að sjá um framkvæmdir og umbætur á þessum sviðum.

Þannig er það líka með jarðeignirnar í landinu. Það er orðið okkur áhyggjuefni. Það er sérstaklega áberandi hérna í nágrenni við Reykjavík. Þá eru ótal menn komnir héðan úr þéttbýlinu að reyna að ná í eignarhald á þessum jörðum. Við höfum ekkert við þetta að athuga, ef þeir vildu koma og búa uppi í sveitunum, fjarri því. Við mundum fagna því. En það er allt annað. Sumir hafa þarna hross og aðrir hafa þarna einhvern sumarbústað og hirða ekkert um jarðirnar, og sveitarfélögin fá engar tekjur af þeim. Þetta getur ekki gengið, ef við ætlum að halda einhverju menningarlífi í sveitunum. Við vitum það, sem búum í sveitunum. Þess vegna er það, að ég er því mjög fylgjandi, að það sé sett fullkomnari löggjöf um kaup og sölu jarða heldur en nú er, en ekki í þeim tilgangi, að ríkið eigi að eiga þær, því að ekki er betur hirt um þær jarðir en aðrar, heldur til að hindra það, að jarðirnar séu sama og lagðar í eyði. Og ástæðan fyrir því, að sveitarfélög hafa ekki gert meira að því að kaupa þessar jarðir, sem seldar eru og efnamenn úr þéttbýlinu kaupa, er einfaldlega sú, að þau hafa ekki haft fármagn til þess, og það er mál út af fyrir sig, hvort það ætti ekki á einhvern hátt að styrkja þan til þess. Ég get enn fremur vel fallizt á, að það verði settar einhverjar skorður við því, að menn græði á því að selja einhver svæði við þéttbýlið á uppsprengdu verði, eins og t.d. hefur gerzt í Keflavík. Það er alveg réttmætt að athuga það. En þetta er af því að það er ekki nógu viturleg löggjöf um þetta eignarnám. Það er ekkert vit í því, að menn geti grætt stórfé fyrirhafnarlaust á að eiga einhvern smáblett. En þá þarf bara að setja viturlega löggjöf um eignarnám.

Það er eðlilegt og sjálfsagt, að menn fái sanngjarnt verð fyrir það, sem af þeim er tekið, en það þarf allt að vera í hófi. En þó að þetta hafi átt sér stað í Keflavík, þá hefur það ekki alls staðar verið þannig. Það var t.d. tekið eignarnám við Blönduós, hluti af jörð, og borgaðar á þeim tíma 17 þús. fyrir, og þar fylgdi veruleg laxveiði, þannig að viðkomandi einstaklingur var féflettur. Og þannig hefur það komið víðar fyrir, að það hefur verið gert eignarnám í landi, og ef það hefur ekki verið við þessa stærri staði, þá hefur eigi verið ofborgað fyrir. En það er ekki talað um það. Það er ekki nema rétt og sjálfsagt, ef það gæti verið til bóta, að setja einhverja skynsamlega löggjöf um þessi atriði. En þetta er allt hægt að leysa án þess að fara að gera neina eignabyltingu. Það er ekki hægt að taka eignir bænda án þess að taka eignir annarra borgara. Þeir verða að athuga það, sem búa í þétthýlinu, að það verða ekki teknar eignir með valdi af einni stétt, það verður þá gert hjá fleirum. En við, sem erum borgaralega sinnaðir, aðhyllumst ekki þá kenningu. Við álítum, að það sé engum til meins, að einstaklingur fái að eiga það, sem þeir þurfa að nota. Hitt má svo um deila, hvort það eigi ekki að vera takmörk fyrir því, að menn eigi þær eignir, sem aðrir þurfa að nota til þess að geta lifað.