18.12.1973
Efri deild: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

152. mál, tollskrá o.fl.

Frsm, meiri hl. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Ég ætla síst af öllu að fara að tefja þessar umr., en ég mátti til með að þakka fyrir þær hamingjuóskir, sem mér bárust af hálfu hv. þm. Magnúsar Jónssonar. Ég vil aðeins segja það í þessu sambandi, að það er mesti misskilningur, að um einhver ímynduð sinnaskipti sé að ræða hvað snertir inngöngu Íslands í Fríverslunarbandalag Evrópu. Það er alveg rétt, sem hér var rifjað upp, að Alþb. var andvígt aðild Íslands að Fríverslunarbandalaginu, og við gerðum ýmsar aths. og komum fram með margvíslega gagnrýni á þá stefnu, sem þá var mótuð. Við töldum, að ekki væri tímabært að stíga þetta skref, og við óttuðumst m. a. afkomu íslensks iðnaðar, einkum þess hluta hans, sem framleiðir fyrir innlendan markað. Við óttuðumst líka, að með þessu væri verið hugsanlega að greiða fyrir því, að erlent auðmagn ætti auðveldari leið inn í íslenskt atvinnulíf, og það stendur enn. En aðalatriðið hvað snertir þátttöku erlendra aðila er að sjálfsögðu það, hver með völdin fer, og það er nú svo, að núv. ríkisstj. hefur markað á því sviði algerlega nýja stefnu. Hitt er alveg ljóst, að aðildina að EFTA má hugsanlega misnota af öðrum ríkisstjórnum síðar. Þetta sögðum við og stöndum enn við. Við greiddum atkv. gegn aðildinni, og eins og ég segi, við stöndum við það hvar og hvenær sem er. En nú er Ísland orðið aðill að Fríverslunarbandalaginu og það er bundið af samningi um ákveðnar tollalækkanir. Þessar tollalækkanir eru þegar hafnar, og það liggur í augum uppi, að við Alþb.- menn teljum sjálfsagt og eðlilegt, að staðið sé við gerða samninga við erlendar þjóðir og það sé gert í þessu tilviki. Það leiðir svo nokkuð af sjálfu sér, að úr því að tollar á erlendum iðnaðarvörum lækka, er algerlega óhjákvæmilegt að lækka tolla á háefni til iðnaðarins. Meira þarf ég ekki að segja um þetta atriði.

Hvað hitt atriðið snertir, sem við erum hér raunverulega að deila um, þá fór það nú svo, eins og ég óttaðist, að hv. þm. lýsti yfir fylgi við frv. og sagðist reiðubúinn til þess að lækka tolla um 600 millj., en hann var algerlega ófáanlegur til að standa að nokkurri tekjuöflun í staðinn. Hann sagðist frábiðja sér að þurfa að bera ábyrgð á nokkurri tekjuöflun. Ég verð nú að segja, að ef þetta heitir ekki ábyrgðarleysi, hvað felst þá raunverulega í því orði? Ég vil undirstrika það, að í raun og veru er ekki endilega verið að gera kröfu til þessa hv. þm. um, að hann styðji söluskatt sem tekjuöflunarleið, heldur væri lágmarkið það, að hann kæmi fram með einhverjar aðrar hugmyndir um tekjuöflun. En afstaða hans og samflokksmanna hans er sú að vera með tekjulækkuninni án þess að benda á nokkra aðra leið í staðinn. Hann kemur með óljósar yfirlýsingar um, að það þurfi að sjá allt tekjuöflunardæmi ríkissjóðs samtímis og við verðum að átta okkur á því, hvernig þetta kemur út í heild sinni. Ég sé ekki, að menn komist undan á flótta með rökum af þessu tagi. Það segir sig sjálft, að þegar ríkissjóður missir tekjur, þá þarf annað að koma í staðinn. Þetta er það dæmi, sem frammi fyrir okkur stendur, og annað kemur þar af leiðandi ekki þessu máli við.

Varðandi það, að þarna er tekið eitt söluskattsstig sérstaklega fyrir, þá er það að vísu rétt, að söluskattslögin þarf að taka til endurskoðunar í heild sinni, og ég þykist viss um, að það verði gert á þessum vetri. En tollskrárlögin taka gildi nú þegar um áramót, og þar af leiðir, að ekki verður undan því vikist að hafa eitthvert ákvæði til bráðabirgða varðandi tekjuöflunina. Þegar síðan söluskattslögin hafa verið tekin til endurskoðunar, gefst vafalaust tækifæri til að endurskoða þessa ákvörðun varðandi þetta eina prósent í söluskatti og fella það að öðrum tekjustofnum. En það mun svo sannarlega ekki vera neitt einsdæmi, að þannig sé haldið á málum.

Varðandi það, að söluskattsheimildin sé sett inn í tollskrárfrv. og það sé eitthvert einsdæmi, að aflað sé tekna með þeim hætti, vil ég bara benda á, að þetta hefur lengi viðgengist og lengi verið talið sjálfsagt varðandi ýmis mál. Það er t. d. varðandi húsnæðismál ákvæði um launaskatt í húsnæðislöggjöfinni, og ýmis fleiri dæmi af því tagi mætti nefna hér, þó að ég sjái ekki ástæðu til að vera að lengja þessar umr. með því að telja upp þá mörgu sérskatta, sem lagðir eru á. Söluskattur kom að sjálfsögðu fyrst og fremst til greina í þessu tilviki.

Ég get út af fyrir sig staðið við það, eins og ég hef oft gert, að söluskattur er ekki réttlátasta skattformið, sem til er í þjóðfélaginu, og margir skattar eru eðlilegri og koma betur út en söluskattur. Þó er það svo, að það, sem hér er verið að gera, er að fella niður toll á erlendum vörum, og við erum skuldbundnir til þess að haga því þannig, að tekjuöflunin, sem í staðinn kemur, komi jafnt á allar vörur. Það er eðli þeirrar breyt., sem hér á sér stað og fer fram, og þá er ekki óeðlilegt, a. m. k. ekki til bráðabirgða, að valin sé þessi leið, að lagður sé á 1% söluskattur.