30.11.1972
Sameinað þing: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

70. mál, öryggismál Íslands

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Mér þykir nokkur ástæða að leggja hér örfá orð í belg, þar sem hér liggur nú fyrir að mörgu leyti merkileg till. frá Alþfl. Ég vil taka það skýrt fram, að ég fagna þessari till., því að ég les í hana eins og aðrir fulltrúar stjórnarflokkanna, að hér sé Alþfl. að reyna að losna úr þeirri sjálfheldu í pólitískri afstöðu sinni til varnarmála, sem hann hefur verið bundinn í á undanförnum árum, og ég fagna því alltaf, þegar menn endurskoða úrelta afstöðu sína til mála. Hitt er svo eðlilegt, að síðasti ræðumaður, hv. 1. þm. Sunnl., legði mikla áherzlu á það, að viðhorf Sjálfstfl. og Alþfl. væru enn hin sömu, og sýnir það berlega, að hann vill sem lengst fá liðsstyrk úr þeirri áttinni, og er það eðlilegt.

Um þessa till. verð ég því miður að segja, að hún virðist nokkuð óraunhæf, og skal ég nú gera grein fyrir því. Það er tekið fram í grg., að hernaðarleg þýðing Íslands sé að ýmsu leyti meiri en áður. Þessi röksemd hefur heyrzt í þingsölum og í blöðum, alla tíð síðan herinn kom hingað til lands. Hernaðarlegt gildi varnarliðsins hefur farið sívaxandi með hverju árinu, og ég veit ekki, hvar það endar að lokum. En þetta er ósköp eðlilegt, vegna þess að við Íslendingar kunnum fátt til hernaðarlista og þurfum að leita umsagnar erlendra rannsóknastofnana í hernaðarfræðum, enda er vitnað í slíkar rannsóknarstofnanir og þá að jafnaði utanríkismálastofnunina í Osló, þar sem komizt er að þeirri niðurstöðu, að hafið í kringum Noreg sé orðið Mare Soveticum, hvorki meira né minna en rússneskt haf. Virðist okkur, þeim fákunnandi í hernaðarlistinni, að þarna sé nokkuð djúpt tekið í árinni, a.m.k. er óhætt að segja, að þarna er ákveðin viðleitni í viðhorfunum, ákveðin viðleitni til þess að magna þann vanda, sem við er að etja.

En hvað um það, ef svo er í rauninni, eins og hér kemur fram, að hernaðarleg þýðing Íslands sé meiri nú en nokkru sinni áður, er þá eðlilegt, að NATO eða það hernaðarbandalag, sem við erum aðilar að, fallist á, að hér verði óvopnuð eftirlitsstöð og hér annist eftirlitið óvopnaðar eftirlitsflugvélar, m.ö.o. hið raunverulega varnarhlutverk varnarliðsins sé þar með úr sögunni? Er eðlilegt að gera ráð fyrir því, að Atlantshafsbandalagið fallist á þessa breytingu, þar sem hernaðarlegt mikilvægi Íslands er meira nú en nokkru sinni fyrr? Ég vil líka benda á það, að í grg. kemur fram efst á bls. 2, að stefnubreyting hafi orðið hjá Atlantshafsbandalaginu eftir Kóreustyrjöldina, þannig að ekki var lengur við það unandi að hafa eftirlitsstöðvar, heldur var nauðsynlegt að koma á sameiginlegu varnarkerfi og herstjórn, sem átti að vera við öllu búin, og sendur her til Grænlands, Íslands og Azoreyja. M.ö.o.: stefna Atlantshafsbandalagsins samkv. þessari grg. er sú að hafa á staðnum her. Ég fæ því ekki betur séð en að grg. sjálf og till. séu í hrópandi mótsögn hvor við aðra. Hér gætir alveg einstakrar bjartsýni. Hins vegar legg ég ríka áherzlu á, að þótt ég hafi enga trú á því, að þessi könnun leiði til þess, að hernaðarsérfræðingar NATO fallist á það, að í stað varnarliðsins á Íslandi komi hér óvopnuð eftirlitsstöð og óvopnaðar eftirlitsflugvélar, þá er engu að síður fagnandi, að Alþfl. skuli nálgast vinstri flokkana í þessum málum, og það tel ég höfuðávinning í þessari tillögugerð, þ.e.a.s. að reyna að víkja frá þeirri hugsun, að hér þurfi að vera varnarlið um aldur og ævi. Það er þetta, sem er grundvallaratriðið.

Næsta skrefið verður svo væntanlega hjá Alþfl. að koma alveg yfir til stjórnarflokkanna og vinna að því, að hernum verði komið á brott.

Að lokum ætla ég aðeins að segja nokkur orð. Það er mikið talað um endurskoðun varnarsamningsins og lögð mikil áherzla á það, að brottför hersins verði komin undir því, hver verður niðurstaðan af endurskoðun varnarsamningsins. Um þetta vil ég segja: Það verður þá að halda þannig á endurskoðun varnarsamningsins, að réttir aðilar séu að spurðir. Ef endurskoðun varnarsamningsins á að fara fram á þá lund að láta Pentagon í Bandaríkjunum eða aðalstöðvar NATO segja okkur um, hversu mikilvæg þessi hernaðarstöð er, þá er tómt mál að ræða um endurskoðun. Það er barnaskapur og það er bara að fresta málinu, ef menn halda, að endurskoðun varnarsamningsins leiði eitthvað sérstakt í ljós, ef spurðir eru bara ákveðnir hernaðarsérfræðingar. Það er bara að blekkja sjálfan sig. Það verður líka við endurskoðun varnarsamningsins að athuga íslenzkar röksemdir, og ég kalla það bæði félagslegar og menningarlegar röksemdir. Þetta legg ég mikla áherzlu á. En þeir menn, sem treysta því, að leitað verði eingöngu umsagnar einhverra hernaðarsérfræðinga og í trausti þeirrar niðurstöðu fái þeir að halda hernum hér áfram og jafnvel auka herliðið á Keflavíkurflugvelli, mega ekki fara með sigur af hólmi í þessu máli. Hér verður að taka miklu fleira til greina heldur en hernaðarsérfræðinga, sem hafa það eitt á dagskrá að verja hernaðarmátt eigin veldis eða stórveldis.