23.10.1972
Sameinað þing: 5. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

1. mál, fjárlög 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta er í fyrsta sinn, að 1. umr. um fjárlagafrumvarp fer fram eftir nýjum þingsköpum Alþingis, og er nú ekki gert ráð fyrir útvarpsumræðu. Ég mun þó fylgja því formi, sem venja hefur verið að fylgja í fjárlagaræðum, og skipta efni ræðunnar í meginatriðum í fjóra hluta. Fyrst geri ég grein fyrir afkomu ársins 1971. Þar stikla ég þó á stóru, enda er sami háttur hafður á nú og á s.l. ári, að hv. þingmönnum og fjölmiðlum er látin í té nákvæm greinargerð um afkomu þess árs gerð af fjmrn. Auk þess var hv. alþingismönnum afhentur ríkisreikningurinn fyrir árið 1971 þegar í upphafi þessa þings. Annar þáttur fjárlagaræðunnar fjallar um útlitið með rekstrarafkomu ríkissjóðs á þessu ári, eins og nú verður séð. Þriðji þátturinn fjallar um fjárlagafrumvarp þetta, og sá fjórði um ýmsa þætti ríkisbúskaparins og breytingar á honum, sem nú er unnið að eða fyrirhugaðar eru.

Geri ég þá fyrst grein fyrir afkomu ársins 1971.

Niðurstöður ríkisreikningsins fyrir árið 1971 eru þær, að tekjur reyndust 13 258 millj. kr., en rekstrarútgjöldin 13 534 millj. kr. Halli á rekstrarreikningi var því 276 millj. kr. Greiðslujöfnuðurinn í heild reyndist óhagstæður á árinu um 339 millj. kr.

Heildartekjur ríkissjóðs voru á fjárlögum fyrir árið 1971 áætlaðar 11 535 millj. kr. Í reynd urðu það 13 258 millj., sem á var lagt og til féll eftir gildandi reglum og fært var til tekna á ríkisreikningi, eða 1723 millj. kr. hærra en fjárlög áætluðu.

Ríkistekjur, sem inniheimtar voru á árinu, reyndust 12955 millj. kr. eða 1420 millj. kr. umfram áætlun fjárlaga. Stærstu liðirnir á tekjufærslureikningi, sem fóru fram úr áætlun, voru aðflutningsgjöld 738 millj. kr., söluskattur 275 millj. kr., tekju- og eignarskattur 200 millj. kr. Innflutningsgjald af benzíni og gúmmígjald 155 millj. kr. og launaskattur 132 millj. kr. Nokkrir tekjuliðir reyndust lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir, einkum þó þrír.

Hagnaður af Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins varð 20 millj. kr. lægri en áætlað var, námsbókagjaldið 19 millj., en það var fellt niður á árinu, og álgjaldið var 12 millj. kr. undir áætlun fjárlaganna. Innheimta ríkistekna hefur farið hlutfallslega batnandi á síðari árum, t.d. voru persónuskattar innheimtir að 76.2% árið 1971 á móti 73.8% árið áður, tekju- og eignarskattur 73.9% á móti 71.4% árið áður og söluskattur 99.1% á móti 98.8% árið áður.

Gjöld ríkissjóðs skv. rekstrarreikningi A-hluta reyndust 13 534 millj. kr. eða 1 742 millj. kr. umfram fjárlög ársins 1971 og aðrar sérstakar beinar heimildir til útgjalda.

Fjárlög ársins námu 11023 millj. kr., en aðrar heimildir voru 769 millj. kr. Af þeirri fjárhæð voru 339 millj. kr. vegna nettóhækkunar þeirra tekna, sem markaðar eru ákveðnum framkvæmdum og stofnunum og hafa því bein áhrif til hækkunar gjalda. Heimildir til lántöku og sölu eigna til að standa undir ýmsum gjöldum, einkum stofnkostnaði, námu 430 millj. kr.

Svonefndir markaðir tekjustofnar voru um 40 að tölu á árinu 1971. Af þeim var nær fjórðungur að tölu til lægri í tekjufærslu reiknings en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Varð þetta til lækkunar á gjöldum um 28 millj. kr. Mestu nam, að framleiðslugjald af áli til Atvinnujöfnunarsjóðs varð 12 millj. kr. lægra en gert var ráð fyrir og að aðflutningsgjöld af sjónvarpstækjum, sem renna til Sjónvarpsins, urðu 7 millj. kr. lægri en í áætlun fjárlaga. Ýmsir markaðir tekjustofnar reyndust hins vegar hærri en áætlun fjárlaga, og nam það 367 millj. kr. Sú hækkun kom sem viðbót við fjárlagaheimildir og kemur fram í gjaldfærslu reikningsins. Mest munaði um tekjur Vegagerðar ríkisins, innflutningsgjald af benzíni, gúmmígjald og þungaskatt, svo og veggjald, er samtals reyndust 232 millj. kr. hærri en fjárlög áætluðu. En innflutningsgjald af benzíni og þungaskattur voru hækkuð með lögum nr. 98/1970. Mörkuðu tekjurnar fela í sér lögboðna gjaldfærslu jafnframt því að koma sem tekjur og verða því að teljast til hækkunar fjárlagaheimilda, en sú reikningsmeðferð hefur þó í raun og veru ekki áhrif á rekstrarlega niðurstöðu ríkissjóðs í þrengri merkingu.

Gjaldfærsla, sem er byggð á lántökuheimildum og öðrum sérstökum heimildum, hefur hins vegar bein óhagstæð áhrif á rekstrarniðurstöðu ríkissjóðs skv. A-hluta ríkisreiknings. Slíkar beinar heimildir námu, eins og áður er sagt, 430 millj. kr., fyrst og fremst á grundvelli framkvæmda- og fjáröflunaráætlana fyrir árið 1971. Af þeirri fjárhæð voru 303 millj. kr. til Vegagerðar ríkisins, 61 millj. kr. til Landsvirkjunar og jarðvarmaveitna, 42 millj. kr. koma til utanrrn. til byggingar lögreglustöðvar. Til Kleppsspítala og Rannsóknaráðs ríkisins fóru samtals 24 millj. kr. Hefðu þessar gjaldfærslur ekki komið til. hefði rekstrarniðurstaða ársins 1971 ekki orðið óhagstæð um 276 millj. kr., heldur hagstæð um 154 millj. kr. Gjaldfærsla á grundvelli lántökuheimilda hefur hins vegar ekki áhrif á greiðslujöfnuð.

Skal ég nú gefa nokkra heildarmynd af þessum liðum, sem urðu umfram gjaldamegin. Eins og kunnugt er, voru áhrif kjarasamninga ríkisstarfsmanna frá í desember 1970 ekki kunn, þegar fjárlagafrv. fyrir árið 1971 var afgreitt. Talið var, að greiðsluafgangur þess, að fjárhæð 270 millj. kr., mundi nægja fyrir þeim útgjöldum, er leiddi af þessum kjarasamningum, en mikið vantaði á það.

Af þeim 823 millj. kr., sem almenn rekstrargjöld fóru fram úr áætlun fjárlaga, var meginhlutinn, eða 577 millj. kr., aukin launagjöld vegna kjarasamninganna. Það er 307 millj. kr. hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir, þegar reiknað var með því, að greiðsluafgangur fjárlaga 1971 mundi hrökkva fyrir þessu.

Önnur umframgjöld, sem mest munar um, voru tilfærslur, svo sem til Tryggingastofnunar ríkisins 245 millj. kr., til ríkisspítalanna 82 millj. kr., m.a. vegna rekstrarhalla frá fyrri árum, til flugmála 33 millj. kr., útflutningsbætur 132 millj. kr. og auknar niðurgreiðslur 463 millj. kr.

Ég gat þess í fjárlagaræðu minni í fyrra, að verulegar ónákvæmni gætti í fjárlögum fyrir árið 1971, og ber það, sem ég hef nú greint frá, vitni þess, að það hefur ekki verið ofmælt.

Af því, sem að framan er rakið, sést, að með réttu má segja, að þessi vanáætlun á útgjöldum fjárlaganna 1971 hafi verið rúmlega 1000 millj. kr.

Í fjárlagaræðu minni í fyrra gerði ég ráð fyrir, að útgjaldaaukning ríkisins vegna ákvarðana fyrrverandi ríkisstj. gæti numið um 640 millj. kr. Nú er í ljós komið, að þetta varð um 300–400 millj. kr. meira en ég gerði þá ráð fyrir. Til viðbótar þessu koma svo óhagstæð áhrif vegna notkunar lántökuheimilda á rekstrarreikningi ríkissjóðs, sem nema um 430 millj. kr. Með þessu reiknaði ég ekki heldur í fjárlagaræðu minni í fyrra. Það er því ljóst, að um tekjuafgang hefði orðið að ræða hjá ríkissjóði á s.l. ári, þrátt fyrir ákvarðanir núv. ríkisstjórnar um útgjöld vegna almannatrygginga og niðurgreiðslna, ef þessi auknu útgjöld hefðu ekki komið til. og jafnvel eru líkur til þess, að greiðslujöfnuður hefði náðst.

Það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að af umframgjöldum ríkissjóðs á árinu 1971 var meiru ráðstafað af fyrrverandi en núverandi ríkisstjórn. Þetta sannar ríkisreikningurinn fyrir árið 1971, svo að ekki þarf um að deila.

Til viðbótar þessu, sem ég nú hef sagt um áhrif „Viðreisnarstjórnarinnar“ á ríkisreikninginn 1971, vek ég athygli á því, að hún hefði ekki frekar en núv. ríkisstj. komizt hjá því að gera ráðstafanir á síðasta hausti vegna þeirrar verðbólgu, sem hún sjálf hafði safnað til. svipað og gert var í ágúst 1971. En hún hafði ekki gert ráð fyrir þeim gjöldum eða tekjum til þeirra í fjárlögum fyrir árið 1971. Ætti þó öllum hv. alþm. að vera ljóst, hvernig gengið hefði að koma saman kjarasamningum í fyrrahaust, ef verðbólguflóðið hefði þá fengið að leika laust. Ég vek einnig athygli á því, að umframtekjur ársins 1971 byggðust að verulegu leyti á þeim mikla viðskiptahalla, sem Viðreisnarstjórnin stóð að á því ári.

Þá mun ég gera grein fyrir því, sem þekkt er nú um afkomu ríkissjóðs á þessu ári. Það var ljóst þegar í upphafi þessa árs, aðafkoma ríkissjóðs mundi verða erfið fram eftir þessu ári, þó að endar mundu nást saman í árslokin, svo sem ráð var fyrir gert.

Ástæðurnar fyrir þessu eru öllum augljósar, þeim sem sjá vilja. Þær breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem gerðar voru á síðasta Alþingi með breytingum á lögum um tekju- og eignarskatt og tekjustofna sveitarfélaga, urðu til þess, að útgjöld ríkisins jukust verulega þegar í upphafi ársins, en tekjurnar, sem áttu að koma á móti þessum gjöldum, komu ekki að neinu marki fyrr en eftir álagningu tekju- og eignarskatts. Því var hvergi lokið fyrr en seint í júlí og sums staðar ekki fyrr en komið var fram í ágúst. September var því fyrsti mánuðurinn, sem innheimta tekjuskatts kemur eðlilega fram.

Þegar þessar breytingar eru hafðar í huga, þarf engan að undra, þó að staða ríkissjóðs við Seðlabankann hafi verið erfið í sumar. Þess má þó einnig minnast, að ekki var um neina innstæðu að ræða í upphafi ársins til að mæta þessari óhagstæðu greiðslusveiflu ríkissjóðs.

Í sambandi við allar þær umræður, sem orðið hafa í sumar um stöðu ríkissjóðs við Seðlabankann hefur ríkisbókhaldið látið mér í té stöðu í aðalreikningi ríkissjóðs við Seðlabankann frá og með 1963–1972 miðað við 30. sept. hvert ár og hlutfallslega breytingu á þessari stöðu frá 1. jan.–sept. ár hvert. Þetta yfirlit á að auðvelda áhugamönnum umræður um þennan þátt ríkisfjármála, en yfirlit þetta er þannig:

Hreyfing á aðalviðsk.reikn í Seðlab. 1. jan. til 30. sept.

Gjöld fjárlaga

Hlutfall hreyfingaraf gjöldum fjárlaga

Ár

1963

-

38.7

2 052.3

-

1.9 %

1964

-

258.0

2 516.6

-

10.3%

1965

-

344.4

3 302.0

-

10.4%

1966

+

69.8

3608.2

+

1.9%

1967

-

507.7

4463.5

-

11.4%

1968

-

659.3

6139.8

-

10.7%

1969

-

603.3

7 000.6

-

8.6 %

1970

-

473.3

8187.4

-

5.8%

1971

-

1222.2

11 023.3

-

11.1 %

1972

-

1408.5

16 549.6

-

8.5 %

Samt.

1963-1972

-

5445.6

64843.3

-

8.4%

Samt.

1983-1970

-

2 814.9

37 270.4

-

7.6%

Öll árin hefur staðan versnað á þessu tímabili, hlutfallslega mest á árinu 1967, eða um 11.4% af gjöldum fjárlaga, að undanskildu árinu 1966, er hún batnaði sem svaraði 1.9% af gjaldfjárhæð fjárlaga. Að meðaltali versnaði staðan um 8.4% á þessum 9 mánuðum á árunum 1963 til 1972, en 7.6% á árunum 1963–1970. Meðaltal áranna 1964–1970 er hins vegar 7.9% og áranna 1964–1972 8.6%.

Þessi frásögn skýrir, svo að ekki verður um deilt, að viðskipti ríkis við Seðlabankann á þessu ári eru ekkert einsdæmi, nema tölulega séð. Hins vegar eru sex ár af þessum tíu, sem ég hef vitnað til, er hreyfingin er óhagstæðari hlutfallslega en árið í ár, og það er sem næst meðaltali, og flest hin árin er staðan mun óhagstæðari.

Hlutfallslegur samanburður við heildarútgjöld fjárlaga er eini raunhæfi og rétti samanburðurinn að minni hyggju á viðskiptum ríkissjóðs og Seðlabankans.

Ég gat þess hér að framan, að viðskipti við Seðlabankann á þessu ári voru engin einsdæmi að öðru leyti en því, að tölurnar voru hærri. Annað er það, sem sker sig úr á þessu herrans ári 1972, sem ekkert á skylt við nokkurt annað ár í sögu Seðlabankans, en það eru umræður blaða og ýmissa þeirra, er komið hafa fram á opinberum vettvangi á þessu ári um þessi viðskipti. Slíkar vandlætingaumræður eru einsdæmi í sögunni. Vafalaust gengur þeim, sem þá sagnfræði hafa iðkað, gott eitt til, þó að stundum sé erfitt að sjá hið góða í umræðu vandlætarans.

Í byrjun ársins gerði hagsýslustjóri spá um mánaðarlega greiðsluafkomu ríkissjóðs. Í ljós kemur, að gjöldin hafa orðið 726 millj. kr. umfram það, sem spáð var. Af þeirri fjárhæð eru 346 millj. kr. vegna ákvörðunar um vegaframkvæmdir, í samræmi við ákvörðun vegáætlunar, en þær voru ekki með í spánni. Þá stafa 340 millj. kr. af meiri niðurgreiðslum en áætlað var, en í ársbyrjun var horfið frá því að lækka niðurgreiðslur á nýmjólk, eins og ráð var fyrir gert við afgreiðslu fjárlaga, og svo hækkunum á niðurgreiðslum í júli s.l. Sala á niðurgreiddum vörum hefur einnig orðið meiri en ætlað var. Aðrar breytingar frá spá um greiðsluafkomuna eru um 60 milljónir.

Á þessu sama tímabili hafa tekjur farið 285 millj. kr. fram úr því, sem spáð var. Tekjustofnar hafa allir reynzt gefa meira á þessu tímabili en áætlað var, nema tekju- og eignarskattur, sem enn þá er 60 millj. kr. undir áætlun. Þess ber hins vegar að geta, að tekjur af aðflutningsgjöldum hafa reynzt lægri en spáð var þrjá síðustu mánuðina í röð, þó að í heild séu þær enn aðeins hærri en ráð var fyrir gert.

Þegar tekið er tillit til þess, að greiðslum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefur verið flýtt umfram það, sem gert var ráð fyrir í spánni, sem nemur um 170 millj. kr., er greiðslujöfnuðurinn óhagstæðari sem nemur 300 millj. kr. hærri upphæð en ráð var fyrir gert. Mestu munar þar um ákvörðunina um auknar niðurgreiðslur.

Ég hef látið gera samanburð á tekju- og gjaldahlutfalli miðað við fjárlög, eins og það hefur verið í septemberlok árin 1971 og 1972. Kemur þá í ljós, að 1971 voru tekjurnar orðnar 76.3% af áætlun fjárlaga, en 68.4% í ár. Útgjöld voru á sama ríma orðin 86.1% af fjárlögum 1971, en 77.5% í ár. Mismunurinn liggur í lægra hlutfalli í innheimtu tekju- og eignarskatta, svo sem ég hef áður vikið að.

Þegar ákvörðun var tekin um útgáfu bráðabirgðalaganna um tímabundnar efnahagsráðstafanir, var ákveðið að mæta þeim með því að draga úr áætluðum útgjöldum ríkissjóðs allt að 400 millj. kr. Þessi upphæð var þó m.a. ákveðin með hliðsjón af því, sem áður hafði verið gert og ég hef þegar skýrt frá, þ.e. að hverfa frá lækkun á niðurgreiðslum á mjólk, og hækkun á ellilaunum.

Áður en ákveðið var að lækka þannig útgjöldin, hafði verið haft samráð við einstök ráðuneyti um möguleika til að draga úr útgjöldum, án þess að það hefði áhrif á framkvæmdahraða við viðkomandi framkvæmdir, eins og mál stóðu þá.

Í aðalatriðum skiptist þessi niðurskurður þannig:

Gert er ráð fyrir að fella niður greiðslu til Atvinnuleysistryggingasjóðs, 100 millj. kr. Þessa tillögu lagði ég fyrir fund stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, og mætti hún skilningi og velvilja stjórnarmanna. Það skal tekið fram, að sjóðurinn mun eftir sem áður greiða framlag sitt til Byggingasjóðs ríkisins. Útgjöld á vegum menntmrn. Lækka um 100 millj. kr., heilbrmrn. um 60 millj. kr., samgrn. um 60 millj. kr., félmrn. um 30 millj. kr., fjmrn. um 20 millj. kr. Ýmisleg útgjöld lækka um 50 millj. kr.

Á þessu stigi málsins verður ekki fullyrt, hvort þessu takmarki verður náð að fullu. En ég geri mér vonir um, að ekki verði langt frá því.

Auðvitað þarf fjárveitingu síðar til þeirra verka, sem nú eru látin ógerð, en svo má og um alla hluti segja, er fé þarf að veita til á vegum ríkisins.

Hvort tekst að ná hallalausum ríkisbúskap á þessu ári, skal ég engu spá um. Ég hef hér að framan sagt frá ástandi og horfum ríkisbúskaparins fram til septemberloka, en læt öðrum eftir að spá, hver endanleg útkoma á Fjárhag ríkissjóðs verður á þessu ári.

Þá er ég kominn að því að gera grein fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1973. í upphafi máls míns vil ég taka það fram, að leitazt er við að áætla tekjur og gjöld í sem beztu samræmi við heimildir um líklega þróun á komandi ári, miðað við þær forsendur, sem lagðar eru til grundvallar við samningu þess. Ég vek einnig athygli á því, að kappkostað er með þessu fjárlagafrumvarpi að vinna að efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu í þjóðfélaginu með skipulegum hætti og með svo miklum hraða sem skynsamlegt og framkvæmanlegt getur talizt.

Við undirbúning þessa fjárlagafrv. lá fyrir sundurliðuð greinargerð frá nokkrum ráðuneytum um einstakar framkvæmdir, og er það nýmæli. Sá undirbúningur mun gera starf fjvn. og alþm. yfirleitt mun auðveldara en áður hefur verið. Leitazt er við að haga svo fjárveitingum til framkvæmda, að þær nýtist sem bezt, þannig að annað tveggja náist, að ljúka viðkomandi framkvæmdum alveg eða ná við þær ákveðnum áföngum, sem koma viðkomandi framkvæmd í gagnið.

Þá er gert ráð fyrir því nú við þessa fjárlagaafgreiðslu, að jafnhliða geti verið afgreidd framkvæmdaáætlun fyrir árið 1973. Áætlað er að leggja framkvæmdaáætlunina sem fyrst fram á hv. Alþingi.

Útgjöld frv. eru við það miðuð, að kaupgreiðsluvísitala haldist í 117 stigum út árið 1973. En tillit er tekið til þeirra 7% grunnkaupshækkunar, sem verður 1. marz n.k. Enn fremur er annar kostnaður við það miðaður, að um 13% hækkun hefur orðið á vísitölu vöru og þjónustu frá gerð síðustu fjárlaga.

Frv. hækkar frá síðustu fjárlögum um 3 milljarða 318.3 millj. kr. eða 20.1%. Séu markaðir tekjustofnar dregnir frá, er hækkunin 3 milljarðar 44 millj. kr. eða 21.3%

Rek ég þá helztu orsakir hækkananna:

Í fyrsta lagi hækkar fjárlagafrv. vegna launaútgjalda um 990 millj. kr. Þetta er fyrsta heila árið, sem launahækkanir samkvæmt kjarasamningum frá 1970 koma allar fram. Til viðbótar þessu kemur svo 7% hækkun grunnlauna hjá ríkisstarfsmönnum frá 1. marz á næsta ári. Frá þessu má draga 263 millj. kr., sem er útgjaldaaukningin á launalið vegna lögreglumanna, sem áður hafa þegið laun frá sveitarfélögum. Nú greiðir ríkissjóður lögreglumönnum að öllu leyti. Í öðru lagi hækka útgjöld verulega til almannatrygginga. Framlag til þeirra hækkar um 734 millj. kr. Er þar haldið áfram á þeirri braut, er mörkuð var í fyrra með því að tryggja lágmarkslaun til aldraðra og öryrkja og með hækkun á bótum 1. júlí s.l.

Niðurgreiðslur á vöruverði hækka um 374 millj. kr. og er þá miðað við að halda þeim að mestu óbreyttum eins og þær voru fyrir setningu bráðabirgðalaganna um verðstöðvun í sumar, en þeim lögum er ætlað að gilda til næstu áramóta. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir útgjöldum í þessu fjárlagafrv., til að halda áfram þeim niðurgreiðslum, sem komið var á í tengslum við brbl. Fé til þeirra ráðstafana var fengið með niðurskurði á útgjöldum ríkissjóðs á þessu ári, m.a. á framkvæmdaliðum, eins og ég hef þegar gert grein fyrir. Nú hafa þær fjárveitingar hins vegar verið teknar upp aftur. Það verður því á valdi Alþingis, ef fjármagna á efnahagsaðgerðir með svipuðum hætti á næsta ári og nú er gert.

Nefnd vinnur nú að athugun á ástandi efnahagsmálanna. Gert er ráð fyrir, að ákvarðanir verði teknar um efnahagsaðgerðir, þegar tillögur nefndarinnar um valkosti í þeim liggja fyrir. því þótti ekki rétt að taka tillögur þar að lútandi í fjárlagafrv. nú.

Þá hækkar framlag til vegaframkvæmda um 120 millj. kr., og er það í samræmi við síðustu vegáætlun. Útflutningsuppbætur hækka um 110 millj. kr. Framlag til Lánasjóðs íslenzkra námsmanna hækkar um 83 millj. kr., og er gert ráð fyrir að mæta þeirri fjölgun, sem verður í hópi námsmanna, í öðru lagi erlendri verðhækkun og þeim viðbótarútgjöldum, sem lögð voru á sjóðinn með löggjöf frá siðasta Alþingi. Hins vegar er ekki tekið með í þennan útreikning hækkun á innlendum framfærslukostnaði, en við meðferð fjárlagafrv. hlá hv. Alþingi, mun það verða gert og þeirri fjárhæð þá bætt við. En ástæðan til þess, að það var ekki gert, þegar fjárlagafrv. var samið, var m.a. sú, að ekki bar saman útreikningi sjóðsins á verðlagsbreytingunni og þeirri reglu, sem Hagsýslustofnunin fylgdi við undirbúning fjárlagafrv. Lögin um Lánasjóð íslenzkra námsmanna verða tekin til endurskoðunar nú á þessu hausti.

Hækkun á framlagi til byggingar barna- og gagnfræðaskóla er 79 millj. kr. Ný löggjöf var sett á síðasta þingi um aðstöðujöfnuð ungs fólks til náms þ.e. námsfólks úr dreifbýli, og hækkar framlag vegna hennar úr 25 í 50 millj. kr. Ef þá gert ráð fyrir, að lögin komi til fullra framkvæmda á 3 árum. Sett var löggjöf um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, og eru veittar til hennar 25 millj. kr. í þessu fjárlagafrv. 25 millj. kr. eru veittar vegna rekstrarhalla togaranna á yfirstandandi ári. Auk þess, sem nú hefur verið talið, eru ýmsar breytingar og hækkanir vegna aukins rekstrarkostnaðar, aukins viðhalds og hækkana á gjaldfærðum stofnkostnaði, sem samtals nema um 240 millj. kr.

Rekstrarafgangur er samkvæmt fjárlagafrv. nú 580 millj. kr., en greiðsluafgangur um 109 milljónir.

Með þessum sundurliðunum hef ég gert grein fyrir einstökum þáttum í rekstrarreikningi fjárlagafrv., er til hækkunar horfa, en skal nú í ræðu minni hér á eftir ræða nánar um fjárlagafrv. og eistaka þætti þess.

Launagreiðslur samkvæmt frumvarpinu eru 4 milljarðar 359 millj. kr. eða 21% af heildarútgjaldaliðum. Önnur rekstrargjöld eru 1 milljarður 38 millj. kr. eða 5.2%. Til viðhaldskostnaðar er varið 514 millj. kr. eða 2.6% og til vaxtagreiðslna 330 millj. kr. eða 1.6%. Gjaldfærður stofnkostnaður samkvæmt frv. er 1 milljarður 460 millj. kr. eða 7.3%. Til fyrirtækja í B-hluta er varið 8 milljörðum 843 millj. kr. eða 44%, til sveitarfélaga 633 millj kr. eða 3.1%, til fyrirtækja og atvinnuvega 2 milljörðum 508 millj. kr. eða 12.5% og til einstaklinga, heimila og samtaka 397 millj kr. eða 2%.

Til nánari glöggvunar og sundurliðunar vil ég nefna, að til Háskóla Íslands er varið á þessu fjárlagafrv. í heild 256.7 millj. kr. og er hækkunin þar 33.7%. Til menntaskólanna er varið 257.5 millj. kr. og er hækkunin 16.3%. Til kennaraskólanna er varið 110.054 milljónum króna, hækkunin er 38.7%. Til iðnskólanna er varið 89.3 millj. kr., hækkun 25.8%. Til húsmæðraskóla er varið 42.8 millj. kr. og er hækkunin 14.7%. Til héraðsskóla er varið 104.8 millj. kr. og er hækkunin 11.6%. Til barna- og gagnfræðaskólastigsins er varið 1 milljarði 794.7 millj. kr. og er hækkunin 26.8%. Og til búnaðarskóla er varið 48.8 millj. kr. og er hækkunin 13.1%. Til annarra skóla, svo sem Tækniskólans, Stýrimannaskólans og Fiskiðnskólans, er varið í heild 67.5 millj. kr. og hækkar það um 45.8%.

Um önnur framlög er þetta að segja, að framlög til Lánasjóðs íslenzkra námsmanna eru 273 millj. kr. og hækka um 43.7%. Til að jafna námsaðstöðu ungs fólks úr dreifbýlinu er varið 50 millj. kr. og er hækkunin 100%. Til Náttúruverndarráðs og þjóðgarða er varið 21.3 millj. kr. og er það 416% hækkun frá fyrri fjárlögum. Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir eru áætlaðar 433 millj. kr. og er hækkun um 34%. Til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins er áætlað 30 millj. kr., er það hækkun upp á 36.4%. Til Hafrannsóknastofnunarinnar er varið 119.3 millj. kr. og er hækkun um 26.3%. Til að mæta rekstrarhalla á togurunum á árinu 1972 er varið 25 millj. kr., en fjárveiting var ekki nema á heimildagrein til þeirra á yfirstandandi fjárlögum.

Kostnaður við Landhelgisgæzluna er áætlaður 249.5 millj. kr. og er sú hækkun 69.6%. Ef gera á grein fyrir framkvæmdum á vegum einstakra ráðuneyta, nefni ég, að á vegum menntmrn. á að verja á næsta ári samkvæmt frv. 781.8 millj. kr. og er hækkunin 97.3 millj. kr. Á vegum landbrn. er gert ráð fyrir að verja til framkvæmda 32.3 millj kr. og er það svipuð upphæð og á yfirstandandi ári. Á vegum dóms- og kirkjumrn. er gert ráð fyrir að verja svipaðri upphæð, eða 32.1 millj. kr., til framkvæmda, og er það lítil hækkun frá árinu áður. Á vegum heilbr: og trmrn. eru framkvæmdirnar fyrirferðameiri. Þar er gert ráð fyrir, að framkvæmdaliðurinn verði 300.2 millj. kr., þar af eru fjárveitingar til sjúkrahúsa og læknisbústaða utan Reykjavíkur 162 millj, kr. en 60 millj. eru til Fæðingardeildarinnar og 50 til Landspítalans. Er hér um nokkra hækkun að ræða frá því, sem var á yfirstandandi fjárlögum. Um framkvæmdir á vegum fjmrn, er lítið að segja. Þar eru 27 millj. kr. til framkvæmda vegna tollstöðvarbyggingarinnar. Hins vegar er um verulegar framkvæmdir að ræða á vegum samgrn. Fyrir utan vegamálin eru áætlaðar til þeirra 339.1 millj. kr. og hækkar það um 18 millj. Hafnarmálin eru þar fyrirferðarmest með 231 millj., flugmálin með 75 millj. og Veðurstofan með 26 millj. kr. Á vegum iðnrn. er rafvæðing sveitanna með 50 millj. kr.

Til viðbótar því, sem að framan er getið, skal ég gera nokkra frekari grein fyrir útgjaldaaukningu hjá hinum einstöku ráðuneytum og þá fyrst og fremst því, sem breytzt hefur á aðalskrifstofum þeirra.

Á kostnað við aðalskrifstofu forsrn. eru tekin inn laun blaðafulltrúa ríkisstj. og laun ritara, sem ráðinn hefur verið til starfa á árinu. Annar kostnaður eykst svo í samræmi við það, sem gerist almennt hjá ráðuneytunum.

Framkvæmdastofnun ríkisins, sem sett var upp á yfirstandandi ári, tók við verkefnum af Efnahagsstofnuninni, en gert er ráð fyrir, að kostnaður ríkissjóðs af þessari stofnun sé um 9 millj. kr. og er hækkun um 3.7 millj. frá því, sem var. Framlag byggðasjóðs eykst um 10 millj. kr., og er það vegna þess, að gert var ráð fyrir meiri tekjum af álgjaldi heldur en áður hefur verið.

Um aðalskrifstofu menntmrn. er það að segja, að þar var ráðinn nýr bókari og fulltrúi í fræðsludeild sem tekur nú til starfa aftur, en hann hefur verið í leyfi í 1 eða 2 ár. Nefndarkostnaður hækkar þar nokkuð vegna vanáætlunar frá fyrri árum. Endurskoðun námsefnis hækkar um 4.7 millj. kr. en unnið er að þessu verkefni eftir fastri áætlun. Og kostnaður við kennaranámskeið hækkar um 1900 þús. kr. og er það líka vegna breyttrar tilhögunar þar að lútandi.

Um Háskóla Íslands er það að segja, að launin hækka þar í heild um 14.6 millj. kr. Eru það 7.6 millj. kr. vegna ráðningar nýs starfsfólks, en hitt eru eðlilegar launahækkanir. Aðrir smærri liðir hækka einnig, en framlag til fasteigna hækkar um 5.2 millj. kr. og sameiginlegur kostnaður um 4.9 millj. kr.

Fjárveiting til byggingarframkvæmda Háskólans á árinu 1973 er 40.5 millj. kr., og er það 1 millj. kr. hækkun frá árinu áður. Með þessari fjárveitingu og 62 millj. kr. framlagi frá Happdrætti Háskólans og 15 millj. kr. ráðstöfunarfé frá árinu 1972 verða samtals 117.5 millj. kr. til ráðstöfunar í byggingum Háskólans á næsta ári. Gert er ráð fyrir að nota þetta fé til annars áfanga í verkfræði- og raunvísindahúsi 59 millj. kr. og til undirbúnings og byrjunarframkvæmda við tannlæknadeild 18 millj. kr., til frekari undirbúning læknavísindabyggingar 5 millj. kr. og til tækjakaupa 23 millj., til viðhalds fasteigna og innanstokksmuna 9 millj. kr. og til húsgagnakaupa og búnaðar 2 millj.

Um aðra þætti á vegum menntmrn. vil ég taka þetta fram: Fiskvinnsluskólinn hækkar hlutfallslega mikið, um 60.8%, vegna þess að heill árgangur bætist við og gert er ráð fyrir, að 37 nemendur stundi nám í skólanum á næsta skólaári á móti 26 á síðasta starfsári. Framlag til verzlunarnáms hækkar um 10.4 millj. kr. og er þar af 9.4 millj. kr. til Verzlunarskóla Íslands, vegna þess að þar var um verulega vanáætlun að ræða í sambandi við menntaskólastig þess skóla á yfirstandandi ári. Framíag til stofnkostnaðar Heyrnleysingjaskólans hækkar um 10.4 millj. kr., og er þá gert ráð fyrir, að nýbyggingu skólans verði fulllokið á næsta ári. Ég vek athygli á því, að framlög til tónlistarskólans hækka um 7 millj. kr., en það er vegna þess, að hér var um vanáætlun að ræða á árinu 1972. Ég sé ekki ástæðu til að víkja frekar að öðrum þáttum í starfsemi menntmrn., enda hefur að þeim verið komið í almennu yfirliti hér að framan.

Um utanrrn. er það að segja, að kostnaðurinn við aðalskrifstofu hækkar samtals um 7.3 millj. kr., þar af yfirstjórn um 4.9 millj. Það er eðlileg launahækkun. Rekstrarkostnaðurinn er 2.6 millj., en það er einkum vegna búferlaflutnings starfsfólks erlendis og ferðakostnaður í millilandaferðum. Annar kostnaður, svo sem við alþjóðaráðstefnur, hækkar um 2 millj. kr., og er það í samræmi við reynslu undanfarandi ára. Um sendiráðin er ekkert sérstakt að segja. Þar er um að ræða hækkaðan launakostnað hliðstæðan og hér heima og svo kostnaðarauka í viðkomandi löndum, m.a. vegna gengisbreytinga, sem þar hafa orðið.

Um aðalskrifstofu landbrn. er það að segja, að í heild hækkar kostnaður þar um 1.8 millj, kr. Meðal þeirrar hækkunar eru laun aðstoðarráðherra landbrh., en á skrifstofunni hætti einn fulltrúi, svo að launamismunur af þeirri ástæðu er aðeins 265 þús. kr. Hitt er eðlileg launahækkun hjá föstu starfsfólki, og svo eru færð á landbrn. laun bifreiðarstjóra þess, sem annast bifreið fjármála- og landbúnaðarráðherra. Önnur rekstrargjöld hækka um 390 þús. kr. eða svipað og hjá öðrum ráðuneytum hlutfallslega. Nefndalaun höfðu áður fallið niður, en þau eru 107 þús. kr. í þessu ráðuneyti.

Um aðra þætti í starfsemi þessa ráðuneytis vil ég segja það, að liðirnir fjárfesting hjá landgræðslu og skógrækt hækka um 6.6 millj. kr., og er það fyrst og fremst vegna þess, að gera á verulegt átak í aukinni landgræðslu, eftir að ný flugvél kemur til áburðardreifingar. Flugfélag Íslands afhenti landbrn. með myndarlegum hætti eina af DC-3 flugvélum sínum án endurgjalds, og leggur það þannig rausnarlegan skerf af mörkum til landgræðslu í landinu. Stefnt er svo að því að gera stórátak í landgræðslumálum í sambandi við þjóðhátíðarárið. Veruleg lækkun verður hjá Landnámi ríkisins, sem fyrst og fremst stafar af því, að þar er um tilfærslu að ræða til Búnaðarfélagsins. Jarðræktarstyrkirnir, sem Landnámið greiddi að hluta til, eru nú allir komnir til greiðslu á einum stað hjá Búnaðarfélagi Íslands samkv. nýjum jarðræktarlögum. Gert er ráð fyrir því, að við þá endurskoðun, sem nú fer fram á lögunum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám o.fl., verði breytt til um starfsemi Landnámsins og þau verk, sem Landnámið hefur áður annazt, gangi til annarra stofnana. Hækkuð er fjárveiting til grænfóðurverksmiðja um 2.5 millj. kr. og verður því 10 millj. kr., og er það skv. áætlun um framkvæmdir á þessu sviði, sem þegar hefur verið gerð. Ráðinn hefur verið nýr fiskifræðingur til Veiðimálaskrifstofunnar, og hækka laun þar að lútandi við þá stofnun, en að öðru leyti er þar um eðlilega kostnaðaraukningu að ræða skv. verðlagsbreytingu.

Tveir nýir dýralæknar munu bætast við í hóp dýralækna á næsta ári, og er gert ráð fyrir fjárveitingu þar að lútandi.

Gert er ráð fyrir nokkru hærra framlagi vegna jarðræktarframkvæmda á árinu 1973 heldur en á yfirstandandi ári. Er það að nokkru leyti í sambandi við ný jarðræktarlög, sem sett voru á siðasta þingi, og að nokkru leyti í sambandi við áætlaðar framkvæmdir á þessu ári.

Þá hækkar framlag til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands um 2 millj. kr.

Upp er tekin í þetta fjárlagafrv. aukin fjárveiting til sóttvarnarstöðvar vegna holdanauta. Undirbúningur stöðvarinnar stendur yfir, og gert er ráð fyrir, að hún taki til starfa á næsta ári.

Um mál sjútvrn. er það að segja, að fjárveiting til þeirra hækkar um 24.8 millj. kr. og munar þar mestu um launagreiðslur á rannsóknarskipum, en þær hækka um 18.6 millj. kr. Hér er fyrst og fremst um að ræða afleiðingu af samningum um kjör skipverja, sem gerðir voru s.l. vetur. Aðrar hækkanir eru svo í eðlilegu samræmi við launa- og verðhækkanir, en þær eru um 6.3 millj, kr.

Ríkisframlagið til Aflatryggingasjóðs hækkar um tæpar 7 millj. kr. og verður 36.4 millj. Til viðbótar þessu framlagi er svo hluti útflutningsgjalds sjávarútvegsins, sem nemur 145.5 millj. kr., og sá hluti útflutningsgjalds, sem rennur til áhafnadeildarinnar, er nemur því 174.6 millj. kr.

Liðurinn „ýmislegt á sviði sjávarútvegsins“ hækkar um 25.5 millj. kr., og er þar fyrst um að ræða framlagið til rekstrarhalla togaranna, sem áður er getið.

Kostnaður við aðalskrifstofu dóms- og kirkjumrn. lækkar vegna þess, að sérstakur liður útgjalda er fluttur til í fjárlagafrv. og niður falla laun bifreiðarstjóra. Vegna yfirtöku ríkisins á löggæzlukostnaði verða þær breytingar, að kostnaður við rannsóknarlögregluna, sem áður var á liðnum löggæzla, er nú talinn hluti af kostnaði við sakadómaraembættið og að kostnaðarhluti ríkissjóðs við Hegningarhúsið í Reykjavík, sem áður var sérstakur fjárlagaliður, er einnig færður undir það embætti. Heildarhækkunin á liðnum til sakadómaraembættis er því 32.9 millj. kr., þar af er tilflutningur 24.6 millj. kr.

Vegna þess, að ríkið tekur nú allan löggæzlukostnað, hækkar kostnaður við lögreglustjóraembættið í Reykjavík um 190 milljónir. Þar af er 182.1 millj. almenn löggæzla, til fangaklefa 2 milljónir, eftirlit á vegum 5.8 millj. kr. Um aðra þætti í sambandi við embættið er litið að segja annað en það, að gert er ráð fyrir, að ráðnar verði 4 nýjar lögreglukonur til starfa í lögreglunni í Reykjavík.

Embætti sýslumanna og bæjarfógeta hækka í heild um 185.5 millj., en meginorsökin er fólgin í færslu löggæzlukostnaðar á embættin, sem er samtals 150.3 millj. kr. Hreppstjóralaunin eru nú færð í heild á þessi embætti, en þau eru tæpar 10 millj. kr. Eiginlegur kostnaður við embættin hækkar ekki nema um 25.8 millj, kr., þar af laun um 22.2 millj. Ráðinn var nýr fulltrúi á Selfossi og skrifstofustúlka í Kópavogi, en að öðru leyti er þar ekki um breytingar að ræða.

Við Vinnuhælið á Litla-Hrauni var ráðinn fangavörður. Að öðru leyti hækkar kostnaður þar vegna eðlilegra launa- og verðhækkunar. Gjaldfærður stofnkostnaður verður þar 3.2 millj. kr. Af þeirri fjárhæð eru 2.5 millj. kr. ætlaðir til byggingar á vinnuskála við hælið.

Eins og áður er getið, hækkar kostnaður við landhelgisgæzluna um rúmar 102 millj. kr., vegna þess að nú er gert ráð fyrir því að halda öllum skipum gæzlunnar úti og meira að segja að taka leiguskip, og er svo sem ekki séð, hvort sá kostnaður, sem hér er gert ráð fyrir, nægi til þeirra verka, sem Landhelgisgæzlunni eru nú ætluð.

Um önnur atriði í sambandi við dóms- og kirkjumrn. sé ég ekki ástæðu til að ræða frekar. Kostnaður eykst á aðalskrifstofu félagsmrn. um 2.2 millj. kr. Er þar um að ræða launahækkanir um 1700 þús. og af þeim eru 500 þús. 1/2 laun aðstoðarráðherra og 1/2 laun bifreiðarstjóra. Að öðru leyti eru hækkanir á launalið og á öðrum rekstrargjöldum í samræmi við hliðstæðar hækkanir hjá öðrum ráðuneytum.

Framlag til Húsnæðismálastofnunar ríkisins hækkar um tæpar 80 millj. kr. og verður samtals um 550 millj. kr. Aðrar breytingar hjá þessu ráðuneyti eru ekki teljandi.

Kem ég þá að heilbr.- og trmrn.

Eins og fram kom í yfirlitinu hér að framan, er ein af stærri tölum í útgjöldum fjárlagafrv. framlag til fyrirtækja í B-hluta. Af þessu er framlag til Tryggingastofnunar ríkisins fyrirferðarmest. Hér er um að ræða lífeyristryggingar, sjúkratryggingar og slysatryggingar, og hækka framlögin í heild um 892.7 millj. kr. Þar af eru iðgjöld atvinnurekenda, sem fram koma sem tekjur í frv., 181.4 millj. kr. Af hækkunum iðgjalda eru 124 millj. kr. vegna lífeyristrygginga og 57.4 millj. vegna slysatrygginga. Eiginleg hækkun ríkissjóðsframlags nemur því 711.3 millj. kr. Heildarframlag ríkissjóðs til tryggingakerfisins nemur 6 414.9 millj. kr.

Framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs hækkar um 37.7 millj. kr.

Um aðra þætti heilbrigðismálanna er það að segja, að liðurinn „ýmis heilbrigðismál“ hækkar um 7.5 millj. kr. Er það m.a. kostnaður vegna héraðshjúkrunarkvenna, 2.8 millj. kr., en hækkunin er einkum byggð á fjölgun, sbr. lög nr. 44 frá 1972. Kostnaður vegna matvælarannsókna hækkar um 1.3 millj. kr., og auk þess eru ýmsir smærri liðir.

Aðalskrifstofa fjmrn. hækkar um 8.1 millj. kr., þar af hækkar launaliður um 6.4 millj. kr., af því eru föst laun og launatengd gjöld um 2.5 millj, kr. Fyrir þessum hækkunum eru eftirtaldar ástæður:

Gert er ráð fyrir því að ráða til starfs á næsta ári einn deildarstjóra, og á hann að annast eftirlit með tekjustofnum ríkisins. Á því hefur verið nokkur misbrestur, að hægt hafi verið að sinna því sem þörf er á, svo sem að fylgjast með störfum skattstofa og álagningu og innheimtu hjá hinum ýmsu embættismönnum ríkisins. Þessu hefur ráðuneytisstjórinn í fjmrn. orðið að sinna með sínum umfangsmiklu störfum. Er það af ráðuneytisins hálfu talið ófært, þar sem svo miklu máli skiptir, að þessi hlið málanna sé í góðu lagi. Í öðru lagi hætti hjá ráðuneytinu fulltrúi, sem var í hálfu starfi, og hafði hann að nokkru leyti að gera með eignaumsýslu og málafærsla af hálfu ríkisins. Vegna kjarasamninganna frá 1970 hefur verið mjög mikill fjöldi mála komið til meðferðar bjá launadeild ráðuneytisins. Á það var deilt mjög á seinni hluta s.l. árs og fyrri hluta þessa, að það stæði á afgreiðslu ráðuneytisins á þeim málum, sem gengu á milli þess og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Varð því að grípa til þess ráðs að hafa lausráðinn mann til að annast þessi störf með deildarstjóranum og öðrum aðilum í launadeild fjmrn. Þessi launamál hafa einnig orðið til þess, að verulega aukavinnu hefur orðið að vinna í ráðuneytinu til þess að koma málum áfram. Það færist nú meir og meir í þá átt, að laun séu afgreidd beint frá launadeild ráðuneytisins. Gert er nú ráð fyrir að fastráða mann til starfa í þessu sambandi. Þá er og gert ráð fyrir því að bæta við fulltrúa hjá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, en ég mun síðar í þessari ræðu minni gera grein fyrir störfum hennar og fyrirhuguðum framkvæmdum á hennar vegum.

Verulegur kostnaður hefur orðið og verður í sambandi við nefndastörf á vegum fjmrn., m.a. í sambandi við endurskoðun á tekjuöflun ríkisins, bæði á s.l. ári og þessu, og mun verða unnið að þeim einnig á næsta ári.

Þá er það um ríkisbókhaldið að segja, að á tveimur síðustu árum hafa verkefni þess aukizt svo, að yfir 50 stofnanir hafa nú falið því bókhald sitt að öllu leyti til viðbótar því, sem fyrir var. Alls færir ríkisbókhaldið reikninga fyrir um 70 ríkisstofnanir auk aðalbókhalds ríkisins. Þetta hefur að sjálfsögðu orðið til þess að draga úr kostnaði hjá viðkomandi stofnunum og jafnframt aukið á öryggi í bókhaldi hjá ríkinu. Síðan dregur þetta úr kostnaði við endurskoðun á bókhaldinu. En þetta hefur aukið mikið vinnuálag á ríkisbókhaldið sjálft.

Undan því er kvartað, hve ríkisreikningur er seint á ferðinni. Að vísu hefur það færzt fram ár frá ári, og hann var fyrr nú heldur en í fyrra, fyrr í fyrra heldur en í hittiðfyrra. Hér verður því að bæta við fólki, og er gert ráð fyrir að ráða þarna fulltrúa og ritara. Ég er sannfærður um, að hér er á engan hátt farið lengra en nauðsyn ber til, ef vinna á þessi störf með eðlilegum hætti.

Af öðrum atriðum, er valda útgjaldaaukningu hjá fjmrn., vil ég nefna fasteignamatið. Um nokkurt skeið hefur verið unnið að því, bæði af fyrrv. og núv. fjmrh., að láta gera frv. um Fasteignamat ríkisins. Það verk hefur verið unnið í samstarfi við Samband íslenzkra sveitarfélaga. Ekki hefur þó verið gengið frá þessu frv. En megintilgangur með þeirri stofnun, sem hugsað er að koma á fót, er, að hún hafi með höndum skráningu á öllum fasteignum í landinu. En til álita kemur, að hún verði að einhverju eða verulegu leyti einnig sá aðilinn, sem sér um möt og annað slíkt í sambandi við fasteignir. En að hvað miklu leyti að því verður horfið skal ekki sagt hér. Hitt er ljóst, að ekki er hægt annað en að verja þarna til nokkrum fjármunum til að halda þessari starfsemi uppi og ekki sízt nú, þegar fasteignir eru orðnar svo mikill tekjustofn sem þær eru sveitarfélögunum. Allra hluta vegna þarf að halda við því verki, sem unnið var með fasteignamatinu, og endurbæta það, svo sem tíminn krefst. Það voru verulegir fjármunir, sem fóru í fasteignamatið, og er mest um vert, að þeir nýtist. Hugsanleg fasteignastofnun ætti að geta tekið að sér mat á veðhæfni fyrir banka og aðrar veðlánastofnanir í landinu eða a.m.k. unnið í samvinnu við þær.

Veruleg hækkun er á vaxtagreiðslum ríkissjóðs, sem m.a. stafar af því, að ríkissjóður hefur nú tekið lán hjá Seðlabanka Íslands, sem á að vera stofn að rekstrarsjóði, sem stefat er að því að koma upp. Fjárveiting er áætluð í þennan sjóð á næsta ári. Heils árs vaxtagreiðslur til sjóðsins eru um 80 millj. kr. Þá hefur ríkissjóður tekið að sér að greiða vexti, verðbætur og annað vegna lána vegasjóðs, bæði almennra lána og lána vegna Reykjanesbrautar, og er sú upphæð á annað hundrað millj. kr. En þessi lán og afborganir og vextir af Reykjanesbrautinni voru áður greidd með því að taka ný lán fyrir greiðslunum hverju sinni. Með afgreiðslu vegáætlunar á síðasta vori var frá þessu horfið, og greiðir ríkissjóður nú afborganir og vexti af þessum vegalánum.

Á aðalskrifstofu samgrn. hefur kostnaðaraukinn verið sá, að þar koma til greiðslu hálf laun aðstoðarráðherra og hálf laun bifreiðarstjóra á móti greiðslu hjá félmrh., sem áður var greint frá. Um Vegagerð ríkisins er það að segja, að heildarútgjöld vegagerðarinnar eru skv. fjárlagafrumvarpinu 1197 milljónir króna, en tekjur vegna vegasjóðs eru á frv. 944.8 millj. kr., þannig að fram kemur mismunur upp á 252.77 millj., og er það annars vegar framlag ríkissjóðs til vegasjóðs 250 millj. kr. og hins vegar 2.77 millj. til að bæta þjónustu við ferðamenn að vetrarlagi. En á fjárlögum þessa árs var framlag til vegasjóðs um 100 millj. kr. Framlög til byggingar strandferðaskipa, 36 millj. kr., eru nú færð á afborgun hjá ríkissjóði, en voru áður á liðnum „framlög til strandferða“.

Lögunum um vitagjald var breytt á yfirstandandi ári, og hækkaði það tekjur á móti þeim gjöldum, sem um er að ræða á vitamálaliðnum.

Að hafnamálunum hef ég áður vikið og sé ekki ástæðu til að orðlengja um þau að þessu sinni. Um framlög til ferðamála er það að segja, að framlag til Ferðamálasjóðsins hækkar um 2.5 millj. Til kaupa á landi og umbóta við Gullfoss eru um 2 millj. kr.

Á aðalskrifstofu iðnrn. er hækkun um 2.8 millj. kr. Laun um 2.5 millj., þar er um að ræða laun bifreiðarstjóra að hálfu, laun ritara í fullu starfi í stað hálfs áður og aðkeypta sérþjónustu, tæpa 1 millj. kr. Afgangurinn, 1267 millj. kr., stafar af eðlilegum launa- og verðlagshækkunum, og önnur rekstrargjöld hækka um 529 þús. kr.

Hækkun á liðnum „framlag til iðju og iðnaðar“ er fyrst og fremst fólgin í 25 millj. til Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins, sem áður er getið. Framlag til Orkusjóðs hækkar um 17 millj kr. vegna lánagreiðslna, en önnur viðfangsefni eru óbreytt frá fjárlögum 1972.

Ég hef fyrr í ræðu minni gert grein fyrir þeim hækkunum, sem verða til niðurgreiðslu á vöruverði á yfirstandandi ári, og á hvaða forsendum þær eru byggðar.

Um aðra liði fjárlagafrv. sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Þó skal því bætt hér við í sambandi við ríkisendurskoðunina, að þar er ráðinn 1 fulltrúi í tollendurskoðunina, en aðrar breytingar eru þar í sambandi við verðlagsbreytingar.

Áður en ég vík að tekjuáætlun fjárlagafrv., vil ég geta þess, að á útgjöldum á lánahreyfingum er gert ráð fyrir 250 millj. kr. greiðslu til Seðlabankans, sem er hugsað sem fyrsta framlag í þann rekstrarsjóð, sem ríkið mundi koma sér upp með sömu greiðslum á næstu 4 árum. Þessi sjóður er hugsaður til þess að draga úr tekjusveiflum, sem alltaf hljóta að verða verulegar hjá ríkissjóði. Eðlilegt takmark er, að ríkissjóður hafi að jafnaði í slíkum sjóði sem svarar 5% af árlegum heildarútgjöldum. Þar með mætti þá gera ráð fyrir, að hann hefði til umráða eigið fjármagn, sem svarar helmingi þess yfirdráttar, sem að jafnaði er hjá Seðlabankanum á fyrri hluta ársins, en það mun láta nærri, að meðalskuld ríkissjóðs við Seðlabankann framan af ári nemi sem svarar 10% af fjárlögum. Það verður því að teljast eðlilegt, að stefnt sé að því, að ríkissjóður mæti þessum yfirdrætti að nokkru með eigin fjármagni, enda hefði hann þá tryggingu fyrir ýmsum skakkaföllum, sem gætu komið til í ríkisrekstrinum, án þess að það hefði áhrif á hagkerfið í heild. Ég tel, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða, sem vinna þarf að, svo sem stefnt er að með þessari greiðslu. Auk þess eru afborganir af vegalánum og lánum vegna Skipaútgerðar ríkisins, sem færðar eru á þennan lið, en áður var fært á Ríkisskip.

Í fyrra fylgdi fjárlfrv. sérstakt fylgiskjal þar sem Efnahagastofnunin gerði grein fyrir þróun efnahagsmála á árinu 1971 og spám fyrir árið 1972. Vegna þess að nú er ætlunin að leggja þegar á þessu hausti fram ákveðnar tillögur um framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisins 1973, virðist skynsamlegra, að slíkt almennt yfirlit yfir þjóðarbúskapinn, framvinduna í ár og horfur fyrir næsta ár komi fram um sama leyti og framkvæmdaáætlunartillögurnar og taki m.a. mið af þeim. Þannig yrði reynt að skoða bæði fjárlagafrv. og framkvæmdaáætlunina í heildarsamhengi. Hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins mun semja þessa yfirlitsskýrslu um þjóðarbúskapinn.

Tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 1973 er unnin af hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins. Hún er byggð á þjóðhagsspá deildarinnar fyrir næsta ár, eins og hún stóð í lok júlímánaðar s.l. Þeir þættir þjóðhagsspárinnar, sem mest áhrif hafa á tekjuáætlun ríkissjóðs, eru spáin um almenna innlenda verðmætaráðstöfun, sem gert er ráð fyrir að aukist um 10.6% í peningum, og innflutningsspáin, sem hækkar um allt að 14% skv. þjóðhagsspáráætluninni. Meginforsendur tekjuáætlunar að því er varðar kaup og verðlag eru þessar:

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir, að engar aðrar breytingar verði á kauplagi, en þegar eru ákveðnar með samningum A.S.Í. og vinnuveitenda og skv. úrskurði Kjaradóms s.l. vor, þ.e. 6% grunnkaupshækkun verkafólks, iðnaðarmanna og verzlunarfólks og 7% grunnkaupshækkun hjá opinberum starfsmönnum frá 1. marz 1973.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að kaupgreiðsluvísitalan hækki ekki frá því, sem er, þ.e. 117 stig, og framfærsluvísitalan hækki aðeins um 1% frá ágúst 1972, en þá var hún 174.8 stig. Þessar forsendur fela í sér mun minni hækkanir en verið hafa, þannig að meðalhækkun framfærsluvísitölu milli áranna 1972 og 1973 yrði þá um 4% og hækkun vísitölu vöru og þjónustu einnig 4%. Hvort þessar forsendur standa, ræðst svo m.a. af væntanlegum almennum efnahagsráðstöfunum stjórnvalda og þá sérstaklega aðgerðum í verðlags- og kaupgjaldsmálum.

Eins og venja hefur verið á undanförnum árum, sýna allar tekjutölurnar áætlaða innheimtu á almanaksárinu, en ekki álagningu, en á þessu tvennu getur verið verulegur munur. Áætlanir um innheimtu eru byggðar á tölum ríkisbókhaldsins um samhengi álagningar og innheimtu á árinu 1971 og fram á mitt ár 1972.

Samkvæmt lögum skal skattvísitalan ákveðin í fjárlögum hverju sinni. Hækkun vísitölu framfærslukostnaðar milli áranna 1971 og 1972 er um 10%, sem að öðru óbreyttu væri eðlileg viðmiðun við ákvörðun skattvísitölu. Miðað við núverandi vísitölu 100, ætti skattvísitalan við álagningu 1973 þannig að ákvarðast 110. Hins vegar tók ríkisstj. þá ákvörðun, að skattvísitalan skyldi vera 128 stig. Þetta þýðir raunverulega skattalækkun skv. núverandi kerfi um 730 millj. kr. Við þessa vísitölu er áætlunin um tekjuskatt miðuð. Ástæðan fyrir því, að tekjuskattur hækkar þrátt fyrir þetta á milli ára, er fyrst og fremst sú, að nokkur fjölgun er á gjaldendum á hverju ári, og svo hitt, að gert er ráð fyrir, að nokkrar meiri eftirstöðvar verði frá árinu 1972 til ársins 1973 heldur en var frá 1971 til þessa árs.

Heildartekjur á rekstrarreikningi eru áætlaðar, miðað við þær forsendur, sem ég hef nú greint frá hér að framan, 20 milljarðar 447 millj. kr., og er hækkunin 3 milljarðar 548 millj, kr. eða 21%. Af heildartekjum nema markaðir tekjustofnar 2 milljörðum 568.8 millj, kr., sem er 247.1 millj. kr. hækkun frá yfirstandandi fjárlögum eða 10.7%. Eiginlegar tekjur ríkissjóðs, þ.e. heildartekjur á rekstrarreikningi að frádregnum mörkuðum tekjustofnum, nema þannig 17 milljörðum 878.7 millj. kr. eða hækka um 331.5 millj. eða 22.6%.

Um einstaka liði í tekjuáætluninni er það að segja, að gert er ráð fyrir, að tekjuskattur hækki um 1342 millj. kr. Eins og ég áðan sagði, stafar þetta af fjölgun gjaldenda og gert er ráð fyrir meiri eftirstöðvum á skattinum í árslok þessa árs heldur en var í fyrra.

Áætlað er, að gjöld af innflutningi hækki um 1046 millj. kr. og munar þar mest um almennan innflutning, sem hækkar um 744 millj, kr. og er þessi áætlun reist á grundvelli þjóðhagsspárinnar um 14% aukningu almenns vöruinnflutnings, en hins vegar er gert ráð fyrir lægra meðaltollshlutfalli á næsta ári eða 22.8% í staðinn fyrir 23.3%, eingöngu vegna minni bílainnflutnings á næsta ári.

Skattar af seldri vöru og þjónustu: Heildarhækkun er um 850 millj. kr., þar af hluti ríkissjóðs 363. Orsök þess, að tekjur af söluskatti aukast ekki meira en þetta, þrátt fyrir að áætlað er, að innlend verðmætaráðstöfun aukist um 10.6%, er sú, að í fjárhagsáætluninni 1972 er tekið tillit til flýtingar innheimtu.

Launaskattur hækkar um 155 millj. eða 19.4% sökum hærra launastigs, söluhagnaður Áfengisverzlunarinnar um 325 millj., og koma þar bæði til verðhækkanir frá marz 1972 og aukinn kaupmáttur tekna almennings, en aðrir tekjuliðir um 9.2 millj. kr.

Aðrir óbeinir skattar: Gert er ráð fyrir, að þeir hækki um 98.7 millj. kr. Er þar mest hækkunin á stimpilgjöldum, 36 millj. kr., þinglýsingargjöld 23 millj. kr. og aðrir liður ern smærri. Hins vegar er gert ráð fyrir því á þessum lið, að niður falli veggjald á Keflavíkurvegi 19.5 millj. kr., svo sem samþykkt var við afgreiðslu vegáætlunar á s. l. vori.

Um lánahreyfingar út er það að segja að halli á þeim er 475.7 millj. kr., og munar þar mest um, sem áður hefur verið getið, 250 millj. til Seðlabanka Íslands, svo og vegalánin, sem ríkissjóður tekur nú að sér, en vegasjóður hafði áður til greiðslu.

Þegar rekstrartekjur og rekstrarútgjöld ríkissjóðs hafa verið gerð upp skv. þessu fjárlagafrv., eru tekjur umfram gjöld 579.7 millj. kr., en hallinn á lánahreyfingum er, eins og áður sagði, 475.7 millj. og mismunur er því 103.9 millj. kr., sem er hinn raunverulegi greiðsluafgangur í þessu fjárlagafrv.

Þegar fjárlögin fyrir árið 1972 voru til afgreiðslu hjá hv. Alþingi fyrir síðustu áramót, lágu fyrir þinginu frumvörpin tvö um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt og um tekjustofna sveitarfélaga. Þessi frumvörp urðu þegar í upp:hafi mjög til umræðu hér á hv. Alþingi, og síðan hafa skattalögin, sem afgreidd voru í marz s.l., verið mjög til umræðu manna á meðal og í fjölmiðlum.

Mér þykir rétt við þetta tækifæri að rifja þessi mál nokkuð upp og geta um helztu þætti við framkvæmd þeirra. Ég vil í upphafi máls míns mínna á það, sem ég lagði áherzlu á í umræðum um þetta mál hér á hv. Alþingi. Það bar brýna nauðsyn til að gera þessar breytingar, sem gerðar voru, m.a. vegna þess, að ekki hefði verið hægt að gera þá breytingu á lögum um almannatryggingar, sem Alþingi stóð þó allt að, án þess í kjölfar þeirra fylgdu þessar skattalagabreytingar og sú nýja verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga, sem komið var á með þessum lögum.

Samkvæmt eldra kerfinu greiddi námsfólk yfirleitt almannatrygginga- og sjúkrasamlagsgjald. En þau hefðu á þessu ári orðið 14–16 þús. kr. a.m.k. Við álagningu í ár var veittur námsfrádráttur til tekjuskatts, sem nam 42 þús. kr. fyrir háskólastúdent, og útsvar lækkað um 4200 kr. Einhleypur háskólastúdent greiddi því ekki skatt af lægri upphæð en 93 þús. kr., en hefði orðið að greiða tryggingagjöld skv. eldra kerfinu, alveg án tillits til þess, hvort hann náði þessum tekjum eða ekki. Af 150 þús. kr. tekjum greiðir námsmaður nú 7 000 kr. í opinber gjöld, en hefði greitt IS-20 þús. kr. að óbreyttu kerfi.

Ég vil líka benda á, að eftir breytingarnar á almannatryggingakerfinu hefði sveitarfélögunum orðið ókleift að standa undir þeim útgjöldum, sem þeim fylgdu, eins og fjárhag þeirra var komið á s.l. ári. Þetta hefur yfirleitt ekki verið tekið inn í þær umræður, sem farið hafa fram um þessi mál á yfirstandandi sumri, en það er nauðsynlegt fyrir þá, sem raunverulega vilja átta sig á málinu, að taka þessa þætti með í reikninginn.

Og minnumst þess, að hefði skattalögunum ekki verið breytt á s.l. vetri, þá hefði skattalöggjöf Viðreisnarstjórnarinnar komið til framkvæmda. Það hefði þýtt það, að veittur hefði verið sérstakur frádráttur vegna tekna af hlutafé, sem gat þýtt, að hjón hefðu allt að 60 þús. kr. skattfrjáls. Það hefði einnig þýtt það, að fyrirtækin í landinu, sem núna greiða 8–10 hundruð millj. kr. í tekjuskatta, hefðu að verulegu leyti orðið skattlaus með því að notfæra sér heimild til flýtifyrningar, sem mátti vera allt að 30% á einu ári.

Í þriðja lagi vil ég svo vekja athygli á því, að ef viðreisnarskattalögin hefðu komið til framkvæmda, hefðu eignaskattgreiðendur í landinu orðið 2 þús. í stað 32 þús., sem þeir voru eftir eldri lögum. Samkvæmt gildandi lögum urðu þeir um 18 þús. á yfirstandandi skattári. Það þarf því engan að undra, þó að þeir, sem hér urðu fyrir barðinu á skattalagabreytingunum, á vissan hátt beri sig illa. Yfirleitt hefur þó ekki verið um þetta fólk talað í umræðum um skattalagabreytingarnar. Hinu var líka gleymt, að aðrir gjaldendur hefðu orðið að greiða hærri skatta vegna þess forréttindafólks, sem viðreisnarlöggjöfin ætlaði skattaívilnanir, en það eru hlutafjáreigendur í stærri hlutafélögum og þeir, sem eiga verulegar eignir, því að skattheimtan hefði eftir sem áður þurft á sínum fjármunum að halda.

En í framhaldi af þessu þykir mér líka hlýða að vekja athygli á öðru. Með skattalagabreytingunum varð, eins og ég áður sagði, veruleg breyting til batnaðar á hag sveitarfélaga. Sú breyting var líka nauðsynleg. Á s.l. ári voru 18 sveitarfélög og sum þeirra stór, sem urðu að leita til Jöfnunarsjóðs til þess að fá beina aðstoð vegna fjárhagsvandræða, þótt þau hafi áður lagt sérstakt álag á gjaldendur sina umfram önnur sveitarfélög. Ég endurtek það, að með breytingum á tryggingalöggjöfinni og með þeirri þróun, sem í uppsiglingu var í launamálum á árinu 1970, hefði þessi þörf orðið enn þá meiri á yfirstandandi ári heldur en nokkru sinni fyrr. Auk þess var það svo, að aðstöðumunur sveitarfélaganna fór vaxandi að þessu leyti. Það var alltaf minna og minna, sem sveitarfélög víðast um landið gátu varið hlutfallslega til framkvæmda. Lögboðnu gjöldin og rekstrargjöldin, sem ekki var komizt hjá, tóku mestallan hluta tekna þeirra.

Það verð ég að segja í sambandi við þessi mál, að það hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum að sjá, hvaða stefnu ýmis sveitarfélög, einkum þau, sem betur mega sín, hafa tekið.

Ég leit svo á, að með þeirri breytingu að taka upp hóflegan fasteignaskatt fengju sveitarfélögin tekjustofn til að standa undir framkvæmdakostnaði, sem þau verða að leggja í, m.a. vegna fasteignanna í byggðarlaginu. Þetta hefur verið baráttumál sveitarstjórnarmanna. Auðvitað átti ekki að ganga lengra en svo í þessu en að fasteignaskattur þessi yrði hóflegur og 1/2% fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði tel ég vera hóflegan. Ég leit líka svo á, að með því að létta 15–25% af beinum útgjöldum sveitarfélaganna af þeim og meira en það, ef litið var á reksturinn, svo sem gert var með því að létta af þeim tryggingagjöldum, sjúkrasamlagsgjöldum að nokkru og lögreglukostnaði, þá mundi það verða til þess, að sveitarfélögin næðu nógum tekjum án þess að nota heimildir til hækkunar. Og það hefði þýtt, að skattaálagningin í heild hefði ekki farið úr hófi fram.

Nú varð reynslan sú, að Reykjavíkurborg beitti sér fyrir því, fyrst allra, að nota þessar heimildir upp í topp. Til þess að skapa sér ástæðu til þessa var ákveðin að hækka útgjaldahlið fjárhagsáætlunar frá því, sem var á tillögum um ca. 200 millj. kr. Með þessum hætti tókst henni á þessu herrans ári, þegar allir hafa býsnazt yfir því, hvað framkvæmdirnar væru miklar og spennan í efnahagslífi þjóðarinnar væri mikil, að verja meira fé til framkvæmda heldur en nokkru sinni fyrr.

Nú munu e.t.v. einhverjir halda því fram, að þessi ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur og síðar bæjar- og sveitarstjórna víðast um landið hafi ekki haft svo mikið að segja í heildarálagningunni á landsmenn. Ég hef þó þær fréttir að færa, að þessi ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur og þeirra sveitarfélaga, sem notuðu heimildina, gerði það að verkum, að álögurnar í heild hækkuðu um 340–360 millj. kr. Ef gerður er samanburður á hækkun á heildarálagningu á hliðstæðum sköttum milli áranna 1970–71 annars vegar og 1971–72 hins vegar, þá kemur í ljós, að álagningin hækkar um 36.4% á milli áranna 1970 og 1971, á milli 1971 og 1972 hefði hækkunin orðið 37%, ef álagsheimildir hefðu ekki verið notaðar. Þegar það er svo haft í huga, að persónuskattarnir hækkuðu heildarálagninguna um 0.7%, þá sannar það, að hækkunin á milli þessara 2 ára hefði hlutfallslega orðið svipuð, ef álagsheimildirnar hefðu ekki verið notaðar.

Ég á afskaplega erfitt með að skilja það, að sömu menn, sem berja sér á brjóst og tala um of háa skatta, skuli ganga fram fyrir skjöldu á sínum heimavígstöðvum, þar sem þeir ráða, og koma þar á gjaldendur öllum þeim skattahækkunum, svo sem lög framast leyfðu. Ef skattaálagningin var í heild allt of há er þá hægt að réttlæta það að ganga fram og hækka hana eins og gert var af borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík og síðar af fleiri forsvarsmönnum hinna stærri bæjarfélaga, er réðu ferðinni í þeim efnum? Ég vil líka benda á það, að ef ekki hefði átt sér stað sá tilflutningur á útgjöldum frá sveitarfélögunum yfir á ríkið, sem gerður var, og ef sveitarfélögin hefðu ætlað sér að leggja í alla þá fjárfestingu og útgjöld, sem þau ákváðu með afgreiðslu á fjárhagsáætlunum sínum í sumar, þá hefðu þau í heild orðið að hækka álögur sínar um 55.5%. En ríkissjóði hefði þá nægt að hækka sinar álögur um rúm 3%.

Þetta er staðreynd, sem hefur fallið utangarðs í umræðum um hina háu skatta á þessu ári. Menn verða að muna, að í tekjuskattinum nú eru þeir að greiða hluta af þeim gjöldum, sem þeir áður greiddu til sins sveitarfélags. Nú vil ég taka það skýrt fram, að ég hélt því aldrei fram í umræðum um skattamálin í fyrra og hef ekki gert enn þá, að í þeim mundi ekki koma fram neinar veilur. Mér var það ljóst, að sá hraði, sem þurfti að hafa við þessa skattalagabreytingu, og sú mikla breyting, sem gerð var vegna verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, gerði það að verkum, að ekki gafst tóm til að kanna allt til þrautar. Ég er ekki heldur haldinn þeim kvilla að telja það fráleitt, að mannleg yfirsjón geti átt sér stað. Þess vegna fannst mér það sjálfsagt í sumar, þegar ljóst var, að of langt var gengið í álögum á hina öldruðu borgara í landinu, að ganga þá strax til lagfæringa á þeim. Breytingin, sem gerð var í sumar með brbl., hefur það í för með sér, að einhleypir gjaldendur eru tekjuskattsfrjálsir um allt að 200 þús. kr. nettótekna og greiða ekki óskertan tekjuskatt, þ.e.a.s. sama tekjuskatt af sömu tekjum og aðrir gjaldendur, fyrr en við 300 þús. kr. nettótekjur, miðað við tekjur ársins 1971. Fyrir hjón yrðu þessar tölur þannig: Þau yrðu tekjuskattsfrjáls allt að 300 þús. kr. nettótekjum og greiða ekki óskertan tekjuskatt fyrr en við 450 þús. kr. Fyrir ofan tekjumörkin 300 þús. hjá einhleypum og 450 þús. kr. hjá hjónum í nettótekjur er öldruðum ætlað að leggja eins og öðrum með sömu tekjur og sambærilega framfærslubyrði til almannaþarfa og tekjuöflunar og taka þátt í því sem aðrir að tryggja þá tekjulægstu í hópi aldraðra og öryrkja, svo að þeir njóti lágmarkstekna og forða þeim tekjulægstu í hópi hinna yngri frá því að greiða háa persónuskatta, enda eru í hópi gjaldenda, 67 ára og eldri, gjaldendur, sem enn þá eru í fullri atvinnu. Af 4500 öldruðum hjónum, sem voru skattgreiðendur á þessu ári, þurfa 2100 að greiða einhvern tekjuskatt, þar af þó aðeins 1200 óskertan skatt. Af 9500 einhleypum öldruðum þurfa 1850 að greiða einhvern tekjuskatt, þar af 700 óskertan. Niðurstaðan er því sú, að af öldruðum gjaldendum greiða í heild 4000 eða 28.6% tekjuskatt, þar af 1900 eða 13.6% óskertan tekjuskatt.

Mér er það ljóst, að enn þá má deila um það, hvort nóg er að gert með þessari breytingu, sem gerð var í sumar. Hitt verður ekki um deilt, að hún var mikil lagfæring frá því, sem áður var. Hinu held ég fram sem fyrr, að það sé ekki réttmætt að fella niður allar skattgreiðslur af elli- og örorkulaunum, vegna þess að þar er oft um að ræða hátekju- og efnamenn. Menn fá þessar greiðslur frá 67 ára aldri og eru þá oft í fullu starfi. Tekjuþörf og gjaldþol þessa fólks á að meta alveg eins og meta þarf gjaldþol unga fólksins í landinu, sem er að setja upp sín heimili og á eftir sitt lífsstarf. Ég vil líka segja það, að mér hefur fundizt margt í þeim umræðum, sem fram hafa farið í sumar um skattamál, hafa verið mjög gagalegt. Ekki sízt er það gagnlegt, þar sem enn er unnið að endurskoðun þessara mála.

T.d. hafa orðið að minni hyggju mjög gagnlegar umræður, sem fram hafa farið um skattsvik. Það vekur að vonum athygli margra, hvað ýmsir þegnar í þjóðfélaginu, sem almenningi virðast vera vel settir greiða lág gjöld. Umræður um þetta og annað því skylt eru að minni hyggju mjög nauðsynlegar og ekki hvað sízt nú, þegar þessi mál eru í endurskoðun. Nefnd sú, sem að endurskoðuninni vinnur, hefur gert sérstaka athugun einmitt hjá þeim framteljendum, sem vakið hafa athygli skattgreiðendanna yfirleitt vegna þess, hve gjöld þeirra eru lág.

Þá vil ég geta þess, sem ég hygg að almenningi í landinu sé ekki nægilega kunnugt, sem ekki er heldur von, en það er það, að fyrir nokkrum árum var sú ákvörðun tekin til að flýta útkomu skattskrárinnar að heimila skattstofunum að gefa þær út áður en búið væri að yfirfara öll framtöl. Þetta hafa ýmsar skattstofur gert og ekki endurskoðað framtöl fyrr en síðar á árinu, eftir að búið er að leggja skattskrána fram. Þannig var gert hér í Reykjavík. Framtölin eru hér yfirleitt ekki unnin nema að mjög takmörkuðu leyti, áður en að skattskráin er lögð fram. Þess vegna er það svo, að í skattskránni er að finna þær veilur, sem framteljandi sjálfur hefur sett í framtal sitt, án þess að skattyfirvöldin hafi gert þar athugasemd við. Þetta er svo í fleiri skattumdæmum. Þannig mun það vera í Vesturlandsumdæmi og fleirum. Þetta er mjög óheppilegt. Ber nauðsyn til að breyta þessari vinnuaðferð. Ég er sannfærður um það, að einmitt þetta á sinn þátt í þeirri veilu, sem er í okkar skattframtölum. Ég er sannfærður um það, að þessi vinnubrögð hafa nokkur áhrif til þess að gera skatteftirlitið áhrifaminna heldur en það gæti verið, ef öðrum vinnubrögðum væri beitt.

Ég er líka sannfærður um það, að sú breyting, sem gerð var á skattalögunum nú, er til mikilla bóta, að skipa ríkisskattanefnd með nýjum hætti, skapa henni fastar starfsreglur. En eftir þeim á hún að vera búin að úrskurða skattframtöl innan 6 mánaða. Þetta vona ég að muni bæta skattframtölin.

Þá vil ég geta þess, sem ég hef reyndar áður getið, að á s.l. hausti var ákveðið að fjölga að nokkru starfsmönnum skattarannsóknardeildar ríkisskattstjóra í þeim tilgangi að auka aðhald og eftirlit með skattframtölum. Sú breyting er að fullu komin til framkvæmda, og eru nú 12 starfsmenn hjá deildinni, sem vinna að eftirlitsstörfum. Deildin ætti þannig að vera betur undir störfin búin og hafa meiri möguleika til aðhalds og eftirlits en áður. Starfsemi deildarinnar á liðnu ári hefur verið hagað með svipuðu sniði og áður. Starfskröftum hefur einkum verið beint að eftirliti með söluskatti og tekjusköttum, bæði félaga og einstaklinga um land allt, en þessir skattar eru verulegur hluti þeirra skatta, sem lagðir eru á af skattstjórum. Beitt hefur verið úrtaksaðferðum við val á verkefnum og þá oftast dregin út ákveðinn fjöldi af framtölum úr einstökum atvinnugreinum í senn. Þá hafa borizt mál frá hinum ýmsu skattstjórum til framhaldsmeðferðar. Athugun deildarinnar skiptist í tvo aðalflokka: almennar bókhaldsskoðanir eða yfirlitsathuganir annars vegar og sérstakar rannsóknir hins vegar. Skattstjórar hafa tekið virkan þátt í þessum athugunum með mannafla sínum, eftir því sem aðstæður þeirra leyfa. Starfsmenn rannsóknardeildarinnar hafa farið eftirlitsferðir í 4 skattumdæmi, það sem af er þessu ári. Farnar hafa verið 750 skoðunarferðir í fyrirtæki á árinu á vegum skattstjóra og rannsóknardeildarinnar. Þá hefur rannsóknardeildin tekið um 240 mál til sérstakrar rannsóknar, bæði mál félaga og einstaklinga, og lokið hefur verið rannsókn um 160 mála á árinu. Nú eru 150 mál til rannsóknar hjá deildinni, og 6 mál munu nú vera fyrir dómstólum vegna meintra brota á lögum um tekju- og eignarskatt og lögum um söluskatt. Frá 1. okt. 1971 til 30. sept. 1972 hefur nefnd sú, sem starfar skv. 6. mgr. 48. gr. laga nr. 68/1971, afgreitt 113 mál, þar af 91 með sekt, og nam heildarfjárhæð sekta á tímabilinu 18 millj. 568 þús. kr. En þá eru ekki meðtaldar hækkanir opinberra gjalda, þ.e. skattanna bæði til ríkis og sveitarfélaga, vegna þessara mála. Af sektarféinu renna í ríkissjóð 10 millj. 940 þús., en í sveitarsjóði 7 millj. 628 þús. kr.

Þessa greinargerð um starfsemi skattrannsóknardeildarinnar vildi ég gefa hér á hv. Alþingi vegna þess að ýmsir halda, að aðgerðir þeirrar deildar séu minni en raun ber vitni um. Sú fjölgun, sem varð á starfsliði hjá skattrannsóknarstjóra skv. ákvörðunum, sem teknar voru í fyrrahaust, hefur verið að koma til framkvæmda á þessu ári. Nú er unnið mjög skipulega að því að endurskoða, eins og áður sagði, ýmis skattframtöl og veilur, sem skattstofurnar hafa sjálfar fundið. Mjög er kappkostað að ná góðu samstarfi á milli skattrannsóknardeildarinnar og skattstofanna í landinu, því að svo bezt nýtast starfskraftar beggja aðila, að þannig sé á málum haldið. Enn fremur má bæta því við, að námskeið eru nú haldin í ríkara mæli fyrir starfsmenn skattstofanna til þess að samræma og bæta störf allra þessara aðila.

Í framhaldi af þessu vil ég svo víkja að því, að endurskoðun á skattakerfinu heldur áfram. Hér er þó um meira að ræða heldur en það, að verið sé að endurskoða skattakerfi ríkisins. Það fer fram heildarendurskoðun á öllu tekjuöflunarkerfi ríkisins. Ætlunin er að marka sem fyrst útlínur af þeirri heildarstefnu, sem síðan verður farið eftir við gerð tekjuöflunarkerfisins, og í framh. af því verði svo farið að ákveða einstaka skatta og tekjustofna innan þessarar heildarstefnumörkunar. Það, sem er nýlunda í þessum vinnubrögðum, sem hér eru viðhöfð nú, er, að stefnt er að því að fá einn samstæðan lagabálk um alla tekjuöflun ríkissjóðs. Með þessu ætti Alþingi og almenningur í landinu að eiga auðveldari yfirsýn yfir þetta svið. Væri það framför frá því skattakraðaki, sem nú er. Að þessu verki vinnur að mestu leyti sama nefndin sem vann að endurskoðun í fyrra. En því til viðbótar hefur verið ákveðið, að einn maður frá hverjum þingflokki vinni með nefndinni, þannig að þeir fá frá henni það, sem hún hefur dregið saman um málin á vinnustigi. Þannig ættu þingflokkarnir að eiga betra með að átta sig á málinu, þegar það kemur fram í frumvarpsformi hér á hv. Alþingi. Ég vil geta þess, að þeir menn, sem að þessu vinna verða að sjálfsögðu að vinna að þessu sem aukastarfi, því að þetta eru flestir menn, sem eru kjörnir til þessa starfs vegna reynslu sinnar af þessum málum á öðrum vettvangi. Hins vegar hefur verið á þessu sumri leitað til margra færustu manna á sviði skattamála til þess að vinna einstaka þætti málsins fyrir nefndina, og því verður haldið áfram. Gert hefur verið ráð fyrir því að reyna að losa ráðuneytisstjórann í fjmrn., sem er formaður nefndarinnar, að einhverju leyti frá störfum, svo að hann geti helgað sig betur þessu starfi. En hv. alþm. verða að gera sér grein fyrir því, að hér er um mikið mál að ræða. Ef steypa á saman í einn heildarlagabálk tekjuöflunarkerfi ríkisins, þá tekur það sinn tíma, og nefndin verður að fá nokkuð góðan vinnufrið til þess.

Eftir allar þær umræður, sem hér voru í fyrravetur um það, að ekki hefði verið nóg vandað til undirbúnings málsins, þá væri það að fara dálítið aftan að siðunum, ef nú ætti að ávíta fyrir það, að reynt er að vinna að þessu máli á sem allra beztan hátt og leita til þeirra aðila, sem hafa þar mesta reynslu. Ég get ekki á þessu stigi málsins sagt um það, hvort einhverjir þættir þessa heildarlagabálks gætu orðið til meðferðar á þessu þingi. Það verður að ráðast af skynsamlegum vinnuhraða við undirbúning. Verkið er unnið með verulegum hraða og dugnaði af færustu mönnum, og leitað er til færustu manna um einstaka þætti þess.

Næst vil ég snúa mér að þeim þætti í ríkisbúskapnum, sem mestu máli skiptir varðandi það, hvort fé því, sem veitt er á fjárlögum hverju sinni, er vel og hagkvæmlega ráðstafað. Ég hef áður látið í ljós þá skoðun, að ég telji brýna nauðsyn til að efla hagsýslumálefni ríkisins og gefa hagsýslunni meira ráðrúm til þess að vinna að endurskoðun ríkiskerfisins og endurbótum, sem ég veit að muni koma í kjölfar þess, ef hún getur beitt sínum vinnukrafti meira að hagsýslustörfum. Það hefur orðið svo bæði hjá fyrrv. fjmrh. og einnig hjá mér, að starf hagsýslustjóra og starfsmanna hans hefur að verulegu leyti verið unnið í sambandi við fjárlögin, undirbúning þeirra og framkvæmd á mörgum sviðum, og ýmsar athuganir á efnahagskerfi þjóðarinnar. Nú er stefnt að því að gera á þessu nokkra breytingu og freista þess að gera hagsýslustarfsemina virkari. Verður það m.a. gert með því að láta hagsýslustjóra fá nýjan starfsmann til viðbótar þeim, sem fyrir eru. Einn af starfsmönnum ríkisbókhaldsins var úti í Noregi við hagsýslunám s.l. ár. Hann flyzt nú til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Jafnframt er stefnt að því að breyta nokkuð um í vinnubrögðum. Í fyrsta lagi ber þá að geta þess, að undirnefnd fjvn. hefur unnið verulega mikið verk á þessu sumri. Hún er búin að taka fyrir mörg verkefni, sem nú er unnið að framhaldsathugun á. Undirnefndin hefur m.a. í samstarfi við hagsýsluna farið í heimsóknir í nokkrar ríkisstofnanir til þess að kynna sér starfsemi þeirra og skipulag og hefur kannað, hvort ekki megi í einhverju breyta og gera hagfelldari starfsemi þeirra. Áformað er að fylgja eftir þeim hugmyndum, sem upp úr þessum heimsóknum hafa sprottið, og fleiri stofnanir þarf að heimsækja með þessum hætti.

Það er ný og gömul reynsla, að erfitt er að koma fram hagsýslustörfum, ef það er ekki gert í samstarfi við viðkomandi aðila og mæta skilningi þeirra. Því hef ég ákveðið að stefna að því að halda námskeið um hagsýslumálefni hér í haust á vegum Fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Þetta námskeið verður haldið í fræðsluskyni fyrir ýmsa helztu stjórnendur hjá ríkinu og aðra þá, sem hera ábyrgð á rekstri og fjármálum í ríkisstofnunum. Það verður haldið til að auka áhugann hjá þessum starfsmönnum á nauðsyn hagsýslustarfsemi, og að sjálfsögðu verður þar kynnt, hvaða tækni og þekkingu er beitt og hvaða nýjungar í opinberri stjórnsýslu megi hagnýta sér. Hagsýslunámskeið af þessu tagi ætti að verða til þess að örva stofnanir til sjálfstæðrar hagræðingarstarfsemi. Jafnframt mun þetta verða til að auka áhuga ráðuneyta á slíkri starfsemi og gera þeim ljóst, að oft er fjárvon í hagræðingu og endurskipulagningu.

Í þessu sambandi langar mig að geta um eitt atriði í vinnubrögðum Norðmanna við fjárlagaundirbúning. Þar er það regla, að ráðuneytum ber ekki aðeins að skila fjárlagatillögum sínum og sinna stofnana í tæka tíð, þeim ber einnig að gera grein fyrir um leið, hvaða hagsýsluverkefni það eru, sem verið er að vinna að í stofnunum og ráðuneytum, og hvaða verkefnum hefur verið lokið á árinu. Þennan sið ættum við að stefna að því að taka upp hér.

En um framhald á vinnubrögðum hagsýslustofnunarinnar, þegar teknar verða fyrir einstakar stofnanir eða málaflokkar, hef ég gert ráð fyrir, að það yrði í samráði við viðkomandi ráðuneyti og forstjóra þeirra stofnana, sem fyrir yrðu teknar, og fulltrúar frá viðkomandi ráðuneyti, frá viðkomandi ríkisstofnun og frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun yrðu látnir vinna saman að þessum verkefnum, að undirbúningi þeirra og framkvæmd á breytingum, sem leiddi af niðurstöðu athugananna.

Af einstökum verkefnum, sem unnið hefur verið að, vil ég geta um þessar:

Á þessu ári var lagður niður Vélasjóður ríkisins, starfsemi hætt og hús og tæki seld. Með sama hætti var vélarekstur Landnáms ríkisins lagður niður, tækin seld og starfsmenn horfnir til annarra starfa. Við þessa breytingu voru starfsmönnum boðin önnur störf hjá ríkinu, sem nokkrir hagnýttu sér, en aðrir kusu að breyta til. Unnið verður áfram að því að sameina verkstæði ríkisins og markvisst stefnt að því, að starfrækt verði fá en stærri verkstæði, sem geri við tæki ríkisstofnana yfirleitt, í stað þess að hver sé að hokra við þetta. Í þessu sambandi hefur verkstæðisrekstur og birgðahald póst- og símamálastjórnarinnar, sem dreift er á margar smáar einingar og er víða um borgina, verið í athugun. Á þessu þarf að verða breyting, og er unnið að því. Jafnframt þarf að athuga, hvort ekki sé tímabært að taka til endurskoðunar skipulagsramma stofnunarinnar, sem er með elztu og stærstu stofnunum í ríkiskerfinu.

Eitt af þeim verkefnum, sem unnið hefur verið að á þessu sumri var athugun á mötuneytum ríkisstofnana. Í ljós hefur komið, að árlegur kostnaður ríkisins við mötuneyti er um 60 millj. kr. Nú er verið að vinna að því að athuga möguleika á því að fækka þeim stöðum, sem matur er búinn til á, en hins vegar að taka eldhús eins og nýja landsspítalaeldhúsið, sem er mikið fyrirtæki, en verður ekki fullnýtt um sinn, fullnýta það og dreifa út mat frá slíkri stofnun í hinar ýmsu ríkisstofnanir, þar sem nú er matreitt fyrir hvern starfsmannahóp fyrir sig.

Vátryggingamál ríkisins hafa sömuleiðis verið til athugunar á þessu sumri. Ríkið eyðir töluverðu fé í vátryggingar, en hitt er jafnframt, að almennar reglur um það, hvaða tryggingar skuli kaupa, eru ekki til og mjög mismunandi frá einni stofnun til annarrar, hvað tryggt er. Reyndar er það einnig höfuðviðfangsefni í þessu sambandi, hvort ríkið eigi að kaupa tryggingu af öðrum fyrir tjónaáhættu sína eða hvort það eigi að bera hana sjálft. Svo að vitnað sé til frænda okkar, Dana og Norðmanna, þá er það meginregla í ríkisrekstrinum þar, að ríkið kaupi ekki tryggingar, með nokkrum undantekningum þó. Er þetta nú til athugunar, en jafnframt verður að hafa í huga í þessu sambandi, að ráðstafanir þarf að gera til þess, að ekki komi til stöðvana eða tafa, þótt til tjóna komi.

Fjölmörg önnur hagsýsluverkefni hafa verið til meðferðar, sem hér verða ekki gerð skil nú. Ég trúi því, að með því að vinna þannig að þessum málum, eins og ég hef rætt um, muni vera hægt að ná meiri árangri en áður. Til greina getur einnig komið að fá inn í þetta hagsýslumenn úr öðrum stofnunum til þess að vinna ákveðin verk, en ég held, að það sé nauðsynlegt að keppa að því að fá starfsmenn í stofnunum og ráðuneytum til að taka þátt í þessu verki með hagsýslunni til þess að auðvelda að vinna gagnlegum breytingum brautargengi. Ég endurtek það, sem ég hef oft og mörgum sinnum sagt hér á hv. Alþingi, að ég hef ekki trú á því, að það sé hægt að ná árangri í betri nýtingu á fjármagni því, sem stofnanirnar fá gegnum fjárlögin, nema með skipulegum vinnubrögðum og beitingu þeirrar þekkingar, sem nú er þekkt í sambandi við fjárlagagerð og hagsýslustarfsemi.

Þegar við hv. 10. þm. Reykv. og Haraldur Pétursson safnvörður unnum sameiginlega sem yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins, þá gerðum við tillögu um það, að ríkisreikningi yrði látin fylgja skrá yfir nefndir, sem störfuðu á vegum ríkisins og ríkisstofnana það ár, sem reikningurinn næði til. Þessi tillaga þótti allfyrirferðamikil, þegar hún kom fram í fyrsta sinn, og það tók ein tvö ár að koma henni f framkvæmd. En með ríkisreikningi fyrir árið 1969 kom þessi skrá fram fyrst, og síðan hefur hún svo fylgt ríkisreikningi, svo sem nú er gert að þessu sinni. Það hefur verið venja að leggja þessa skrá fram, þegar ríkisreikningur hefur verið lagður fram endurskoðaður. Nú þótti mér hins vegar hlíta að láta skrána fylgja strax með ríkisreikningnum, þegar hann var lagður fram, þó að endurskoðun væri ekki lokið. Um þessa nefndarskrá hafa orðið allmiklar umræður. Eins og oft vill verða hefur svo farið, að talað er um þessi mál eins og það sé nú í fyrsta sinn, sem nefndir hafi starfað að málum, á vegum ríkisins, og útgjöldin þess vegna mikið umtöluð eins og ný útgjöld væru. Nú hef ég ekkert við það að athuga, hvernig menn haga vinnubrögðum sínum um frásagnir, það verður að vera þeirra mat. En mér þykir hlýða að gefa hér nokkra frekari greinargerð um þessa starfsemi í ríkiskerfinu heldur en þó er gert með nefndaskránni, sem þó er vel gerð, og ljóst er það, að hún er betur gerð núna heldur en nokkru sinni fyrr, þar sem þetta er að færast í fast horf, og ég hygg, að flest ráðuneyti séu nú búin að taka upp þau vinnubrögð að skrá nefndirnar inn í bækur sínar, strax og þær eru skipaðar á vegum ráðuneytanna, þær sem þannig eru, og afskrá hinar, sem niður eru lagðar.

Þessum nefndum er skipt í þrjá flokka. Í fyrsta flokki eru stjórnir og ráð, sem Alþingi kýs. Í öðrum flokki eru nefndir kjörnar og skipaðar skv. lögum og ályktunum Alþingis. Í þriðja flokki eru nefndir skipaðar af stjórnvöldum. Fjöldi þeirra nefnda, sem vinnur í hverjum flokki fyrir sig, er þannig, að stjórnir og ráð, sem Alþingi kýs, eru 40 á árinu 1971, 9.5% af heildarfjölda nefnda, kostnaður 10338 millj. eða 22.6%. Í öðrum flokki eru nefndir kjörnar og skipaðar skv. lögum og ályktunum Alþingis, 146, 34.7% af heildarfjölda nefnda, kostnaður 21.3 millj. eða 46.4%. Í þriðja flokknum eru nefndir skipaðar af stjórnvöldum, sem eru 235, eða 55.8% af heildarfjölda nefnda, kostnaður 14 149 millj, eða 31%. Samtals eru þessar nefndir 421 á árinu 1971 og heildarkostnaður er 45 778.8 millj, kr.

Þegar þetta er athugað nokkru nánar, kemur í ljós, að hér eru taldar allar þær nefndir, sem unnu á árinu, alveg án tillits til þess, hvort þær væru hættar störfum, þegar skráin kemur út, eða í árslok. Eftir því sem athugað hefur verið, þá eru samtals 76 nefndir, sem voru búnar að ljúka störfum fyrir áramót 1971, af þeim 421, sem í skránni eru taldar. Um slíka talningu frá fyrri árum hef ég ekki fyrir mér. Af þessum nefndum voru ólaunaðar nefndir og stjórnir 47 talsins. Breytingin á milli ára er sú, að ef tekin eru heildarlaun nefndanna, þá voru þau á árinu 1970 35.9 millj. og hækkuðu frá árinu 1969 um 36.5%. Á árinu 1971 var heildarkostnaðurinn 45.8 millj., og hækkunin var þá frá fyrra ári 27.6%.

Eins og fram hefur komið í umræðum um þessar nefndir, þá er þetta að sjálfsögðu mjög misjafnt á milli hinna einstöku ráðuneyta, og er það ekki nema eðlilegt, vegna þeirrar verkaskiptingar, sem á milli ráðuneytanna er. Á vegum menntmn. eru nefndirnar flestar, eða 126, og kostnaðurinn 8.2 millj. kr. Næsthæst að nefndafjölda er iðnrn. með 52 nefndir, en þar er kostnaður ekki nema 4 millj. kr. Hins vegar er sjútvrn, næst að kostnaði, það er þó ekki með nema 29 nefndir, stjórnir og ráð, og þar er kostnaðurinn 6.3 millj. kr. Heilbr.- og trmn. er með 40 nefndir og kostnaður 5.6 millj, kr. Fjmrn. er með 36 nefndir og kostnaðurinn er 5.3 millj. kr.

Nú hefur það að sjálfsögðu orðið svo í umræðum um þetta, eins og ég gat um í upphafi, að úttalað er eins og núv. ríkisstj. hafi skipað allar þessar nefndir, stjórnir og ráð og standi fyrir kostnaðarútgjöldum vegna þess. Þess vegna hef ég gert nokkurn samanburð á því, hvernig þessi skipting hefur orðið milli ríkisstjórnanna, Viðreisnar- og núverandi ríkisstjórnar. Þar koma nær eingöngu til greina nefndir skipaðar af stjórnvöldum.

Heildarkostnaður við stjórnskipaðar nefndir var 1971 14 149 millj. eða 31% af heildarkostnaði nefnda. Á vegum núv. ríkisstj. voru skipaðar þessar nefndir og kostnaður er þessi:

Forsrn. hafði skipað 2 nefndir, eftir að núv. ríkisstj. tók við, og kostnaður við þær nefndir var 90 þús. kr. Menntmrn. hafði skipað 11 nefndir og kostnaður við nefndirnar var 81 850 kr. eða 1.6% af heildarnefndarkostnaði á vegum þess rn. á árinu. Á vegum utanrrn. hafði engin nefnd verið skipuð. Á vegum landbrh. höfðu 4 nefndir verið skipaðar, enginn kostnaður var greiddur. Á vegum Sjútrn. höfðu 2 n. verið skipaðar, enginn kostnaður greiddur. Á vegum dómsmrh, hafði engin n. verið skipuð. Á vegum félmrn. höfðu verið skipaðar 5 n., heildarkostnaður var 474 þús. eða 13.5% af heildarnefndarkostnaðinum. Á vegum fjmrn. höfðu 4 n. verið skipaðar, heildarkostnaður var 135 þús. eða 2.5% af kostnaði af n. á vegum þess rn. á þessu ári. Á vegum samgrn. höfðu engar n. verið skipaðar. Á vegum iðnrn. höfðu verið skipaðar 9 n., og var sá kostnaður 834 þús. eða 20.5%. Á vegum viðskrn. hafði ein n. verið skipuð, enginn kostnaður, og af Hagstofunni engin.

Á vegum þessarar ríkisstjórnar höfðu því verið skipaðar 40 nefndir eða milli 17 og 18% af þessari nefndarskipun. Kostnaður við þær var á árinu 1 millj. 614 þús. eða 11.5% af þeim kostnaðarlið, sem fór til n., sem ríkisstj. hafði skipað: En á sama tíma hafði þessi ríkisstj. lagt niður 26 n., og síðar, á þessu ári, 7 n., og hafa verið 33 n. lagðar niður, er þetta yfirlit er gert eða réttara sagt 26 n, voru lagðar niður, en 40 skipaðar á árinu sem leið, og það eru 14 fleiri, sem voru skipaðar en niður lagðar. Þess vegna er það nú svo, þegar litið er á þennan heildarnefndarkostnað, að þá kemur það í ljós, að hann tilheyrir að mestu leyti fyrrv. ríkisstj., en ekki núverandi, eins og þetta yfirlit sýnir.

Eins og venja er, hefur orðið allmikil umræða um það, hvað fjárlagafrv. þetta hækkar frá yfirstandandi fjárlögum, en þó fyrst og fremst hvað hækkunin er mikil frá fjárlögunum fyrir árið 1971. Ég hef bæði í þessari ræðu minni og eins áður gert athugasemdir við þessar umræður að því leyti, að mér hefur ekki fundizt þessi samanburður réttmætur, þar sem svo mjög skortir á það, að inn í fjárlög 1971 væru teknir veigamiklir útgjaldaliðir, eins og launahækkanir og fleira, sem hefðu afgerandi áhrif á útgjöld það ár og reyndar siðar. Til þess að fá þennan samanburð nokkru réttmætari að minni hyggju heldur er gert er í þessum almennu umræðum, þá hef ég látið gera samanburð á ríkisreikningi á milli áranna, allt frá því það form ríkisreiknings var upp tekið, sem nú gildir. Ég tek inn í þennan samanburð áhrif breytinganna eins og þau hafa orðið á milli ára, og þá bætt við árið 1972 þeim hækkunum, sem líkur eru fyrir að verði á útgjöldum þessa árs frá fjárlögum. Frá árinu 1968 til 1969 var þessi mismunur 9.9%. Frá árinu 1969–70 var mismunurinn 23.2%. Frá árinu 1970–71 var hann 44.7%. Frá 1971–72 er hann 22.3%, miðað við fjárlög en 27.5% miðað við að bæta við þeirri fjárhæð, sem ég gerði grein fyrir áðan. Í sambandi við mismuninn á milli áranna 1971 og 1972 vil ég geta þess, að ef tilfærslur hefðu ekki orðið á milli ríkis og sveitarfélaga, svo sem þá átti sér stað, þá hefði þessi hækkun á milli ríkisreikninga þessara tveggja ára ekki orðið nema 20–22%. Það má reyndar með réttu segja, að þetta sé ákvörðun stjórnvalda, sem tekin er um þessi auknu útgjöld ríkisins, sem sveitarfélögin sinntu áður, en ný útgjöld eru það ekki hjá stjórnsýslunni í heild, því að þau koma til með að lækka útgjöld sveitarfélaganna sem sömu fjárhæð nemur. Þessi samanburður er að minni hyggju skynsamlegri og réttmætari heldur en það tal, sem hefur orðið um hækkun ríkisútgjalda í höndum núv. ríkisstj. Ef samanburður er gerður frá 1971 til 1973, þó að sveitarfélagadæmið sé tekið þar með, þá er um að ræða 48.8% hækkun á þessum tveimur árum, en á tveim árunum á undan, árunum 1969–1971, er hækkunin nær 79%. Hækkunin er hlutfallslega þetta lægri, þrátt fyrir það að á þessum tveimur síðari árum hefði verið gerð sú róttæka breyting um tilfærslu á milli ríkis og sveitarfélaga, sem áður er getið. Í þeim umræðum, sem fram hafa farið um hækkun ríkisútgjalda, gleyma fyrrverandi stjórnarherrar algerlega sínum ákvörðunum og áhrifum á ríkisreikninginn 1971 og reyndar á útgjöld ríkissjóðs síðan.

Eins og fram hefur komið í ræðu minni hér að framan, eru 3 atriði, sem mestu hafa valdið um hækkanir ríkisútgjalda á árinu 1971 og síðan. Þau eru launhækkanir, tryggingabætur og dýrtíðarráðstafanir. Þegar hafðar eru í huga verðstöðvunaraðgerðir haustið 1970, þarf engan að undra, þó að aðgerða í efnahagsmálum sé þörf. Þá treysti Viðreisnarstjórnin ekki atvinnuvegunum til þess að greiða fulla verðlagsvísitölu á það kaupgjald, sem þá var í gildi. Það var þó almannarómur, að laun á hinum almenna vinnumarkaði þá væru svo lág, að þau fengju ekki staðizt til lengdar. Viðreisnarstjórnin mat ekki stöðu atvinnuveganna betur en svo þá, að þrátt fyrir hagstæð aflabrögð og hækkandi verðlag á útflutningsafurðum væri stóraðgerða þörf. Sú stefnuákvörðun Viðreisnarstjórnarinnar, sem þá var tekin, var fólgin í því að færa erfiðleika atvinnuveganna inn í ríkissjóð, sem gert var með stórauknum niðurgreiðslum, svo að verðstöðvunin væri framkvæmanleg. Á tímabilinu frá nóvember 1970 til júlí 1971 jók Viðreisnarstjórnin niðurgreiðslur og þar með útgjöld ríkissjóðs og frestaði verðhækkunum fram yfir 1. sept. 1971, svo sem hún mögulega gat. En öllum var ljóst, að til lengdar yrði þeim verðhækkunum sumum hverjum ekki frestað nema um takmarkaðan ríma vegna þess, hvers eðlis þær voru. Þessu til viðbótar í viðskilnaði Viðreisnarstjórnarinnar kom það, að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru lausir um haustið 1971. Ljóst var, að við gerð nýrra kjarasamninga hlaut að verða tekið mið af samningum ríkisstj. við ríkisstarfsmenn, bæði um hækkanir taxta og vinnutímalengd. Með samstarfi aðila vinnumarkaðarins og núv. ríkisstj. tókst að koma kjarasamningum heilum í höfn fyrir áramótin 1971, án þess að til stórátaka kæmi, svo sem verkfalla, eins og kunnugt er, og vinnufriður var þar með tryggður til tveggja ára. Öllum var ljóst, að við gerð þessara kjarasamninga var gengið það langt, að ef til áfalla kæmi í atvinnurekstrinum, svo sem verulega drægi úr þorskveiðum, eins og átt hefur sér stað á þessu ári, mundi til erfiðleika koma. Þar við bættist svo það, að vegna gengisbreytinga erlendis hefur verðlag hækkað hér nokkuð, og svo voru til staðar duldar verðhækkanir frá verðstöðvunartímabilinu, svo sem áður er fram tekið, og einnig var ljóst, að kjarasamningarnir mundu leiða til einhverrar hækkunar á vöruverði á innanlandsmarkaði.

Þegar þær forsendur eru hafðar í huga, sem hér hafa verið raktar, þarf engan að undra, þó að við nokkurn efnahagsvanda sé nú að etja. En ég legg áherzlu á það, að til aðgerða eða aðgerðaleysis fyrrv. ríkisstj. má rekja verulegan hluta þess vanda.

Það hefur verið deilt á það í umræðum um þetta fjárlagafrv., að það skorti útgjöld til að leysa efnahagsvandamálin nú. Ég vil í tilefni af því segja það, að það orkar mjög tvímælis að mínum dómi, hvað langt á að ganga inn á braut niðurgreiðslna og þar með beinna ríkisafskipta af atvinnurekstri. Við fjárlagafgreiðslu fyrir árið 1972 var reynt að snúa aftur af þeirri braut, sem ákveðin var af Viðreisnarstjórninni með verðstöðvunarlögunum 1970, og draga úr niðurgreiðslum. Það var að sjálfsögðu fordæmt af núverandi stjórnarandstöðu. Því miður reyndist ekki fært að halda það út á þessu ári, svo sem til var stofnað, og var aftur horfið að fyrri aðgerðum í niðurgreiðslum. Enda þótt það sé nú gert og ég geri mér ljóst, að ekki er enn þá séð, hvað ofan á verður um heildarniðurgreiðslur við afgreiðslu fjárlagafrv., þá lýsi ég þeirri skoðun minni, að niðurgreiðslur eru nauðsynlegar og réttmætar að vissu marki. Við það er þetta fjárlagafrv. að verulegu leyti miðað. En þær verða að eiga sín takmörk, því að inn á ýmis hættusvið geta þær að öðrum kosti leitt. Ég vil líka leggja áherzlu á það, að ég tel vísitöluverðlagsmælin nauðsynlegan og sjálfsagðan, sem vörn um kaupmátt launa, en sú vísitala verður að vera uppbyggð með þeim hætti, að hún sé miðuð við almennt neyzlustig þeirrar neyzlu, sem neytandinn þarf til þess framfæris, sem öllum er nauðsyn, og miða að réttu mati neyzlustigsins innbyrðis. En hún má ekki verða til þess, að stjórnvöld hafi ekki eðlilegt svigrúm til hæfilegrar og skynsamlegrar tekjuöflunar, þannig að hún hafi bein áhrif á val tekjustofna og komi í veg fyrir skynsamlegar og nauðsynlegar aðgerðir til félagslegrar uppbyggingar og atvinnuöryggis. Þá er grundvöllur hennar rangur, þá getur hún beinlínis orðið til þess að glata því, sem mest er um vert, atvinnuöryggi og fjárhagslegu sjálfstæði. Ég legg áherzlu á þetta án þess að ræða efnahagsmálin frekar að sinni.

Herra forseti. Ég lýk nú senn máli mínu, enda það orðið alllangt. Ég hef í ræðu minni hér að framan sýnt fram á, að tal um hækkun þessa fjárlagafrv. í samanburði við fyrri fjárlög Viðreisnarstjórnarinnar er ekki byggt á raunhæfu mati. Ég hef hins vegar sýnt fram á það í ræðu minni hér, hvert það raunhæfa mat er. Mér er ljóst og mun ekki biðjast undan því, að fjármálastjórnin nú verði gagnrýnd, frekar en fyrri daginn. En ég ætlast til þess, að þeir, sem það geri, hafi ekki gleymt fortíð sinni og áhrifum sínum á þau útgjöld, sem ríkissjóður verður nú að standa straum af, því að svo skammt er undan síðan völd þeirra og ráð réðu hér og svo langan tíma hefur það varað, að það er ekki von, að nú séu þau með öllu útþurrkuð. Ég vek hins vegar athygli á því, að sú félagslega uppbygging, sem einkennir þetta fjárlagafrv. að öðrum þræði, er sú stefnumörkun, sem núverandi ríkisstj. tók við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1972 og mun halda áfram í starfsemi sinni. Það er einmitt sú félagslega uppbyggin„ sem fólkið í þessu landi þarf fyrst og fremst. Hins vegar mun í því sem öðru verða að fara að með gætni, og margt verður að sjálfsögðu að bíða, enda er það öllum ljóst, að svo verður að vinna að farsælli uppbyggingu í þjóðfélaginu.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði fjárlagafrv. fyrir árið 1973 vísað til 2. umr, og hv. fjvn.