12.12.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

1. mál, fjárlög 1974

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það nálgast nú miðnætti, og ég skal reyna að stytta svo mál mitt, að þm. ofbjóði ekki. En sannleikurinn er sá, að það væri mikil ástæða til þess að gera hér nokkra úttekt, ekki aðeins á þjóðarbúinu, heldur hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í heild.

Hv. síðasti ræðum., fyrrv. stuðningsmaður ríkisstj., dró fram í fáum orðum hér áðan eftirtektarverðar staðreyndir, sem sönnuðu, að til allrar hamingju er ekki alveg vonlaust um þá upphaflegu stjórnarliða, að þrátt fyrir þá blekkingarhulu, sem þeir drógu fyrir augu sín í upphafi, er þeir hófu sína eyðslustefnu, sem þeir hafa markvisst fylgt síðan, með þeim geigvænlegu afleiðingum, er við nú stöndum andspænis, kunni e. t. v. áður en langt um líður, fleiri að sjá að sér. Mætti þá helst vænta þess, að það yrði gáfaðasti maður Framsfl., eins og lýst var hér í dag. Ég veit ekki, hvort hann er hér í þingsalnum eða hvort hann er lagstur undir feld, en hann hefði haft gott af að hlýða á orð fyrrv. samherja síns, sem var að ljúka máli sínu hér áðan.

Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni hér í kvöld, að hann fagnaði því, hvað hinar gömlu ræður hans væru vel auglýstar. Ég efast nú um, að hann fagni því. Ég held að ég þekki hann það vel, að hann muni alls ekki fagna því, heldur harma, vegna þess að ég hygg, að innst inni sé hann allt of raunsær maður til að gera sér ekki grein fyrir því, í hvílíka ófæru er stefnt, þótt að hann hins vegar hingað til hafi ekki af einhverjum ástæðum haft þrek til að berja í borðið við samráðherra sína í eyðsluráðuneytunum og segja: Hingað og ekki lengra. Það er ekki nóg, hæstv. rh., að lýsa yfir, að menn hafi trú á land sitt og þjóð. Það efast ég ekki um, eins og hér var áðan sagt, að hæstv. ráðh. hefur.

Það er mikil ábyrgð, sem fjmrh. er falin á hendur að gegna á hverjum tíma, og það veltur á miklu, þó að auðvitað margt annað komi til, hvernig á þeim málum er haldið, sem hæstv. fjmrh. fer með. Satt að segja mundi það hafa glatt mig, ef hæstv. ráðherra hefði verið sjálfum sér samkvæmur og hagað sér í samræmi við þær deilur, sem hann hélt uppi á fjármálastjórn fyrrv. ríkisstj. og fyrrv. fjmrh., kúventi ekki svo gjörsamlega frá öllu því, sem hann áður hefur sagt, eins og reynd ber vitni um.

Þegar ég sá fjárlagafrv. hér í haust, leitaði ég eftir einum kafla í því, sem hefði í rauninni átt að vera feitletraður, og það væru áhyggjur hæstv. rh. yfir því geigvænlega ástandi í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem blasti við þá þegar, er þetta frv. var lagt fram. Það er ekki hægt að afsaka hann með því, að hæstv. rh. hafi þá ekki vitað um það ástand, sem var í þjóðfélaginu, og þann verðbólgueld, sem stöðugt logaði skærar og skærar og er nú kominn á það stig, að það gagna vissulega ekki frómar óskir og góð orð um trú á land og þjóð til þess að slökkva þann eld. Til þess þarf miklu meira, til þess þarf gerbreytt hugarfar hjá þessum hæstv. rh. og ríkisstj. að sjálfsögðu allri. Það var viss manndómur í því hjá fyrrv. vinstri stjórn, þegar forsrh. hennar baðst lausnar, vegna þess að ríkisstj. réð ekki lengur neitt við þann vanda, sem við var að glíma. Og ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni, að það er vitanlega það eina, sem hæstv. núv. ríkisstj. ætti að gera til þess að gera þjóðinni í lok tilveru sinnar eitthvað gagn. Þetta er það mesta gagn, sem hún gæti gert henni. En mér sýnist allt benda til þess, enda þótt ríkisstj. hafi ekki lengur meiri hl. hér á Alþingi til þess að fá afgr. mál í hv. Nd., þá sé ætlun hennar að sitja svo lengi sem sætt er og lifa í samræmi við það hugarfar, sem lýst var hér, er landhelgismálið var hér til afgreiðslu, af einum stjórnarfl., að allt væri þó betra en að víkja úr ráðherrastólnum.

Í fjárlagafrv. er ekki að finna eitt einasta orð um það, að áhyggjur sæki að hæstv. fjmrh. yfir því efnahagsástandi, sem ríkjandi er, og þeim horfum, sem fram undan eru, heldur aðeins lýst því mikla flóði fjármagns, af allverulegri ánægju, sem nú er til ráðstöfunar fyrir ríkissjóðinn, og sem nú verði hægt að moka út á næsta ári. Og þessi mikla sjálfumgleði birtist áfram í nál. hv. meiri hl. fjvn. og í ræðu frsm. n., er hann lýsti hér fjálglega öllum þeim afrekum, sem núv. ríkisstj. hefði unnið og hvað óskaplega mikið hún væri að gera fyrir fólkið í landinu, úti um allar byggðir landsins, að byggja allt upp, sem vanrækt hefði verið, og benti á þær geysilegu fjárveitingar, sem ætlaðar væru til alls konar framfaramála. Það er í samræmi við þá undarlegu ræðu, sem hæstv. fjmrh. flutti við 1. umr. fjárl., sem var í rauninni undir niðri alger varnarræða, því að eins og ég sagði áðan, veit ég, að hæstv. fjmrh. veit betur en hann lætur um eðli vandans, þar sem hann byrjaði á því að búa sig undir ádeilur frá öðrum, sem er nú aldrei sérlega sterkt, og hélt áfram raunar þeim málflutningi hér í kvöld með því að tala um það, hverjir vildu vera á móti þessu og hverjir hinu. Ja, hverjir vildu vera á móti því út af fyrir sig, að það væri hægt að gera enn þá meira í landinu? Eru nokkur mörk fyrir því? Þetta er auðvitað dæmalaus röksemd, ef röksemd skyldi kalla, hjá nokkrum rh. að viðhafa svona orðbragð. Það verður að sjálfsögðu að meta það á hverjum tíma, hvað hægt er að gera, eins og hver einstaklingur verður að gera sér grein fyrir því. Það getur verið ósköp gaman fyrir hvern mann að fá sér alls konar verðmæti og góða hluti. En það er ekki svo gott, ef hann á ekki fyrir því. Slíkar röksemdir eru því alls ekki frambærilegar og í rauninni ósæmilegt að bera þær á borð. Það verður að byrja á því að gera sér grein fyrir því, hvert er ástand efnahagskerfisins í landinu á hverjum tíma, og það minnsta, sem hægt er að gera kröfu til. varðandi fjárlagaafgreiðslu, er, að fjárl. séu ekki örvandi á óheillavænlega þróun efnahagsmála í þjóðfélaginu á hverjum tíma.

Ríkisfjármálin eru einn allra veigamesti þáttur efnahagsþróunarinnar og þess, hvort stefnt er í rétta eða öfuga átt, og hér hefur að öllu leyti verið stefnt í öfuga átt. Það var að hefjast verðbólguþróun, þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Engu að síður byrjaði hún að moka úr öllum sjóðum og eyða öllu fé, sem til var, og síðan hefur þessu dyggilega verið framfylgt. Enda þótt innkomnar tekjur séu nánast í stjarnfræðilegum tölum, hefur tekist að koma öllu í lóg, og enda þótt fjárl. muni nú vafalaust fara í 30 milljarða, þá lítur ekki út fyrir, að það verði nokkur vandi að koma hverri einustu krónu í lóg. Það er ekkert hugsað fyrir því að safna fé á þessum árum, sem hver einasta skynsöm ríkisstj. um víða veröld mundi gera og hefur gert. Á þessum árum hefði samtals átt að leggja fyrir nokkra milljarða kr., í stað þess að eyða hverri krónu og jafnvel afgreiða ríkisbúskapinn með halla, eins og gert hefur verið síðustu ár, eða svo nærri halla, að það tekur því ekki að nefna þær ómerkilegu tölur, sem afgangurinn hjá ríkissjóði hefur verið. Við vitum ekki um málið í ár, það tekst e. t. v. að ná saman endum, en það verður naumast meira en það.

Eilíft tal um það, að þessi hæstv. ríkisstj. vilji gera allt fyrir alla, vilji byggja upp landið og framkvæma stórkostlegar félagslegar umbætur, þetta er góðra gjalda vert. En það skortir skilninginn og forsendurnar fyrir því, að þetta geti komið að gagni. Þessi uppbygging og þessar félagslegu umbætur eru nánast sagt lítils virði eða kannske minna en einskis virði, ef efnahagsástand þjóðarinnar þróast á þann veg, að allt verður þetta að engu. Það eru auðvitað glamuryrði hjá hæstv. ríkisstj. eða fjmrh, og form. fjvn., að tala um, að ríkisstj. hafi haldið uppi einhverri stórkostlegri byggðastefnu og að hún hafi haldið uppi stórkostlegum umbótum í tryggingamálum. Flest af því var búið að lögfesta, áður en hæstv. ríkisstj. tók við völdum. En það, sem hún hefði getað gert gagnlegt, hefði verið að gera þessa fjármuni, sem þarna hefur verið úthlutað, sem vissulega eru miklir, einhvers virði fyrir fólk. Allar þessar hækkanir eru nefnilega fyrst og fremst til að vega upp á móti þeirri óhemjulegu rýrnun peninga, sem orðið hefur í tíð núv. hæstv, ríkisstj. Það er óskaplega fallegt að tala um, að það hafi verið byggður upp togarafloti, sem hefur verið dreift um allt land. En hvernig það dæmi lítur út í dag, þegar allar horfur eru á, að byggðarlag eftir byggðarlag, komist í algjör fjárþrot eða jafnvel gjaldþrot fyrir það, að verðbólgan hefur svo verið aukin af hæstv. ríkisstj. og fyrir hennar tilstilli, að það er ekki hægt að gera þessi skip út? Og nú eru hvarvetna um landið kveinstafir, sem berast, og þeir háværir, um það, hvað eigi að gera við þessi skip, vegna þess að þau ganga ekki einu sinni, þó að þau hafi verið gefin. Þetta eru afrekin til að byggja upp sjávarútveginn. Og það er gaman að lesa upp háar tölur um tryggingabætur og annað þess konar. En þegar fólkið fær jafnvel stöðugt minna fyrir þessa peninga, þá verður að litlu gagni að lesa upp slíkar tölur. Það er svo annað mál, að það liggur í augum uppi, þegar fjárlög hækka, — á 2 árum hafa þau tvöfaldast, og lætur nærri, að þau muni þrefaldast á þremur árum, allar horfur á því, — að þessir peningar hljóta að ganga til einhverra hluta. Og mér finnst það ekki vera neitt stórkostlega vegsamlegt, þó að það sé birtur listi yfir það, að það hafi þó einhverjum hluta þeirra verið varið gagnlega.

Ég skil ekki, hvernig jafngáfaðir menn og hæstv. fjmrh. og form. fjvn. skuli geta borið á borð annan eins þvætting og er að finna í þessu plaggi og halda, að menn fyllist aðdáun og lotningu fyrir það, að þessir peningar hafi þó verið notaðir til einhvers gagns í þjóðfélaginu. Nei, það er sannarlega ekkert til að dást að. Ég held, að flestir hefðu verið gæfusamari yfir því, að þessar tölur hefðu verið lægri og að ástand efnahagsmálanna hefði eftir því verið skárra. Tölur segja nefnilega ekki alltaf, jafnvel ekki hálfan sannleikann. Þær geta stórkostlega blekkt, eins og þær gera í þessu tilfelli.

Það er svo annað mál, sem ég skal skjóta fram hér, en skiptir ekki öllu máli í öllu þessu talnaflóði, að samanburðurinn, sem gerður er af hv. meiri hl. fjvn. við einstakar framkvæmdir, er auðvitað algjörlega skakkur, vegna þess að þeir sleppa fjáröflun, sem áður var í framkvæmdaáætlun utan fjárlaga, en taka núna framkvæmdaáætlunarfé, sem er innan fjárl. í þetta skiptið. Ekki það, að ég telji þetta miklu varða í sambandi við þennan talnamokstur, en ég nefni þetta aðeins til þess að benda á, hvernig þessar tölur eru fundnar út og hversu haldgóðar þær eru.

Vafalaust gleður marga að lesa þetta fallega bréf hæstv. ráðh. í niðurlagi grg. fjvn. um það, að nú sé ákveðið að nota ekki heimild þá um 15% niðurskurð fjárveitinga, sem átti að framkvæma 1973. Ég efast um, að þetta sé nokkuð lofsvert. Ég skal segja það alveg eins og er, að miðað við það ástand, sem er í efnahagsmálum þjóðarinnar, þá á ekki alltaf að tefla á ystu nöf og spara ekki fé. Það getur vel verið, að það sé óvinsælt að segja það, en mér er sama um, hvort það er óvinsælt eða ekki, menn verða að horfast í augu við staðreyndir. Það er ofþensla í opinberum framkvæmdum, og það hefur engin tilraun verið gerð til þess af þeirri stofnun, sem sett var til þess að raða, eins og það var orðað, framkvæmdum eftir þýðingu þeirra og gildi, að hafa nokkra stjórn á þróun efnahagsmála og framkvæmda í þjóðfélaginu. Talsmenn atvinnuveganna hafa látið í ljós áhyggjur sínar æ ofan í æ og með sífellt meiri þunga um það, að höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar sé ekki hægt að starfrækja vegna ofþenslu í framkvæmdum í landinu. Og enda þótt ég ætli ekki að fara að lýsa störfum Framkvæmdastofnunar ríkisins, þá má kannske segja, að það sé skást, að hún geri sem minnst. En þá hefði hún þó á þessu sviði getað gert eitthvað gagn. En það var ekki fyrr en ég leyfði mér það fyrir nokkru, þegar var verið að ræða um það, að öll vandamál þjóðfélagsins stöfuðu af byggingu Seðlabankahúss, að spyrjast fyrir um það hjá þeirri stofnun, hvað væri að segja um heildarfjárfestingar í landinu, fyrst og fremst á vegum hins opinbera, og hvað stofnunin hyggðist gera eða hefði gert til þess að athuga, hverjum af þessum framkvæmdum mætti fresta. Varla gæti vandinn verið svo lítill. að það væri ekki nema spurning um eitt hús, þá væru allir sáluhólpnir. Ef það væri hægt að byggja Seðlabanka, þá gætu allir hætt að hafa áhyggjur, þó að ég væri ekki neinn sérstakur talsmaður þess húss, það er önnur saga. Það var bara of barnalegt og fjarstætt að taka það mál upp út af fyrir sig, til þess að það skipti neinu máli. Þá kom það á daginn, að slíkar upplýsingar voru ekki fyrir hendi, og það var ákveðið að hefjast handa um að safna þeim og því ekki illa tekið, ég skal játa það, af forráðamönnum þeirrar stofnunar. Það gæti nú verið þarft og gott að íhuga, hvort einhverju af þessu hefði mátt fresta. Þess vegna verð ég að segja það, að ég sé ekki, að það sé neitt sérstakt gleðiefni, þetta bréf hæstv. ráðh. til fjvn. Það hefur vafalaust sparað honum og þeim í rn. talsverða vinnu og kannske verið komist hjá því að valda einhverjum óvinsældum, en það er nú það, sem virðist fyrst og fremst vera hugsað um, að allir geti fengið allt, sem þeir biðja um. En það er stefna, sem ég held að geti aldrei leitt til neins góðs.

Þetta er meginatriðið, sem hefði átt að einbeita afgreiðslu fjárlaga að, að láta þau verka í jákvæða átt til að ná þeim árangri, að fjárlögin, ríkisbúskapurinn, gæti að sínu leyti stuðlað að því að vinna gegn þeirri óheillaþróun, sem nú er í efnahagsmálum og er fram undan í ennþá stærri mæli. En þetta hefur með þessu fjárlagafrv. verið algjörlega vanrækt. Hér er ekki einn staf að finna í þá átt, og það eina, sem við fáum að heyra í hæstv. fjmrh., er hér í kvöld það, að nú sé fram undan að vinna að þessum málum og það megi einhvern tíma á næstunni búast við einhverjum till. En fyrst á að afgreiða fjárlagafrv., áður en ráðist er að þeim vanda. Einhvern tíma hefði manni getað dottið í hug, að það hefði verið vitlegt að geyma að afgreiða einn veigamesta þáttinn einmitt í sambandi við baráttu gegn verðbólgu, sem ríkisfjármálin alltaf eru.

Það voru nokkur atriði í ræðu hæstv. ráðherra, sem mig langar til að minnast á. Hann gat þess, — og það hefur verið blóm í hnappagat hæstv. ríkisstj., — að það hafi verið gerð mikil breyting á nefsköttum og það hafi verið yfirtekið frá sveitarfélögunum samkv. því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, að mér skildist, 3.3 milljarðar, sem mætti reikna til þeirra breytinga, sem þá voru gerðar. Þetta er nú ekkert sérstakt til að dást að, í fyrsta lagi held ég, að það sé hæpið mál að hafa farið út á þá braut. Það getur verið gott og blessað að afnema nefskatta í tryggingakerfinu. En ef nú enginn lögregluþjónn fæst til þess að vinna hjá ríkinu, þá fer að verða hæpin pólitík, sem þar var rekin, að létta lögreglukostnaði af sveitarfélögunum. Það sýnist ekki vera svo, að þeir kæri sig mikið um að vera í þjónustu hæstv. fjmrh. og ríkisstj., vilji heldur vera hjá sveitarfélögunum. Og ég veit nú ekki nema það stökk hafi verið tekið af lítilli fyrirhyggju. Mér finnst það þó ekki í samræmi við þann boðskap ríkisstj. í upphafi að auka áhrif sveitarfélaganna. En hvað um það, hún er ekki til að dást að, þessi tala, þegar þess er gætt, að tekjuauki ríkissjóðs til að mæta þessari yfirtöku hefur numið 15–16 milljörðum, þannig að það verður nú lítið úr þessum 3.3 milljörðum.

Hæstv. fjmrh. sagði, sem var alveg rétt, að það, sem þyrfti að leggja til grundvallar mati á því, hvort væri um að ræða skattahækkun eða hækkun álaga, væri, hvað hátt hlutfall það væri af þjóðarframleiðslu. Þetta er vissulega rétt, og það vill nú svo vel til að ég er með hér í höndunum bók, sem er, að því er ég hygg, með því nytsamasta, sem gert hefur verið af hæstv. ríkisstj., þ. e. a. s. það hafa verið gefnar út margar merkar bækur um efnahagsmál af þeim ágætu sérfræðingum, sem að því vinna, en það hafa oftast nær orðið sameiginleg örlög þessara bóka, að það hefur verið ákveðið að loka þær niðri í skúffu og fara ekkert eftir þeim. En þessar bækur eru mjög nytsamar, ef menn vilja kynna sér þær. En þar er m. a. að finna, hvernig skattþunginn hefur breyst. Hæstv. ráðh. taldi nú ekki, að þar væri um veigamikið atriði að ræða, en hann var 1971 31.8% af þjóðarframleiðslu, 1972 er áætlað, að hann verði 33.5%, 1973 er spáin 34.1% og 1974, miðað við það, að Vestmannaeyjaskattarnir verði framlengdir eða söluskatturinn, sem á nú eins og aðrir skattar ekki að hverfa, þá verður hann 35.5%, þannig að hér hefur verið um stöðuga hækkun að ræða. Og á erfiðleikaárunum 1967 og 1968, sem er alveg sérstakt og þessar álögur hafa hæst komist áður, sem var eðlilegt, miðað við það ástand, sem þá var í þjóðfélaginu, þá nam þetta þó ekki nema 32%. Hér hefur því orðið um að ræða stórfelldar auknar skattaálögur miðað við þjóðarframleiðslu, og hefði maður þó haldið, þar sem þjóðarframleiðslan hefur vaxið jafngífurlega og raun ber vitni um, að það hefði átt að vera auðið að komast af með sömu prósenttölu.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram frá öðrum talsmönnum Sjálfstfl., að það er höfuðnauðsyn að setja sér mark um það, að útgjöld ríkissjóðs fari ekki umfram ákveðna prósenttölu af þjóðarframleiðslu. Það þýðir ekki að hafa þann máta lengur á, þegar svona stefnir með ríkisútgjöldin, að slíkt aðhaldsleysi sé ríkjandi, eins og allir hljóta að sjá og þarf ekki að lýsa nánar. Þá verður að setja sér mörk um það, hvað ríkið megi eyða, en ekki fylla bara alltaf í skörðin með nýjum sköttum. Þetta er stefna, sem verður að taka upp, og er í rauninni eðlilegt, að sett sé ákveðin hlutdeild af þjóðartekjum, — ég tala nú ekki um, að það ætti að nægja, þegar jafnstórkostleg aukning þeirra er og hér er reyndin, — og haldið sé við það og Alþingi ráðstafaði útgjöldum innan þeirra marka. Þetta er þekkt meðal sumra þjóða og hefur gefist vel, og ég held, að við höfum gott af því að taka upp þessa starfshætti, þegar svo er komið sem nú horfir og er staðreynd, að fjárl. hækka meira á 3 árum en á 12 árum áður. Til þess þó að gera sér grein fyrir því eftir annarri leið, hvort álögur hafi vaxið eða ekki, þá hef ég hér tekið saman, — og skal taka fram, að þá eru teknar til samræmis allar þær breytingar, sem gerðar hafa verið á gjaldheimtu, — hvernig skattadæmið lítur út, þ. e. a. s. öll álögð gjöld, bæði til ríkis og sveitarfélaga, og eru frádregin hlunnindin, sem ber auðvitað að taka tillit til varðandi það, að nefskattar hafa verið felldir niður. Og þá kemur það fram, að 1971 námu þessi gjöld samtals 5.1 milljarði, 1972 7.5 milljörðum, og má gera ráð fyrir, að 1973 nemi þetta 9.5 milljörðum. Ég þarf ekki að skýra þessar tölur, þær sýna ljóst, hversu stefnir. Og nú er svo komið, sem verður að teljast harla ömurlegt og jafnvel þó broslegt, að eftir skattalagabreytinguna, sem hæstv. fjmrh. beitti sér fyrir, strax eftir að hann tók við völdum og lá svo mikið á, að hún var lögfest, án þess að hægt væri að rannsaka málið til hlítar, sem leiddi til þeirrar einstæðu niðurstöðu, að það þurfti að setja brbl. til að leiðrétta verstu annmarkana, þegar það kom í ljós, að aðalþungi skattanna hafði verið lagður á gamalt fólk, — þá er niðurstaðan nú eftir þennan stutta tíma, reynslan af því kerfi sú, að allir heimta lækkun beinna skatta. Ég held, að það hefði nú verið praktískara fyrir hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. að láta gömlu skattana halda sér og reikna bara nógu lága vísitölu, og þá gat hann kennt fyrrv. stjórn um. En nú hefur hæstv. ríkisstj. orðið það á í óðagotinu að setja ný skattalög, þannig að nú verður ekki fyrrv. stjórn kennt um.

Hvað segir nú skattamálanefndin um þessi nýju skattalög? Hún segir í því áliti, sem hún hefur látið frá sér fara, að það verði að telja, að nú séu beinir skattar orðnir óeðlilega háir og beri brýna nauðsyn til að breyta skattheimtunni. Það er að finna þennan dóm í þessari ágætu skýrslu frá fjmrh., sem samin er af mætum og góðum mönnum, endurskoðunarnefnd skattalaga, sem að vísu varð til í tíð fyrrv. ríkisstj., en hafði sama verkefni og hæstv. fjmrh. fól þeirri n. að halda áfram, sem hann skipaði, en það þurfti bara af einhverjum ástæðum að breyta um menn í n., látum það vera. Það vill svo einkennilega til, að þessir menn hafa komist að sömu niðurstöðu og þeir, sem störfuðu fyrir fyrrv. ríkisstj., og það hefur orðið svo náttúrlega á fleiri sviðum en þessu, að sérfræðingar núv. hæstv. ríkisstj. hafa komist að sömu niðurstöðu og komist var að í fyrrv. ríkisstj., af því að sú ríkisstj. komst að réttri niðurstöðu. Og sérfræðingarnir breyta ekki sínum skoðunum, þó að skipti um ríkisstj. Hæstv. núv. ríkisstj. ætlaði að lifa á brjóstvitinu, en komst að raun um, að það hrökk skammt.

Ég vil aðeins leiðrétta eitt smáatriði hjá hæstv. ráðh., ekki af því að það skipti máli, heldur af því að ég veit, að hann vill hafa það, sem sannara reynist. Hann sagði, að ákvörðunin um það að hætta að draga frá viðhald húsa, heldur reikna ákveðna prósentu, væri frá tíð fyrrv. ríkisstj. Það er rangt. (Gripið fram í.) Já, það skiptir ekki máli, hver lögin eru, reglugerðin er sett af hæstv. núv. fjmrh. (Fjmrh.: Það var ákveðið af mér og rn.) Já, það gleður mig, enda vissi ég, að ráðh. vildi hafa það, sem réttara er í þessu. Þetta var ekki framkvæmt fyrr en í tíð hæstv. núv. ráðh., og mér skilst, að hann sé eftir eitt ár búinn að sjá, að þetta hafi verið skökk stefna, og það ber líka að viðurkenna, að hann hefur séð það svo snemma.

Nú skal ég ekki, eins og ég sagði áðan, þreyta menn á að fara út í þær tölur, sem hæstv. ráðh. minntist á varðandi gjaldeyrisvarasjóð og gjaldeyriseign, því að það væri of langt mál. En sannleikurinn er sá, að það hefur komið greinilega fram í áliti sérfræðinga ríkisstj. og kom fram í skýrslu hagrannsóknardeildarinnar á s. l. ári, að hún teldi að ekki mætti lengra ganga í erlendum lántökum, þannig að mat hennar var nokkuð annað en hæstv. ráðh. Erlendar fastar lántökur hafa aukist í tíð núv. hæstv. ríkisstj. um 7.5 milljarða. Þetta segir hæstv. ráðh., og það er eitt dæmið um það, að hann telur þetta allt saman harla gott og geri ekkert til, vegna þess að gjaldeyrisvarasjóður hafi hækkað úr rúmum 4 milljörðum í rúma 7 milljarða og þannig sé í rauninni hægt að verulegu leyti að ná saman endum og með birgðaaukningu. Þetta er auðvitað alger misskilningur. Það t.d. liggur alveg ljóst fyrir, að það er minni kaupmáttur gjaldeyrisvarasjóðsins í dag heldur en hann var 1971, þannig að þarna sýnir sig enn einu sinni, að tölur eru alger blekking eða geta verið það. Það er verðlagsþróunin, sem alltaf gildir, og þessi gjaldeyrisvarasjóður nú, hann nægir — ég vil ekki fullyrða of mikið — varla til þess að kaupa það andvirði erlendis frá, sem var hægt að kaupa fyrir gjaldeyrisvarasjóðinn, eins og hann var í byrjun ágúst 1971. Þetta er ákaflega veigamikil staðreynd.

Viðskiptahallinn við útlönd hefur verið mikill allt frá árinu 1970, en 1970 og 1969 var ekki viðskiptahalli, heldur var þá töluverður afgangur. En nú hefur reyndin orðið sú, að þessi síðustu ár hefur orðið geysilegur viðskiptahalli við útlönd, og dæmi um þetta eða sannanir er að finna í síðustu bók, sem hagrannsóknadeildin hefur gefið út, og þar kemur í ljós, að þessi viðskiptahalli nemur stórkostlegum fjárhæðum á hverju ári. Og það er engin skýring á þeim viðskiptahalla, sem hæstv. ráðh. sagði, að það hefði verið meira um skipakaup á þessu ári heldur en áður hefði verið, vegna þess að það er algerlega rangt, og t. d. skipakaupin hafa ekki haft nokkur áhrif í sambandi við hinar erlendu lántökur.

Þegar talað er um þessi kaup, þá verður að sjálfsögðu að taka bæði skip og flugvélar, og þau kaup hafa orðið minni í ár, árið 1973, heldur en hefur orðið áður, þannig að einnig þessi fullyrðing hæstv. ráðh. fær ekki staðist. Og það vill svo til, að ég hef einnig tölur Seðlabankans um þetta atriði, og þær sýna glöggt, að hér er ekki um stórkostlegan mun að ræða. Fiskiskipalánin urðu 854 millj. 1972, eru áætluð 955 millj. 1973, voru 716 millj. 1970 og 556 millj. 1971. Önnur skipalán eru mjög svipuð, en ef við tökum flugvélalánin, sem eru alltaf tekin með í þessum tölum, þegar þær eru dregnar út úr greiðslujöfnuðinum, þá kemur á daginn, að flugvélakaupin hafa numið rúmum 2 milljörðum árið 1971, en eru ekki nema 1.3 milljarðar áætlað árið 1973, þannig að ekkert af þessu fær skýrt þá skuldasöfnun erlendis eða viðskiptahalla, sem hæstv. ráðh. vildi gera lítið úr. Ég gat áðan um, að þessi viðskiptahalli væri mikill, og aðeins til að nefna þar tölur, þá var hann óhagstæður árið 1971 um 3.8 milljarða, 1972 um 1.8 milljarða, og 1973 er viðskiptahallinn áætlaður 3.6 milljarðar. Þetta er nú búskapurinn.

Maður gæti haldið, eins og hæstv. ráðh. sagði, að þetta hefði verið voðalegt ástand, og hann var að tala um það, hvað Vestmannaeyjagosið hefði haft óheillavænlega þróun á efnahagslíf þjóðarinnar á þessu ári. Hér er algerlega talað út í hött og furðulegt, að maður, sem þekkir jafnvel inn á þetta og hæstv. ráðh., skuli nota svona rök. Maður hefur heyrt þessu haldið fram áður. En verð útfluttra vara á þessu ári er áætlað að muni hækka yfir 40% frá árinu áður, yfir 40%, sem aldrei hefur gerst áður í sögu þjóðarinnar, að því er ég best veit, þannig að þegar talað er um, að Vestmannaeyjagosið hafi skapað einhverja erfiðleika og skapað óhagstæða verðmyndun og viðskiptastöðu okkar út á við, þá er þetta alger misskilningur, og ég er forviða á, að jafngáfaður maður og hæstv. ráðh. skuli halda þessu fram. En þegar verið er að tala um gjaldeyrisvarasjóðinn, þá eru nú hvorki meira né minna en 2 milljarðar á þessu ári, sem okkur hafa verið gefnar, sem hefur komið til góða gjaldeyrismegin hjá okkur. Í ofanálag á þetta má geta þess, að nýlega var verið að afgreiða hér mál, þar sem boðið var af Alþjóðabankanum eitthvert hagstæðasta lán, sem við höfum nokkurn tíma tekið, 700 millj. kr., til umhóta hér innanlands. Ekki skal ég gera lítið úr því tjóni, sem Vestmannaeyjagosið hefur valdið, en það hefur ekki valdið þjóðarbúinu miklu tjóni. Það hefur valdið stórkostlegum erfiðleikum og vandamálum fyrir fólkið, sem bjó í Vestmannaeyjum, það er allt önnur saga. En í öllum hamingju bænum, ég vona, að hæstv. ríkisstj. hætti að bera þennan skjöld fyrir sig, Vestmanneyingana, það er ekki rétt og ekki sanngjarnt.

Hæstv. ráðh. sagði, að þegar menn væru að tala um verðbólgu, þá væri það ekki mikið ríkisstj. að kenna, það væri allt saman eða meginhlutinn að kenna erlendum verðhækkunum. Hvað skyldi nú vera hæft í þessu? Í gulu bókinni, sem að vísu er gefin út í júlímánuði, enda ber hún þess merki, þá er rætt um það, að verðhækkanir eða hækkun á vísitölu vöru og þjónustu á árinu 1973, þ. e. a. s. frá 1. nóv. 1972 til 1. nóv. 1973, muni verða 22%. Þessi tala er ekki 22%, hún er 30.2% nú. Svona hefur verðbólgan vaxið stórkostlega miklu hraðar en gert var ráð fyrir. Það er alveg rétt, að hér koma auðvitað til greina verðhækkanir. Ég skal játa, að ég hef það ekki sundurliðað, vegna þess að hagrannsóknadeildin getur ekki gert það enn. Hún áætlaði, þegar hún spáði 22% verðbólguaukningu, að bein breyting innflutningsverðs í erlendri mynt mundi verða 4% af þessu, það er allt og sumt. Segjum, eð það sé 10%. Ég skal ekki segja, hvort hæstv. ráðh. segir 12%. Ég vil ekki vefengja hann, en það verða þá 18.2%, sem er þá að þakka hæstv. ríkisstj. eða kenna. Það eru aðeins tvö dæmi þess, að verðbólga hafi vaxið meira á Íslandi frá því um 1940. Ég hef ekki tölur lengra aftur í tímann, enda er það nú ærinn tími að gera samanburð við, aðeins tvö tilfelli, og þau voru algerlega sérstæð, bæði þessi tilfelli, og eiga alls ekki við í sambandi við það, sem nú er að gerast, 30.2% verðbólguaukningu, skuldir erlendis komnar yfir 20 milljarða, fjárl. komin í 30 milljarða, allir samningar lausir hjá verkalýðssamtökum og opinberum starfsmönnum og stórkostleg óvissa fram undan varðandi erlend viðskipti, sem að vísu eru okkur óviðráðanleg. Allt er þetta harla gott að mati hæstv. ríkisstj., og ekki örlar á till. í þá átt að mæta þessum vanda. Og það var út af fyrir sig alls ekki ógáfuleg röksemd og hugmynd hjá hv. þm. Bjarna Guðnasyni, að það væri kannske orðið tímabært í slíku vandræðaástandi að gera sér grein fyrir því að reyna að bjarga skipinu, áður en það strandaði svo algerlega, að það væri ekki hægt að ná því út aftur, ef menn væru komnir fram af gjárbakkanum, því að það virðist svo sem hæstv. ríkisstj. ætli ekki, ef hún er sjálfráð, að nema staðar á gjárbakkanum, heldur velta ofan í gjána, sem fyrrv. hæstv. forsrh. 1958 forðaði þó þjóðinni frá, þó að það gerði nú kannske minnst til með ríkisstj.

En þó að allt þetta blasi við augum okkar allra og þarf ekki þm. til, þetta sér hver einasti þjóðfélagsborgari, og hvarvetna, þar sem maður mætir fólki, þá er það ekki að dást að því, að það fái hækkað kaup um 7% á þriggja mánaða fresti, fjarri fer því. Það er þrungið af kvíða, og eftir alla þessa miklu uppbyggingu, sem hæstv. ríkisstj. stærir sig af, þá er núna meginhluti allra þeirra, sem fást við rekstur í þessu landi, sem hefur áhyggjur af því, hvernig í ósköpunum á að forðast stöðvun atvinnulífsins vegna þeirrar ofsaverðbólgu, — ég kann ekkert nafn yfir þetta, og ég segi eins og aðrir, að það er gott og snjallt hjá Tímanum að auglýsa eftir orði yfir þetta, ég veit ekki, hve auðvelt verður að finna það, sem nú riður húsum hér. Þetta er nú öll uppbygging hæstv. ríkisstj. Það er óskaplega gaman að kaupa togara, og það er gaman að geta sagt, að iðnfyrirtæki hafi eflst. Það er gaman að geta haft þá stefnu að þrefalda útflutning iðnaðarvara, eins og hæstv. iðnrh. hefur lýst, en fylgjast svo ekki betur með en það, að menn eru ginntir út í framkvæmdir, — ég segi ginntir, — með því að leggja eignir sínar í framleiðslutæki, kannske í stærri stíl en nokkru sinni áður, til þess svo að setja þessi framleiðslutæki á hausinn. Ekki verður betur séð en svo verði. Hæstv. ríkisstj. hlustar ekki á þær raddir, sem hvarvetna berast af landinu um, að það sé sennilega millj. kr. halli á mánuði jafnvel af skuttogurumum nýju, enda þótt ekkert sé reiknað í fyrningar og vexti. Nei, nei, það er bara beðið, það á að bíða eftir skýrslum og bíða eftir rannsóknum, og guð má vita, hverju á að bíða eftir.

Nei, þetta er vissulega ekki ástand til þess að stæra sig af. Það er eins og hér sé verið að leika blindingjaleik. Og þó að hann geti verið skemmtilegur, þá getur hann haft alvarlegar afleiðingar, ekki síst ef þeir menn, sem stjórna eiga málum, ganga alltaf með bundið fyrir augum. Hún hefur villt mönnum sýn um hið raunverulega ástand efnahagsmála okkar, þessi geysilega hækkun, sem hefur orðið á okkar útflutningsframleiðslu. Og ríkisstj. hefur dregið algerlega rangar ályktanir, þ. e. a. s. hún hefur engar ályktanir dregið af því að nota þessa einstæðu gjöf, sem þjóðinni hefur hlotnast með þessari stórfenglegu fjáröflun í þjóðarbúið, á skynsamlegan hátt og til þess að undirbyggja framtíðina. Þetta er alvarlegasta fordæmingin á hæstv. núv. ríkisstj. og raunar alveg nægileg til þess að henni beri skylda til þess að biðjast lausnar, að afgreiða nú, ef það er hugmyndin, rétt fyrir jólin 30 milljarða fjárlög án þess að sjá fyrir tekjuöflun. Það kann að vera, að hæstv. ráðh. hafi uppi í erminni einhver úrræði, sem eiga þá fylgi hér á Alþ. Ég veit það ekki, við sjáum það við 3. umr. fjárl., ef ætlunin er að knýja hana fram fyrir jól. En við slíkt er ekki hægt að una, og ríkisstj. getur ekki leyft sér að bjóða þjóðinni upp á þau vinnubrögð, ef henni skyldi detta það í hug. Ég segi þetta nú við 2. umr., ef það kynni að geta valdið hæstv. fjmrh. nokkrum hugleiðingum um það, hversu alvarleg áhrif það kynni að hafa að reka nú í gegn með handjárnuðu stjórnarliði fjárlög með milljarða halla og alla enda lausa á öllum sviðum. Ég leyfi mér að vara stórkostlega við því að knýja fjárl. fram með þessum hætti og tel skylt að láta það liggja hér skjalfast fyrir, að sú aðvörun hafi komið fram. Hæstv. ráðh. ræður að sjálfsögðu hvað hann gerir og ríkisstj., og hv. þm. stjórnarliðsins ráða því, hvort þeir allir nema sá eini, sem hefur nú skilið við hópinn, ætla að láta draga sig út í slíkt fen, en sökin hvílir á þeim. Og ég er ákaflega hræddur um, að það fari þá svo, að þó að vissulega þjóðin vilji eins og hæstv. fjmrh. trúa á land sitt og getu sjálfrar sín til að bjarga sér, og það hefur henni alltaf tekist og það með góðum hætti, ef bærileg stjórn hefur verið í landinu, þá verði það þjóðin, sem ekki trúi á hæstv. ríkisstj. marga daga eða vikur enn, að svo miklu leyti sem einhverjir kunna enn að trúa á hana. Þeir eru sennilega til, en þeim fer fækkandi dag frá degi.

Þar sem ég vil vonast til og reyndar veit, að er sannmæli, að hæstv. fjmrh. vill trúa á land sitt og þjóð og vill henni vel, þá skal það verða mitt síðasta orð að endurnýja þá hvatningu til hans og áskorun, að hann hugsi nú sitt mál og ani ekki út í þá ófæru, sem hér blasir við, ef hann ætlar að knýja fram fjárlög nú fyrir jól, botnlaus fjárlög, í stað þess að snúast við vandanum, annaðhvort hefjist handa um samræmdar ráðstafanir, sem hann og ríkisstj. beitir sér fyrir, — látum það gott heita, ef ríkisstj, getur gert það, — eða þá að segja hreinskilningslega og skjóta þeim orðum til hæstv. forsrh., sem að sjálfsögðu hefur þar síðasta orðið, að hann ætti að taka fyrirrennara sinn úr fyrrv. vinstri stjórn sér til fyrirmyndar og segja af sér, áður en það er orðið um seinan, vegna þess að áhrif þess að gera ekki neitt, eins og sakir standa nú, loka augum, gleðjast aðeins yfir því að geta fengið milljarðinn hér og milljarðinn þar og halda uppi nýjum hugleiðingum um þetta prósent í söluskatti þarna og hitt prósentið þarna, það bjargar ekki þjóðinni, heldur leiðir til ófarnaðar, og þá munu menn minnast þessarar vinstri stjórnar þó með enn þá óskemmtilegra hætti en þjóðin minnist fyrri vinstri stjórnarinnar. Þökk sé forsrh. þeirrar stjórnar, sem baðst lausnar, þegar hann sá, að hann gat ekki ráðið við vandann.