15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Þannig stendur á, að ég þarf að víkja af fundi, og mun þá haga orðum mínum þannig, að þau valdi ekki æsingi hjá hæstv. ráðh. út af því, sem ég þarf að segja.

Hæstv. samgrh. talaði um, að stjórnarandstaðan talaði oft um miklar hækkanir og þenslu í þjóðfélaginu. Þetta er rétt. Við gerum það oft, og það gera margir, þegar fjárl. hækka á tveimur árum um meira en 100%, eins og núna lítur út fyrir. En þenslan í þeim fjárl., sem við ætlum að fara að afgreiða núna, er ekki fyrst og fremst vegna mikilla framkvæmda, því að eins og hæstv. ráðh. vita, þá verður hlutfallið til framkvæmda á fjárl. miklu lægra en það hefur verið. Þetta er staðreynd, sem ekki þarf að mótmæla og allir geta séð, sem bera saman fjárlagafrv. nú og fjárl. í fyrra og þá sérstaklega fjárl. 1971. Þetta hlutfall versnar enn við endanlega afgreiðslu málsins. Og framkvæmdaáætlunin og fjárl. eru samtvinnuð, það eru alveg samtvinnuð mál. Það hefur áhrif á framkvæmdaáætlunina, hvernig afgreiðsla fjárl. er. Við í stjórnarandstöðunni viljum helzt, að það fari sem mest til nauðsynlegra framkvæmda og minna í rekstrarkostnað. Veit ég nú, að hæstv. ráðh. eru mér sammála um þetta, þótt raunin hafi orðið sú upp á síðkastið, að þeir hafa ekki getað að þessu leyti unnið eins og þeir hefðu helzt viljað. Þetta er skýringin á því, sem hæstv. samgrh. minntist á í sambandi við tal stjórnarandstöðunnar og vilja. Við viljum vitanlega allir gera sem mest, og það er kallað eftir miklum framkvæmdum.

Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að það hefði þurft að vinna við landshöfnina í Rifi, og það var reyndar rökstutt líka um landshöfnina í Njarðvíkum, nauðsynlegt að vinna þar til þess að bjarga verðmætum. Ég býst við, að þetta sé alveg rétt. En þessu er raunverulega einnig þannig farið um Þorlákshöfn. Það er rétt, sem hæstv. fjármrh. sagði hér áðan, það var gert stórt átak í Þorlákshöfn fyrir fáum árum og það er búið að láta mikla peninga í Þorlákshöfn. En þessir peningar nýtast ekki, nema það sé gert meira, eins og hæstv. samgrh, hefur viðurkennt. Nú veit ég, hvernig það er að koma saman framkvæmdaáætlun. Ég þekki alveg til þess. Það hefur oftar en nú verið messað lengi yfir framkvæmdaáætlun til þess að koma henni saman. Það er ekki í fyrsta sinn nú, sem sagt er, að það þurfi að skera meira niður, vegna þess að fé sé ekki fyrir hendi. En það þarf ekkert að vera að segja mér það, að þjóðfélagið fari úr skorðum, þótt tekin væri inn þessi upphæð, sem vantar í Þorlákshöfn. Sem betur fer þarf meira til. ef það er ekki komið allt í kaldakol. Það er ekki þessi litla þúfa, sem veltir hlassinu, eins og þar stendur.

Ég kom nú aðallega upp í ræðustólinn til þess að segja það aftur, að ég vonast til þess, að bæði hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. endurskoði þetta mál. Ég var ánægður með, hvað þeir báðir sögðu í sambandi við nauðsyn þess að framkvæma þetta. En ég var ekki eins ánægður með það, hvað þeir voru daufir í dálkinn og að mér virtist vonlitlir um, að það mætti takast að ná þessari upphæð inn. Við vitum allir, að þetta er mögulegt, ef viljinn er nægilega sterkur. Og þess vegna segi ég það aftur: Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. endurskoði þetta mál og taki upp fjárveitingu, 35–40 millj. kr., í Þorlákshöfn, til þess að það mikla fjármagn, sem þar er komið, megi nýtast. Þetta er ein mikilvægasta fiskihöfnin á landinu, og þetta er líka samgönguhöfn fyrir Vestmannaeyjar, því að það er ekki hugsanlegt að hafa daglegar ferðir milli lands og Vestmannaeyja, nema Þorlákshöfn verði bætt.