18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

397. mál, Félagsmálasáttmáli Evrópu

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti. Fsp. sú, sem ég hef hér leyft mér að bera fram, fjallar um Félagsmálasáttmála Evrópu, en Félagsmálasáttmálinn er einn af þýðingarmestu sáttmálum Evrópuráðsins. Að mikilvægi er Félagsmálasáttmálinn talinn jafngilda Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins. Þar sem Mannréttindasáttmáli Evrópuráðsins fjallar um Mannréttindanefndina og Mannréttindadómstólinn, skilgreinir Félagsmálasáttmálinn félagsleg réttindi einstaklingsins, og með honum er í fyrsta sinn í samvinnu Evrópuríkja leitast við að framfylgja þessum réttindum undir alþjóðlegu eftirliti. Sem dæmi um félagsleg réttindi, sem aðildarríki sáttmálans skuldbinda sig til að halda í heiðri, má nefna rétt til vinnu, rétt til verkfalla, rétt til félagslegs öryggis og rétt fjölskyldunnar til félagslegrar og efnahagslegrar verndar.

Flest Evrópuráðsríkin hafa nú undirritað Félagsmálasáttmálann, en Ísland er enn ekki í hópi þessara ríkja.

Haustið 1971 var þess minnst á Ráðgjafarþingi Evrópuráðsins í Strasbourg, að 10 ár voru liðin, frá því að Félagsmálasáttmáli Evrópu tók gildi. Í framhaldi af þessu gerði ég fsp. til hæstv. utanrrh. um það, hvort ríkisstj. ætlaði að vinna að því, að Ísland gerðist aðili að Félagsmálasáttmála Evrópu, og ef svo væri, hvenær stefnt væri að því að undirrita og fullgilda sáttmálann. Hæstv. utanrrh. svaraði 2. maí 1972 og sagðist hafa beðið félmrh. að láta í té umsögn um sáttmálann og á næstunni mundi hann taka sáttmálann til athugunar með undirritun og staðfestingu fyrir augum.

Síðan þetta var sagt, í maí 1972, hygg ég, að ekkert hafi gerst í þessu máli. Mér þótti því rétt, herra forseti, að bera fram þá fsp. til hæstv. utanrrh., sem greinir á þskj. 193, en fsp. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað dvelur af Íslands hálfu undirritun og staðfestingu Félagsmálasáttmála Evrópu?“