19.10.1972
Neðri deild: 5. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég stend upp fyrst og fremst til þess að lýsa þeirri skoðun minni og míns flokks, að það hljóti að teljast í alla staði óeðlilegt að ráðstafa Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins til styrktargreiðslna til handa ákveðnum greinum útvegsins með hliðsjón af því markmiði sem verðjöfnunarsjóðnum er sett í lögum um hann. Ég þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þm., í hvaða skyni verðjöfnunarsjóðurinn var stofnaður. Honum var frá upphafi ætlað það hlutverk að auðvelda íslenzkum sjávarútvegi að mæta verðfalli erlendis, en í ljós hafði komið á undanförnum áratug, að brýn þörf var á því, að slíkur sjóður væri til í íslenzku efnahagskerfi. Um það vona ég, að ekki geti talizt neinn ágreiningur. Nú er sjóðnum hins vegar ráðstafað í öðru skyni. Honum er ráðstafað til styrktar ákveðnum greinum íslenzks sjávarútvegs, sem ég ber engan veginn á móti, að hafi þurft á styrk að halda, eins og málum er komið, en sá styrkur er veittur úr sjóði, sem Alþ. hefur ætlað annað hlutverk. Þetta er í raun og veru viðurkennt af hálfu hæstv. ríkisstj. með því að flytja frv. um breytingu á lögum sjóðsins. Í því felst auðvitað viðurkenning á því, að gildandi lög gerðu ekki ráð fyrir slíkri notkun sjóðsins sem hér er um að ræða. Það er óneitanlega andkannalegt, óneitanlega óeðlilegt að ráðstafa sjóði, sem ætlaður er til þess að mæta verðlækkun, sem auðvitað getur orðið hvenær sem er, á ríma, þegar verðlag á íslenzkum sjávarafurðum erlendis er hærra en nokkru sinni fyrr. Þetta er hins vegar í raun og veru svo mikið rætt mál, að ég sé ekki ástæðu til þess við 1. umr. málsins að gera þetta ýtarlega að umtalsefni. Hér er um augljósar staðreyndir að ræða.

Það, sem ég vil sérstaklega vekja athygli á í þessu sambandi, er, að þarna er um rímamótaatburð að ræða, að með þeirri ráðstöfun, sem ríkisstj. þegar hefur tekið ákvörðun um og þessu frv. er ætlað að staðfesta, er í raun og veru verið að koma á uppbótakerfi aftur. Það er aftur verið að taka upp það uppbótakerfi, sem lengstum var hér við lýði á áratugnum 1950–1960, — kerfi, sem reyndist leiða til spillingar, — kerfi, sem reyndist leiða til rangrar hagnýtingar á framleiðsluþáttum, — kerfi, sem reyndist smám saman leiða til óhagkvæmni í framleiðslu og sölu.

Ég vil hér vekja athygli á og spyrja hæstv. sjútvrh.: Er hér eingöngu um bráðabirgðaúrræði eða bráðabirgðaástand að ræða. Er þessi ráðstöfun á fé verðjöfnunarsjóðs til bótagreiðslna handa tilteknum greinum sjávarútvegsins eingöngu bráðabirgðaákvörðun? Er hér eingöngu um bráðabirgðafyrirkomulag að ræða? Eða er hér um að ræða viljandi, skýra stefnumótun í þá átt, að leysa skuli vandræði sjávarútvegsins eftir uppbótaleiðinni? Þetta tel ég mjög æskilegt, að verði upplýst, ef ráðh. treysta sér til að upplýsa það. Það skiptir meginmáli fyrir íslenzka efnahagsstefnu, fyrir stefnuna í íslenzkum efnahagsmálum yfir höfuð að tala, hvort þessari ráðstöfun er eingöngu ætlað að gilda í þá þrjá mánuði, sem á skortir, að ríkisstj. hafi getað gert upp hug sinn um það, hver raunverulega eigi að vera stefnan í efnahagsmálunum. Er hér eingöngu um að ræða bráðabirgðaráðstöfun. Út af fyrir sig mætti segja, að það gæti verið viss afsökun fyrir því að taka þetta fé úr verðjöfnunarsjóði, fyrst ríkisstj. hefur ekki gert hug sinn upp almennt um málið. Ef aftur á móti er um upphaf að nýrri stefnu í íslenzkum efnahagsmálum að ræða, ef hér er um að ræða upphaf nýs uppbótakerfis, þá er hér um miklu, miklu alvarlegra mál að ræða, — ef svo er, ef meiningin er að leysa vanda sjávarútvegsins á næsta ári eftir líkum leiðum og þessum, þá hlyti næsta spurningin að vera: Á að ganga áfram á verðjöfnunarsjóðinn eða á hann að fá að vera í friði á árinu 1973 og afla annarra tekna til þess að standa undir fjárþörf uppbótakerfisins, sem auðvitað verður um að ræða?

Ég hlýt að vekja athygli á því, að alveg augljóst er, og ég er sannfærður um, að manni, sem þekkir jafnvel til íslenzks sjávarútvegs og hæstv. sjútvrh., er það jafnvel enn ljósara en mér, sem auðvitað á ekki aðgang að jafnglöggum skýrslum um þessi efni og hann sjálfur á, honum er áreiðanlega ljóst, að vandi íslenzks sjávarútvegs á árinu 1973 er miklu meira en fjórfaldur á við þann vanda, sem við er að etja á þrem síðustu mánuðum þessa árs. Vandinn þá verður miklu meira en fjórfaldur á við vandann á síðasta ársfjórðungi þessa árs. Hvað hyggst ríkisstj. fyrir í þessum efnum? Ætlar hún að leysa þann vanda eftir uppbótakerfisleiðinni, og ef hún ætlar að gera það, ætlar hún að halda áfram á þeirri braut, sem hér er mörkuð, að ganga á verðjöfnunarsjóðinn? Ég vil óska þess, að hæstv. ráðh. svari þessari spurningu þannig, að hann segi: Það, sem hér er verið að gera, er alger bráðabirgðaráðstöfun, og í því felst engin stefnuyfirlýsing um það, að þannig muni verða haldið áfram á næsta ári. — Það mundi gleðja mig ef hæstv. ráðh. gæfi skýra yfirlýsingu um, að þó að gengið hafi verið á verðjöfnunarsjóðinn á þrem síðustu mánuðum þessa árs, þá muni það ekki verða gert á árinu 1973, ekki verða gert á næsta ári. En þm. fá það og alþjóð fær það væntanlega upplýst, hvað hæstv. sjútvrh. hefur að segja um þessi mjög svo mikilvægu atriði.