15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 170 er frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1973. Eins og boðað var í grg. í fjárlagafrv. fyrir árið 1973, er framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkissjóðs fyrir það ár nú lögð fram, meðan fjárlfrv. er enn til meðferðar, þannig að unnt verði að líta á heildarframkvæmdir ríkisins við ákvörðunartöku á Alþ. Þetta er í fyrsta sinn, sem frv. þessi eru til meðferðar samtímis á þinginu, og er að því augljóst hagræði. Lánsfjáröflun til þeirra opinberu framkvæmda, sem í 10. gr. frv. eru taldar, nemur 918 millj. kr., auk 100 millj. kr., sem ætlað er að að gangi til Framkvæmdasjóðs Íslands sem hluti af nýrri spariskírteinaútgáfu, eða samtals 1018 millj. kr. Hluti opinberra framkvæmda af nýrri spariskírteinaútgáfu er einnig 100 millj. kr., þannig að slík útgáfa nemur í heild um 200 millj. kr. Á árinu 1972 var heimiluð útgáfa spariskírteina að fjárhæð 500 millj. kr. Nú hefur verið ákveðið, að ekki verði notaðar nema 360 millj. kr. úr þeirri heimild, og er ekki talið líklegt, að búið verði að selja skírteini fyrir þá fjárhæð fyrr en á fyrstu mánuðum ársins 1973. Með tilliti til reynslu af sölu á spariskírteinum á þessu ári þykir ekki ráðlegt að reikna með meiri sölu en 200 millj. kr. á árinu 1973, enda mun hluti af heimild þessa árs verða notaður á því ári. Auk þess er ráðgert að á árinu 1973 verði aukin sala skuldabréfa happdrættisláns vegna vega- og brúaframkvæmda á Skeiðarársandi, sem hér er áætluð 230 millj. kr., og er það í samræmi við vegáætlun. Endurgreiðsla eldri spariskírteina er áætluð 350 millj. kr., vörukaupalán hjá Bandaríkjastjórn (PL-480) 50 millj. kr., önnur erlend lántaka til opinberra framkvæmda, (vega- og raforkumála) 172 millj. og tækjakaupalán í þágu vitamála og löggæzlumála 16 millj. Fyrir utan framangreindar lántökuheimildir til opinberra framkvæmda, sem samtals nema 918 millj. kr., má gera ráð fyrir 400 millj. kr. erlendri lántöku Landsvirkjunar, sem er áætlaður kostnaður við ársáfanga Sigölduvirkjunar, og 60 millj. kr. tækjakaupaláni Pósts og síma, en ekki er þörf á að leita sérstakrar lántökuheimildar í þessu frv. til þessara framkvæmda. Þannig nemur lántökuþörfin til opinberra framkvæmda í heild 1378 millj. kr. á árinu 1973, en árið 1972 námu hliðstæðar lántökuheimildir samtals 1778 millj. kr. og er því lækkunin um 400 millj. kr.

Það, sem hér er ráðgerð lántaka til, er í fyrsta lagi Rafmagnsveitur ríkisins, að þær fái af þessu láni 236 millj. kr. Framkvæmdir þær, sem um er að ræða á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, eru í meginatriðum þessar: Til virkjana eru ætlaðar 125 millj. kr., þar af til Lagarfossvirkjunar 46.5 millj. og til Mjólkárvirkjunar 79.1 millj. Kostnaður við stofnlínur og aðveitustöðvar er áætlaður 65.1 millj. kr., þar af Andakíll-Þingnes 3.5 millj., Snæfellsneslína 25 millj., Varmahlíð—Sauðárkrókur 5 millj., Djúpivogur–Berufjörður 9.6 millj., Laugarvatnslína 6.5 millj., Mýrdalssandur 8 millj., spennar á Akureyri og í Aðaldal auk aðveitustöðvar á Dalvík 7.5 millj. Til innanbæjarkerfa eru ætlaðar 30 millj. og ýmissa annarra verkefna 23.5 millj. Heildarframkvæmdir eru þannig 244 millj. kr., en á móti koma heimtaugagjöld, sem eru 8 millj. kr.

Þá er gert ráð fyrir lengingu á lánum vegna skuldagreiðslubyrðar rafveitnanna, og er gert ráð fyrir 10 millj. kr., en árið 1972 var varið 20 millj. kr. í þessu skyni.

Framkvæmd Laxárvirkjunar hefur enn seinkað nokkuð, og nú er gert ráð fyrir, að virkjunin hefji starf vorið 1973. Þessari seinkun fylgir nokkur kostnaðarauki, og er talað um 47 millj. kr. lánsfé muni nægja til þess að ljúka virkjuninni. Ríkisstj. hefur ályktað, að stefnt skuli að því að leggja orkuflutningslínu frá væntanlegri Sigölduvirkjun til Norðurlands. Hér er gert ráð fyrir 13 millj. kr. rannsóknakostnaði vegna verkefnisins, og auk þess er í 7. gr. frv. leitað sérstakrar aukalegrar lántökuheimildar að fjárhæð 150 millj. kr., sem síðar yrði ákveðið, hvort nota skuli. Yrði það hugsanlega í sambandi við frekari rannsóknarkostnað á árinu en hér er áætlaður eða til efniskaupa, miðað víð, að lagningin geti hafizt árið 1974.

Á fjárlagafrv. árið 1973 eru áætlaðar 50 millj. kr. til sveitarafvæðingar, og með þeirri fjárhæð er svo 70 millj. kr. lánafjáröflun, en gert er ráð fyrir 120 millj. kr. til þeirra framkvæmda á næsta ári.

Hjá Orkustofnuninni er gert ráð fyrir fjórskiptri lánsfjáröflun, samtals að fjárhæð 53 millj. kr. Í fyrsta lagi ganga 20 millj. kr. til vatnsorkurannsókna og yrðu Þjórsár- og Hvítársvæði og Jökulsár á Fjöllum aðalverkefnin. Í öðru lagi yrði varið 23 millj. til hitarannsókna, einkum til borunar í Svartsengi á Reykjanesi og tæknilegra vinnsluathugana á nýtingu varmaorku fyrir byggðarlög utarlega á Reykjanesi og Keflavíkurflugvöll. Í þriðja lagi er ráðgerð 6 millj. kr. fjáröflun til jarðborana ríkisins vegna rekstrarfjárþarfa, og loks 4 millj, kr. fjáröflun til jarðhitaleitarlána til viðbótar 5.1 millj. í fjárlfrv.

Þá er, eins og áður er fram tekið, gert ráð fyrir 230 millj. kr. til framkvæmda á Skeiðarársandi.

Á sama hátt eru teknar hér fjárhæðir í samræmi við vegáætlun. Þær framkvæmdir, sem þar um ræðir, eru hraðbrautir 75 millj., Norðurlandsáætlun 150 millj., Austurlandsáætlun 75 millj. og Djúpvegur 25 millj. kr. Samtals nemur kostnaðurinn við þessar framkvæmdir samkvæmt vegáætlun 325 millj. kr., en áætlað er, að breyting á vegalögunum muni leiða til allt að 250 millj. kr. tekjuauka af stofnum vegasjóðs, þannig að á vantar 75 millj. til þess að fjármagna þetta.

Til framkvæmda við Hafnarfjarðarveg í Kópavogi er ráðgert að afla um 50 millj. kr., en af þeim mun rösklega helmingurinn fara til skuldagreiðslna.

Það, sem vinna á að við landshafnir á næsta ári, er: Áframhaldandi rannsóknir í Þorlákshöfn, og er gert ráð fyrir 2 millj. kr. fjárveitingu. Til Njarðvíkurhafnar eru áætlaðar 11 millj. kr., og á þar að gera sérstakan garð. Og til Rifshafnar eru um 6 millj. vegna frágangs á verkum þar.

Þá er gert ráð fyrir tækjakaupum vegna radíóvita.

Norðurlandsáætlun um hafnir og flugveili eru áætlaðar 13 millj. kr. vegna hafna á Drangsnesi, Skagaströnd og Hofsósi. Til flugvalla er gert ráð fyrir að verja 25 millj. kr. Skipting þess fjár hefur enn þá ekki endanlega verið ráðin, en skv. fyrirliggjandi till. þar um munu 15 millj. kr. fara til að endurbyggja flugbrautina á Sauðárkróki og hitt skiptist á milli annarra staða.

Fjárhæð til flugöryggismála nemur 11 millj. kr. til greiðslu inn á 6 ára samning, sem gerður var 1971 um ratsjárbúnað fyrir flugstjórnarmiðstöðina í Reykjavík og þjálfun starfsfólks.

Til lögreglustöðvarinnar í Reykjavík, er gert ráð fyrir að varið verði 19 millj. Fjáröflun til þessara framkvæmda er 8 millj. í formi tækjakaupaláns, eins og fyrr greinir. Í fjárlfrv. er gert ráð fyrir 3.2 millj. fjárveitingu til verksins, þannig að til ráðstöfunar verða 22.2. Hins vegar er gert ráð fyrir því í síðustu áætlun um þessa framkvæmd, að um 8 millj. kr. vanti til endanlegs frágangs utanhúss og innan, sem flyzt þá til ársins 1974.

Rannsóknastofnanir á Keldnaholti: Vegna framkvæmda rannsóknastofnananna þarf um 9 millj. kr. á árinu 1973, þar af 7 millj. til skuldagreiðslna vegna verka, sem þegar eru unnin, og 2 millj. eru ætlaðar vegna vegagerðar og lýsingar og ýmissa smáverka.

Að lokum er svo gert ráð fyrir því, að halli á framkvæmdaáætlun 1972 verði um 30 millj. kr., og er gert ráð fyrir að útvega lánsfé til þess að mæta því.

Ég mun ekki eyða fleiri orðum um þessa framkvæmdaáætlun og legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Vinsamleg tilmæli mín eru þau, þrátt fyrir það að sú n. fái nú mörg verkefni samtímis, að hægt verði að hraða málinu svo, að hægt verði að ljúka afgreiðslu framkvæmdaáætlunar sem fyrst, helzt áður en þingi verður frestað að sinni.