18.10.1972
Neðri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

18. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir mitt leyti láta í ljós stuðning við þá meginhugsun, sem fram kemur í því frv., sem hér er til umr. Það er vissulega ekki vanþörf á að styrkja Landhelgisgæzluna, og það ber þess vegna að styðja alla jákvæða viðleitni í þá átt, eins og bent hefur verið á í þessum umr.

En aðalerindi mitt hér í ræðustól nú er að taka undir sumt af því, sem hv. þm. Jón Skaftason sagði um staðsetningu Landhelgisgæzlunnar í landi. Það er alveg rétt hjá honum, að í Hafnarfirði er áhugi fyrir því, að Landhelgisgæzlan flytjist þangað með þá starfsemi, sem hún hefur í landi. Þann áhuga þekki ég m.a. sem bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Hún hefur gert ályktanir varðandi þetta mál og er tilbúin til þess að greiða fyrir því svo sem frekast er unnt, að Landhelgisgæzlan fái þar hina ákjósanlegustu aðstöðu. Og mér er einnig kunnugt um það, að þetta mál hefur verið til alvarlegrar athugunar hjá öðrum viðkomandi aðilum. Ég vil eindregið mega vænta þess, að úr því geti orðið, að Landhelgisgæzlan flytjist til Hafnarfjarðar, því að þar gæti virkilega orðið ágætisaðstaða að mínum dómi fyrir starfsemi hennar í landi. Þess vegna mun ég bera fram brtt. við þetta frv., þar sem því verði slegið föstu, að Landhelgisgæzlunni verði búin framtíðaraðstaða í Hafnarfirði.