13.12.1973
Efri deild: 1. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

69. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir og sjútvn. þessarar hv. d. hefur fjallað um, er samið af sérstakri n., sem sjútvrn. skipaði á s. l. sumri. Þar sem núgildandi lög um löndun á loðnu falla úr gildi nú um áramótin, þótti þurfa að semja ný lög, ef áfram átti að halda svipuðu fyrirkomulagi í þessu efni og gilti á síðustu loðnuvertíð. Sú reynsla, sem þá fékkst, bendir eindregið til þess, að svipað fyrirkomulag eigi fyllsta rétt á sér. Það fyrirkomulag gaf þá raun, að veiðiflotinn nýttist mun betur en ella hefði orðið, og bæði sjómenn og útgerðarmenn hafa verið í raun og veru ánægðir, þegar á heildina er litið. Sama mætti segja um verksmiðjueigendur, sem vafalaust hafa notið bættrar afkomu vegna þess skipulags, sem lögum samkv. var á haft. Þetta skipulag, sem á var haft í fyrra, byggðist fyrst og fremst á samstarfi þeirra aðila, sem áttu mestan hlut að þessu máli, þeirra, sem veiða loðnu og selja hana til bræðslu, og hinna, sem kaupa hana.

Við endurskoðun núgildandi laga hefur n., sem samdi þetta frv., einkum stuðst við þá reynslu, sem fékkst á síðustu loðnuvertíð. Núgildandi lög voru aðeins sett til eins árs, og var alltaf gert ráð fyrir því, að endurskoða þyrfti þau, ef þetta fyrirkomulag yrði haft áfram, enda komu í ljós ýmsir annmarkar, sem leitast hefur verið við að ráða bót á við samningu þessa frv.

Efni þessa frv. er hv. þm. vafalaust öllum kunnugt, en meginefni þess er bað, að þriggja manna nefnd, loðnunefnd, skal hafa með höndum skipulagningu og tilhögun á löndun á loðnu til bræðslu og sú þriggja manna n., — og það er nýmæli í þessum l., — skal hafa vald til þess að stöðva löndun hjá einstökum verksmiðjum, enda þótt þróarrými sé fyrir hendi. Það kom fram, þegar frv, var lagt hér fram, bæði hjá hæstv. sjútvrh. og hv. 3. þm. Reykn., að þetta ákvæði gæti verið nokkurt álitamál. Að vísu kom sá vafi einnig fram í sjútvn., en nm. urðu þó ásáttir um, að loðnunefndin yrði að hafa ákvörðunarvald í þessu efni, og skipstjórar höfðu eindregið óskað eftir því, að slíkt vald væri fyrir hendi hjá n., þannig að það væri heimilt að stöðva löndun í verksmiðjum á ákveðnum svæðum í stuttan tíma, bæði til þess að koma fleiri verksmiðjum fyrr í gagnið og eins til þess að fyrirbyggja það, að löndunaröngþveiti skapaðist síðar.

Þá eru í 2. gr. frv. skýrari ákvæði en voru í eldri lögum um tilkynningarskyldu skipstjóra. Var talið, að fyrri ákvæði væru ekki nógu af dráttarlaus um þetta efni, og skapaði það nokkurn vanda á síðustu loðnuvertið. Hér er að nokkru bætt úr því með skýrari ákvæðum. Þá eru og sett í þetta frv. ítarlegri sektarákvæði, sbr. 5. gr. frv., og fer ég ekki nánar út í það.

Við 1. umr. þessa máls var því beint til sjútvn., hvort ekki væri mögulegt að auka nýtingu loðnuflotans enn frekar en gert væri ráð fyrir með þessu frv., með því að greiða fyrir loðnuflutningum með bifreiðum, þegar loðnan væri komin það langt vestur með landi, að landað yrði á höfnum hér á Suðvesturlandi, þ. e. í Þorlákshöfn og Grindavík, svo að nokkuð sé nefnt. Sjútvn. taldi útilokað að setja ákvæði sem slíkt í lög, en til greina gat komið að hafa um það heimildarákvæði, en n. taldi, að í 3. gr. fælist nógu skýr heimild í raun og veru til loðnunefndar, þannig, að það ætti að vera mögulegt að taka tillit til þess atriðis, sem kom fram við 1. umr. um styrki til flutninga á landi, svo að n. taldi ekki ástæðu til þess að vera að koma með bráðabirgðaákvæði um þetta.

Það er þó rétt að taka fram, að það eru sérstaklega tvö atriði, sem komu til greina, að rétt þætti að styrkja flutninga á landi, ef landað væri loðnu í Þorlákshöfn eða Grindavík. Það er í fyrsta lagi öryggismál fyrir sjómennina, sem þá losnuðu við langa siglingu í misjöfnum veðrum kannske á vetrarvertíð fyrir Reykjanes — og í öðru lagi, að hægt væri að létta á skipunum í höfnum, þannig að hægt væri að taka hluta af farminum í land og koma honum fyrir í frystingu, þannig að nýtingin yrði meiri og betra verð fengist fyrir aflann. En sjútvn. taldi samt ekki ástæðu til þess að setja þetta í frv. og kaus heldur að afgreiða það óbreytt, eins og hér liggur fyrir.

Þeir eru nokkurt viðkvæmnismál, þessir styrkir, þar sem loðnuflutningasjóður er byggður upp þannig, að tiltekið framlag er lagt í sjóðinn, bæði frá skipum og sjómönnum annars vegar og hins vegar af kaupendum loðnunnar, og gert er ráð fyrir því, að þetta fé renni aftur til þeirra aðila í formi aukinna flutningastyrkja. Ákvörðun um þetta efni, hvort sem farið verður út í það að styrkja landflutningana eða ekki, verður að sjálfsögðu að takast í fullri samvinnu við þá aðila, sem þetta snertir mest, því að hér er um mikið hagsmunamál að ræða. — Þetta atriði var sem sagt rætt, og það var rætt bæði við formann n., Gylfa Þórðarson, og einnig var rætt um þetta við fulltrúa frá Farmanna- og fiskimannasambandinu. Þeir voru inni á þessu sjónarmiði, að rétt gæti verið að styrkja í vissum tilvikum flutninga á landi, en það yrði þá að vera undir styrkri yfirstjórn loðnunefndar. Kemur það heim við það, sem sjútvn. taldi æskilegra. Sjútvn. kaus því að breyta ekki þessu frv. og leggur til. að það verði samþ. óbreytt, eins og það hér liggur fyrir.