05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

62. mál, bankamál

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Ég vil þakka bankamálarh. fyrir svörin, og má segja, að sumt hafi verið gott við þau og annað ekki.

Fyrsta spurningin, sem var um, hvaða sjónarmið voru höfð í huga við val mann í n. þá, sem skipuð var s.l. sumar til að endurskoða bankakerfið, er auðvitað sprottin að þeirri tilskipan að skipa í þessa n. eingöngu menn úr bankakerfinu og eins konar fulltrúa frá hverjum einstökum banka. Ég hef mikla vantrú á því, að unnt sé að breyta ákveðnu og rótgrónu kerfi með setu þeirra manna í n., sem eru beinlínis fulltrúar ríkjandi kerfis. Það hefði e.t.v. ekki verið óeðlilegt að taka einhverja menn úr þjóðfélaginu, t.d. úr hópi viðskiptamanna banka, eins og bankamálaráðh. minntist á áðan, og leyfa þeim að sitja í þessari bankanefnd. Það er skoðun mín, að þessi skipun bankanefndarinnar sé dæmi um það, hvernig ekki á að skipa n. Mér sýnist, að n. hafi starfað vel, og þingheimur bíður sjálfsagt fullur eftirvæntingar eftir þeim till., sem fram koma frá þessari n., og það vakna að sjálfsögðu ýmsar spurningar, hver árangurinn verði. Ég hef heyrt, að ætlunin sé að sameina ákveðna banka og þá kannske sérstaklega Útvegsbankann og Búnaðarbankann. En þá skýtur svo skökku við, að þegar sameiningin er í vændum eða fyrirsjáanlega, er verið að ráða nýjan bankastjóra við Útvegsbankann, og hefði þó mátt ætla, að væri heppilegt að hafa það starf laust í sambandi við sameiningu bankanna. Það virðist svo sem að þessu sé staðið þannig, að það sé ekki gert ráð fyrir neinni verulegri kerfisbreytingu eða sameiningu þessara banka.

Varðandi starfsfólk ríkisbankanna er ég á algerlega öndverðum meiði við bankamálaráðh. Ég tel ekki nema eðlilegt, að starfsfólk eigi þar aðild, þótt ekki væri nema eitt sæti í bankaráði. Ég hygg, að það sé mjög eðlilegt og sjálfsagt og gildi almennt, að starfsfólk eigi hlutdeild í stjórn þeirra stofnana, sem beinlínis ráða starfsvettvangi fólksins og því fyrirtæki, sem það starfar við. Auðvitað er þetta eðlilegt stjórnunarlýðræði, sem Alþ. ætti að koma upp hjá ríkisstofnunum.

Að lokum þetta varðandi 4. spurninguna, sem ráðh. svaraði með jái og neii: Mér hefði þótt æskilegt, að hann sjálfur hefði kveðið upp úr um það, að hann mundi sjá til þess, þegar staðið yrði að hinni væntanlegu lagabreytingu, að þá kæmi slíkt fram, að bankastjórastöður yrðu auglýstar, en yrði ekki einhvers konar fyrirbæri í því, sem ég hef kallað samtryggingakerfi flokkanna, þannig að miðstjórnir flokkanna geri sér leik að því að ákveða sjálfar, hverjir hljóti bankastjórastöðurnar. Sannleikurinn er sá, að það þarf að fá dálítinn gust inn í bankakerfið og flokkarnir þurfa að hætta að leika sér að bankastjórastöðunum eins og þeir séu í kýluboltaleik.

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson): Herra forseti. Þessar fsp. eru svo einfaldar og augljósar, að ég álít óþarft að fylgja þeim úr hlaði með nokkrum sérstökum skýringum.