11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hafa kjarasamningar verkalýðsfélaganna verið lausir á annan mánuð. Viðræður hafa farið fram milli aðila vinnumarkaðarins, en eftir því sem best er vitað, hefur lítið þokast í samkomulagsátt. Nú leiðir það af líkum, að ástandið er mjög uggvænlegt, og þingheimur hlýtur að láta sig nokkru varða, eins og reyndar þjóðin öll hvernig þessi mál öll þróast.

Nú hefur eitt stéttarfélagið, stéttarfélag flugfreyjanna, boðað til verkfalls, að mér skilst núna 15. des., og ef svo fer fram, þá mun taka fyrir samgöngur í lofti, flugsamgöngur við útlönd. M. ö. o:: vandamálin hrannast upp, og fram undan er svo að koma út bátaflotanum um áramótin, tryggja rekstrargrundvöll útgerðarinnar o. s. frv. Sannast sagna er ástandið mjög ískyggilegt.

Ég hef því leyft mér að bera fram þrjár fsp. til hæstv. fjmrh., er allar lúta að því, hvernig þessi mál standa nú í dag. Ég vil leyfa mér að lesa þessar fsp. upp, með leyfi hæstv. forseta:

1. Hvað hefur ríkisstj. gert til að liðka til, þannig að samningar mættu takast við launþegasamtökin?

2. Er það rétt, að ríkisstj. hafi komið til móts við BSRB með ákveðið samningstilboð, og ef svo er, hvernig hljóðar það?

3. Hvað hugsar ríkisstj. sér að gera til að leysa þann mikla vanda, sem er á vinnumarkaðinum, og tryggja vinnufrið í landinu?