16.12.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

33. mál, efling Landhelgisgæslunnar

Frsm. meiri hl. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Því miður hefur orðið nokkur töf á afgreiðslu þessa máls í fjvn., og má þá fyrst og fremst kenna um miklum önnum n. í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. En það er von mín og ég held allra nm., að þessi töf komi ekki að sök. Fjvn. hefur rætt þetta mál allítarlega. Innan n. er ekki skoðanamunur um það, að efling Landhelgisgæzlunnar sé nauðsynjamál. Þess vegna eru allir nm. sammála um efni og tilgang þessarar þáltill. Hins vegar kusu fulltrúar Sjálfstfl. í n. að skila séráliti, þar sem þeir munu líta svo á, að með því ættu þeir auðveldara með að koma fram sérstökum viðhorfum sínum til eflingar Landhelgisgæzlunni. Ég sé ekki, að þetta sé á neinn hátt óeðlilegt, en ég fagna því, að þeir sem aðrir hv. fjvn.- menn eru meðmæltir samþykkt tillögunnar.

Við, sem að þessu nál. stöndum, leggjum eindregið til, að till. verði samþ. óbreytt. Ég vil geta þess, að sú skoðun kom fram í n., að skynsamlegt mundi vera í sambandi við öflun nýs varðskips að skipa sérstaka skipakaupanefnd eða byggingarnefnd varðskips. Við gerum ekki till. um, að tillgr. verði breytt til samræmis við þessa skoðun, en eigi að síður er hér um ábendingu að ræða, sem meiri hl. fjvn. væntir, að hæstv. ríkisstj. taki til athugunar. Ég endurtek, að meiri hl. fjvn. leggur til, að till. verði samþ. óbreytt.