18.12.1973
Efri deild: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 1. þm. Vesturl. leyft mér að flytja brtt. á þskj. 290.

Í fyrsta lagi er brtt. við 2. gr. frv., að liðurinn F. 2 falli niður, en til vara, að í stað 6 sjómílur komi 9 sjómílur.

Í öðru lagi er lagt til, að liðurinn F.4 verði F.3 og orðist svo, með leyfi hv., forseta:

„Skipum, 105 brúttórúmlestir og minni, er heimilt að veiða með botnvörpu og flotvörpu á tímabilinu frá 1. júní til 31. des. utan línu, sem dregin er í 4 sjómílna fjarlægð frá fjörumarki meginlandsins frá línu réttvísandi vestur frá Öndverðarnesvita að 24°00’ v.lg. Að norðan afmarkast svæði þetta af línu, sem dregin er í 4 sjómílna fjarlægð frá fjörumarki meginlandsins frá línu réttvísandi vestur frá Bjargtöngum (grunnlínupunktur 26) og að 24° 00' v.lg. Að austan takmarkast svæðið af 24° 00' v.lg.

Í þriðja lagi: „Við bætist nýr liður (verður F. 4), svo hljóðandi:

„Ráðherra er heimilt að veita frekari togveiðiheimildir en greindar eru í lögum þessum í takmarkaðan tíma og á tilgreindum veiðisvæðum vegna þeirrar sérstöðu, sem er í verstöðvum við Breiðafjörð, að fiskibátar eru flestir undir 105 tonnum að stærð og hafa byggt veiðar á grunnmiðum kringum Snæfellsnes, enda komi til meðmæli Hafrannsóknastofnunarinnar.“

Ég vil segja í sambandi við þennan síðasta lið þessrara brtt., að hann er borinn fram sérstaklega vegna beiðni þeirra Breiðfirðinga — og aðrar till. reyndar, sem eru á þessu þskj. Það er svo, eins og kom fram hjá frsm. sjútvn. við 2. umr. málsins, að þegar sú n. sem hafði haft þetta mál til meðferðar, fór víða um land til þess að kynna sér afstöðu heimamanna og reyna að samræma hana við frv., þá var um meiningarmun að ræða í sjávarþorpunum á Breiðafirði. Þar voru mismunandi sjónarmið, sérstaklega í sambandi við togveiðar. Samt sem áður náðist samstaða milli allra þeirra fjögurra útgerðarstaða, sem eru við Breiðafjörð: Stykkishólms, Grundafjarðar, Ólafsvíkur og Hellissands. Og það er á þeim forsendum, að það er eindregin beiðni þeirra, að við flytjum þessa till. hér við 3. umr. og freistum þess, hvort þd. vill ekki fallast á þeirra sjónarmið í þessum efnum, þar sem það liggur fyrir, að þeir hafa sameinast um þessi málalok.

Það er nú svo um landhelgismál, að þetta eru viðkvæm mál, hvar sem er á landinu, og því hafa um. sjálfsagt komist að, þegar þeir voru að ferðast um landið og kynna sér sjónarmið á hinum ýmsu stöðum, að ekki var vandalaust að ná samstöðu um hin einstöku atriði varðandi undanþágur og takmörkun, sem um er að ræða.

Ég tel sjálfsagt að koma þessu hér á framfæri. Það liggur fyrir, að þarna hafa þau fjögur útgerðarpláss, sem eiga mestra hagsmuna að gæta á þessu umrædda svæði, sameinast og óska eftir, að sú breyting verði gerð á frv., sem ég hef nú greint frá.