11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

389. mál, raforkumál á Snæfellsnesi

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Tenging sú, sem hv. þm. Benedikt Gröndal spyr um, er ráðgerð framkvæmd á árinu 1974. Það er 66 kw stofnlína frá Andakílsárvirkjun að vegamótum á Snæfellsnesi ásamt spennistöð þar. Með þessu er Snæfellsneskerfið einnig tengt Landsvirkjun. Fé til þessara framkvæmda er á fjárlagafrv., eins og hv. þn. vita. Við þessa framkvæmd, er ráðin veruleg bót á orkumálum Snæfellsness, og má segja, að stofnlínulögnin sé undirstaða að víðtækari endurbótum á þessu svæði.

Þá ráðgera Rafmagnsveitur ríkisins á næsta ári að hækka spennu á háspennulínu á sunnanverðu Snæfellsnesi úr 11 í 19 kw., og er að því töluverð bót og bætt flutningsgeta. Þá liggur næst fyrir á framkvæmdaáætlun Rafmagnsveitna ríkisins að byggja háspennulögn frá Vegamótum til Stykkishólms og yrði sú lína rekin með 19 kw. spennu til að byrja með. Þá er og ráðgert að stefna að tengingu frá Stykkishólmi til Búðardals og tengja þar með Búðardalssvæðið við Snæfellsneskerfið, og er hér einnig um að ræða 19 kw. stofnlínu.

Þá má geta þess, að fjárfestingar Rafmagnsveitna ríkisins á Vesturlandi á árinu 1973 eru þessar: Dísilvél á Ólafsvík 9.7 millj. kr., dísilvél í Stykkishólmi 7.6 millj. kr., lína á Fróðárheiði 2 millj. kr., 11—19 kw. breyting í Borgarfirði 2 millj. og nýjar tengilínur á Búðardalssvæði 1.7 millj., eða samtals 22 millj. kr.

Þótt þetta sé allt til bóta, get ég tekið mjög undir það með hv. þm., að okkur er mikil þörf á því að hraða nú sem mest öllum framkvæmdum okkar í sambandi við nýtingu á okkar eigin orkulindum. Það hafa verið miklar framkvæmdir á undanförnum árum, ekki síst í raforkumálum. Það er verið að byggja nú þrjár meiri háttar virkjanir, eins og menn vita, bæði byrjað á Sigölduvirkjun og svo myndarlegum virkjunum bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum. En ég er þeirrar skoðunar, að þessi áform öll verði að taka til endurskoðunar, til þess að við getum nýtt innlenda orkugjafa í stað olíu. Og þær umbætur, sem þar þurfa að koma til framkvæmda eins fljótt og hægt er að koma þeim við, verða að sjálfsögðu að ná til Snæfellsness ekki síður en annarra staða, sem nú eru afskiptir að því er orku snertir.