18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

392. mál, tafir á lagningu rafmagns á sveitabæi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er augljóst bæði af orðum hv. fyrirspyrjanda og svörum hæstv. ráðh., að tafir hafa orðið á rafvæðingu sveitabýla á þessu ári, og það er viðar en á Norðausturlandi. Á Skarðsströnd í Dalasýslu bíða enn bæir eftir að fá tengingu við rafmagn, og svo mun víðar vera. Og enn veit ég um bæi, sem hafa gleymst, þannig að rafmagn hefur ekki verið lagt þangað eins og til stóð á þessu ári. Það er ekki hægt að hafa mörg orð um þetta. Þarna hafa orðið óæskilegar tafir. Það er vitað mál að þetta er viðkvæmt fyrir fólkið, sem er búið að fá fyrirheit um rafmagn á ákveðnum tíma. Það vonast eftir að fá rafmagn fyrir jólin. Svo verður ekkert úr því. Um það þýðir ekki að hafa mörg orð, aðeins skora á hæstv. ráðh. og Rafmagnsveitur ríkisins að láta vinna þessi verk hið allra fyrsta.