12.12.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

Umræður utan dagskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Hér er sannarlega um mikið og stórt vandamál að ræða. Mér finnst, að ekki hafi verið lögð nóg áherzla á heilbrigðisháttinn í þessu vandamáli. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að mikill meiri hlutinn af öllum hegðunarvandamálum og afbrotum unglinga vegna eins konar geðtruflana, ýmist vegna ofdrykkju, geðtruflana vegna fíkniefna eða vegna skapgerðarveilu. Og slíkt fólk, sem brýtur af sér við þær kringumstæður, á að sjálfsögðu ekki heima í fangelsum, það á heima á sjúkrahúsum. Ég held, að það hefði þurft að koma betur fram hér, að það, sem okkur vantar fyrst og fremst, er, að þetta fólk fái aðstöðu til rannsóknar og lækninga á sínum meinum. Eftir þeim lýsingum, sem hér hafa komið fram, virðist það nokkuð augljóst, að hér er ekki um venjulega unglinga að ræða, hér er um sjúkt fólk að ræða. Það er ekki nokkrum vafa undirorpið, að þegar 14–16 ára drengir haga sér eins og hér hefur verið getið, þá er um stórkostlegt hegðunarvandamál að ræða. Það, sem mér hefði fundizt eðlilegast, væri, að þessum drengjum væri komið fyrir á rannsóknardeild, þar sem sálfræðingar og geðlæknar tækju þetta eins og hvert annað sjúkdómstilfelli og leituðu eftir orsökunum og reyndu að lækna. Og þá fyrst þegar endurteknar tilraunir hefðu árangurslaust verið gerðar í þessa átt, kæmi til innilokunar í fangelsum.

Við vitum það, að á seinni árum hefur meðferð á hvers konar geðveilum gerbreytzt og lækningar heppnazt á fjölda manns, sem áður var talinn ólæknandi. Mér finnst, að tala þeirra mörgu unglinga, sem hér er um að ræða, hlyti að geta lækkað til stórra muna, ef þeir væru meðhöndlaðir sem sjúklingar og gerðar jafnötular ráðstafanir þeim til lækninga og gert er á flestum öðrum sviðum í okkar þjóðfélagi í dag, ef alvarleg veikindi eru fyrir hendi. Það er ekki vafi á því, að rannsóknarstöð er sú stofnun, sem við þurfum einna mest á að halda núna, og á meðan við erum í svo miklum örðugleikum sem komið hefur fram hér, þá ætti það að vera hlutverk geðsjúkrahúsanna að sinna þessum unglingum að einhverju leyti. Þessi rannsókn þarf ekki að taka langan tíma, en ég tel hana algera nauðsyn sem undanfara innilokunar, og ég held, að við gætum vænzt betri árangurs af slíkri meðferð heldur en þeirri, sem nú er viðhöfð.