19.10.1972
Neðri deild: 5. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Við verðákvörðun á fiski fyrir verðlagstímabilið 1. okt. til 31. des. á þessu ári kom í ljós, að nauðsynlegt væri að hækka fiskverð allverulega til þess að jafna launakjör sjómanna við það, sem launakjör annarra stétta segja yfirleitt til um, og einnig í því skyni að bæta afkomu útgerðarinnar í landinu, en fyrir lá, að veruleg aflaminnkun hafði orðið á þessu ári, og af þeim ástæðum sérstaklega hafði hagur útgerðarinnar versnað og laun sjómanna orðið minni en ráð hafði verið fyrir gert. Eins og kunnugt er, hefur Verðlagsráð sjávarútvegsins með þessi verðákvörðunarmál að gera. Ráðið fjallaði um málið og hafði það í sínum höndum, þar til fullt samkomulag hafði tekizt innan ráðsins, og því kom aldrei til þess, að málinu væri vísað til yfirnefndar til úrskurðar, eins og þó á sér stað æðioft. Það lá fyrir í sambandi við athuganir, sem fram höfðu farið, að vegna minnkandi aflamagns mundi láta nærri, að launakjör sjómanna hefðu orðið 12–15% lakari en ráð hafði verið fyrir gert. Það kom einnig í ljós, að vegna minnkandi fiskafla hefði afkoma bátaflotans orðið lakari, sem væri sennilegt að næmi 250–300 millj. kr. á ársgrundvelli.

Sérstök athugun hafði farið fram um það, hvernig ástatt væri með rekstrarafkomu frystihúsanna í landinu. Þar höfðu unnið að fulltrúar frá sjútvrn., hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins og fiskiðnaðinum. Þessir aðilar skiluðu sameiginlegu áliti, og þar kom fram, að þeir teldu, að tvennt hefði aðallega komið til, til þess að gera rekstrarafkomu frystihúsanna í landinu lakari en reiknað hafði verið með við fyrri verðlagsákvarðanir. Annað var það, að fiskmagn frystihúsanna hefði minnkað verulega, og hitt, að sá afli, sem frystihúsin hafa fengið til vinnslu, hefur verið þeim óhagstæðari í rekstri, þar sem þar hefur aðallega verið um aukningu á þeim fisktegundum að ræða, sem ekki hafa hækkað í verði á erlendum markaði, en hinar tegundirnar hafa dregizt mest saman, þar sem mest hefur verið hækkunin á erlendum markaði. Í áliti þessarar n, segir m.a. sem meginniðurstaða um þessa athugun það, sem hér skal greint: „Það er sameiginlegt álit okkar, að meginniðurstaðan af þessum athugunum sé sú, að vegna minnkandi framleiðslumagns frá fyrra ári og vegna afurðarýrara hráefnis hafi hagur frystihúsanna versnað á ársgrundvelli um 200–250 millj. kr. frá því, sem áætlað hafði verið við síðustu fiskverðsákvarðanir í yfirnefnd verðlagsráðs sjávarútvegsins“. Nánar kemur það svo fram í grg. þessarar n., að hún telur, að þessir tveir liðir vegi mjög svipað í sambandi við rekstrarútkomuna, þ.e.a.s. hið minnkandi aflamagn og samsetning aflans. Það er svo bent á það einnig í þessari skýrslu n., að þó að rekstrarafkoman út af fyrir sig hafi versnað um þetta af þessum tveimur ástæðum, þá komi hér annað til, sem verði hins vegar til þess að bæta rekstrarafkomuna, og er þá bent á það, að nýleg hækkun á fiskmjöli muni nema í auknum tekjum fyrir frystihúsin í landinu 100–120 millj. kr. á ársgrundvelli.

Samkv. þessari niðurstöðu hefði í rauninni mátt ætla, að rað hefði átt að duga frystihúsunum í landinu að fá sem nemur 150 millj. kr. á ársgrundvelli í auknar tekjur til þess að búa við þá afkomu, sem reiknað hafði verið með í ársbyrjun. En það skal hins vegar tekið fram, að frystihúsaeigendur voru engan veginn ánægðir með þá niðurstöðu, sem þá var ákveðin í yfirnefnd verðlagsráðsins, en þá var gert ráð fyrir því, að rekstrarafkoma frystihúsanna í landinu yrði nokkru lakari en hún hafði verið árið á undan, sem varð að teljast mjög hagstætt ár. Það lá því alveg ljóst fyrir við fiskverðsákvörðunina nú að þessu sinni, að bað þurfti að hækka fiskverðið til þess að bæta launakjör sjómanna og til þess að vega nokkuð upp fyrir bátaflotann í landinu minnkaði aflamagn hans, en hins vegar stæði svo á, að fiskkaupendur og þá fyrst og fremst frystihúsaeigendur í landinu gætu ekki risið undir því að greiða hækkandi fiskverð. Það var við þessar aðstæður, sem það var ákveðið að fallast á þá till., sem Verðlagsráð sjávarútvegsins gerði, að fiskverð hækkaði nú á þessu verðtímabili um 15%, en að sú verðhækkun yrði greidd með sérstöku framlagi úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og auk þess kæmi til nokkur viðbótargreiðsla úr verðjöfnunarsjóði til fiskiðnaðarins til greiðsla úr verðjöfnunarsjóði til fiskiðnaðarins til þess að mæta þar nokkuð versnandi rekstrarafkomu. Í þessum efnum var fallizt á till. Verðlagsráðs sjávarútvegsins að öðru leyti en því, að sú till., sem ráðið gerði um greiðslu til frystihúsanna, var lækkuð nokkuð, þannig að greiðslan til þeirra á þessu tímabili yrði ekki eins mikil og ráðið hafði gert ráð fyrir. En þó var fallizt á það, að greiðslan til frystihúsanna yrði allmiklu meiri en sem því næmi að jafna stöðu frystihúsanna við það, sem áður var.

Þá vil ég einnig að gefnu tilefni undirstrika það, að það hefur komið í ljós við þessar athuganir og er staðfest af hagrannsóknastjóra, að rekstrarútgjöld frystihúsanna ern nánast þau sömu og reiknað hafði verið með við verðlagninguna í ársbyrjun og eins á miðju ári, en við bær ákvarðanir hafði verið tekið fullt tillit til þeirra kauphækkana, sem um hafði verið samið og vitað var um. Versnandi hagur frystihúsanna að þessu leyti til stafar því af minnkandi afla og óhagstæðari hráefnum. Varðandi aflaminnkunina má á það benda, að séu 3 aðalfiskitegundirnar teknar, sem frystihúsin byggja rekstur sinn mest á, þ.e.a.s. þorskur, ufsi og karfi, þá sýna tölur, að heildarmagn þessara tegunda minnkaði frá árinu á undan um 13% á 8 fyrstu mánuðum ársins. Þorskurinn hafði minnkað um 16%. Það eru þessar sveiflur, sem hafa gert það að verkum, að afkoman hjá útgerðinni hefur orðið miklu lakari en reiknað hafði verið með.

Það hefur auðvitað alltaf verið svo, þegar fiskverð hefur verið ákveðið, að þá hafa verið uppi misjafnar skoðanir um það, hver ætti í rauninni að vera rekstrargrundvöllur fiskiðnaðarins í landinu og hver ætti að vera rekstrargrundvöllur bátaútgerðarinnar: Það þarf auðvitað engan að undra, hó að eigendur frystihúsanna í landinu hafi jafnan viljað fá betri afkomu sér til handa en um hefur samizt að lokum eða úrskurður hefur verið felldur um að lokum. Frystihúsaeigendur hafa sett fram kröfu um það, að áætlanir um rekstur frystihúsanna yrðu gerðar þannig, að þeir hefðu ekki aðeins fyrir fullum afskriftum, heldur þar að auki sem næmi 5% ágóða miðað við umsetningu frystihúsanna.

Um síðustu áramót var gert ráð fyrir því, að frystihúsin hefðu í rekstrarafgang sem næmi á ársgrundvelli 300 millj. kr., þar af ættu að ganga í afskriftir í kringum 140 millj. kr. og sennilega þyrftu síðan húsin að greiða í skatta sem næmi 50–60 millj. kr., en afgangurinn átti þá að verða sem hreinn hagnaður bar umfram. Þessar áætlanir voru sem sagt miðaðar við það, að rekstrarafkoma húsanna yrði nokkru lakari en hún hafði verið. Þetta var sú niðurstaða, sem meiri hl. yfirnefndar verðlagsráðs náði samkomulagi um, bæði í upphafi ársins og eins síðar, á miðju ári, þó að frystihúsaeigendur væru þar ekki fullkomlega ánægðir.

Það samkomulag, sem nú hefur verið gert, þýðir, að sé reiknað með því, að landað aflamagn til fiskvinnslunnar í landinu nemi 400 millj. kr. á hinu eldra fiskverði á verðlagstímabilinu frá 1. okt. til ársloka, þá mundu greiðslur samkv. þessu samkomulagi, sem hér er nú lagt til að lögfesta, nema í kringum 88 millj. kr. úr verðjöfnunarsjóði. 60 millj. kr. mundu þá gagna til þess að greiða 15% fiskverðshækkun, 26 millj. kr. mundu ganga til þess að bæta rekstrarafkomu frystihúsanna, og 2 millj. kr. mundu ganga til þess að bæta afkomu saltfiskverkunarinnar í landinu. Þessi viðmiðun, að landað aflamagn muni nema 400 millj. kr. á þessu ári, er ákveðin þannig, að þar er um nokkru meira heildaraflamagn að ræða en reyndist vera á s.l. ári, en hver aflinn verður á þessu tímabili, er auðvitað ekki hægt að segja um fyrir fram. Reynist aflamagnið minna, verður greiðslan úr verðjöfnunarsjóði tilsvarandi lægri, en ef aflamagnið reyndist meira, yrði heildargreiðslan úr verðjöfnunarsjóði meiri.

Fiskverðið að þessu sinni var ákveðið þannig, að fyrst skyldi koma til 10% almenn fiskverðshækkun, sem dreift yrði á fisktegundir eftir ákvörðun Verðlagsráðs sjávarútvegsins og þá að sjálfsögðu miðað við það, hvað talið væri markaðsverð á hverri tegund. En auk þess var svo ákveðið, að til skyldi koma 5% viðbótarfiskverðshækkun á þessu tímabili og sú fiskverðshækkun skyldi ganga jafnt yfir allar tegundir. Þetta var ákveðið m.a. vegna þess, að í ljós kom, að annars hefði farið svo, að ekki hefði verið unnt að hækka karfaverð að neinu leyti og ekki heldur ufsaverð, en hækkunin á þorski og öðrum tegundum hefði þá orðið tilsvarandi meiri. En þar sem hækkunin á þorski og skyldum tegundum var nú greinilega allmikil, þar sem hún var ákveðin 19%, þótti réttmætt að tryggja við þessa afgreiðslu, að nokkur fiskverðshækkun kæmi einnig fram á þessum tegundum eða til þeirra aðila, sem einkum veiða þessar tegundir, sem standa svona miklu verr í sölunni erlendis.

Það hefur í sambandi við þetta mál nokkuð verið á það minnzt, hvernig með þessi mál ætti að fara á næsta ári, hvort áfram ætti þá að greiða úr verðjöfnunarsjóði til þess að gera það kleift að halda uppi þessu fiskverði og þessari rekstrarafkomu fyrir fiskiðnaðinn í landinu. Að sjálfsögðu hefur engin ákvörðun enn verið tekin um það, hvernig þessum málum verður hagað á næsta ári. Það verður eins og venjulega gengið til þess verks í des. að kanna allar aðstæður útgerðarinnar og kanna það á milli þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, um hvað getur orðið samkomulag varðandi fiskverð og varðandi rekstrarafkomu hinna einstöku greina sjávarútvegsins. Og þegar ákvarðanir verða teknar um það, verður að sjálfsögðu að taka inn í það dæmi heildarmyndina alla, þ.e.a.s. rekstur einstakra greina, þar sem reksturinn nú stendur miklu betur en á þeim greinum, sem hér var einkum fjallað um. Síðan þessi ákvörðun var tekin, hefur t.d. verð á fiskmjöli hækkað enn verulega, og allar horfur eru á því, að reikna megi með mjög góðri afkomu hjá bátaflotanum og sjómönnum á komandi loðnuvertíð. Fiskverðsbreytingar á erlendum mörkuðum eiga sér líka oft stað á þessu tímabili á haustmánuðum og framan af vetri, og það verður að sjálfsögðu eins og venjulega að taka fullt tillit til þess, þegar nýr rekstrargrundvöllur verður ákveðinn.

Þá gefur einnig auga leið, að staða efnahagsmálanna almennt kemur mjög inn í þessa mynd, því að afkoma frystihúsanna í landinu fer að sjálfsögðu eftir því, með hvaða kaupgjaldi á að reikna, hver verður kaupgjaldsvísitalan á næsta ári, og margt annað kemur hér til greina. Það verður sem sagt að sýna sig síðar, hvaða ráðstafanir verður að gera í des., til þess að hægt verði að tryggja sjómönnum sambærileg launakjör á við aðrar stéttir og til þess að hægt verði að tryggja útgerðinni í landinu viðunandi rekstrarafkomu.

En um greiðsluna úr verðjöfnunarsjóði vildi ég segja það, að því hefur nokkuð verið haldið fram, að það væri óeðlilegt að reikna nú með þessari greiðslu úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, vegna þess að sá sjóður hefði verið hugsaður til þess að standa aðeins undir verðlækkun, sem verða kynni á mörkuðum erlendis. Þetta er ekki með öllu rétt, því að lögin um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins gera beinlínis ráð fyrir því, að viðmiðunarverð verðjöfnunarsjóðs skuli ákveðið með hliðsjón af almennri rekstrarafkomu sjávarútvegsins í landinu, enda hefur það verið gert margsinnis, þegar viðmiðunarverð hefur verið ákveðið að undanförnu. í sjálfu sér er enginn munur á því fyrir sjávarútveginn, hvort hann verður fyrir áföllum á þann hátt, að aflinn minnkar og tekjurnar verða minni af þeim ástæðum, eða hvort verðlag lækkar og tekjurnar minnka á þann hátt. Ég tel því fyrir mitt leyti, að það hafi verið sjálfsagt að verða við því að greiða þessa tiltölulega lágu fjárhæð, sem hér er um að ræða, úr verðjöfnunarsjóði fyrir þetta tímabil, sem gjarnan er eitt veikasta rekstrartímabil útgerðarinnar í landinu, og hefði enda talið furðulegt að ætla að halda útgerðinni í kreppu á þessum tíma, á sama tíma sem þessi sjóður er jafnstór og hann er nú.

Hitt var hins vegar skoðun stjórnar verðjöfnunarsjóðsins og eins ríkisstj., að rétt væri að þessu sinni, að greiðslur úr verðjöfnunarsjóði yrðu með þeim hætti, sem lagt er til í þessu frv., þ.e.a.s. úr sjóðnum yrði tekin tiltekin fjárhæð, sem skipt yrði eftir ákveðnum reglum, en ekki á þann hátt, að viðmiðunarverði í sjóðnum yrði breytt. Viðmiðunarverð verðjöfnunarsjóðs stendur því í öllum aðalatriðum óbreytt á næsta verðlagstímabili eða til ársloka.

Ég geri nú ráð fyrir því, að þetta frv. gangi til n. og verði athugað þar, en ég legg áherzlu á, að það geti fengið afgreiðslu hið fyrsta, því að hér er um það að ræða að staðfesta samkomulag, sem orðið hefur varðandi fiskverðsákvörðunina, þá fiskverðsákvörðun, sem raunverulega er komin til framkvæmda.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn. til fyrirgreiðslu.