19.12.1973
Neðri deild: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

152. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem fram hefur komið í ræðum hv. 7. þm. Reykv. og hv. 1. þm Reykn., vil ég taka fram í sambandi við undirbúning þessa frv., að eins og kunnugt er var gengið frá hér á hv. Alþ. í fyrravetur aðild okkar að Efnahagsbandalagi Evrópu. Þá var mikið verk óunnið í að koma því máli í framkvæmd, og þá hafði nýlega verið skipt um deildarstjóra í tollamáladeild fjmrn. Sá maður, sem var formaður í þeirri n., sem vann að þessu, hefur haft með Efnahagsbandalagsmálin að gera, og enn fremur sá, sem vann að þessu í viðskrn., og hafa báðir haft mikil ferðalög og mikla vinnu orðið að leggja á sig vegna breytingarinnar á samningnum við Efnahagsbandalagið. Það má svo sem um það deila, hvort það hafi verið of seint byrjað að vinna að þessum málum, en það var þó gert eins fljótt og tök voru á um þeirra störf og þegar þeir höfðu lokið sínu sumarfríi. Þetta mál tók að sjálfsögðu lengri tíma en reiknað var með, að það tæki, og það skal viðurkennt, eins og ég gerði í viðtali við formenn stjórnarandstöðuflokkanna, að málið væri það seint fram komið hér á hv. Alþ., að ég mundi ekki knýja það fram, nema um það fengist samkomulag við stjórnarandstöðu. Ég held mig við það. Það, sem hefur verið gert í þessu, hefur verið það, að stjórnarandstaðan hefur einnig unnið að framgangi málsins. Ég leiddi þá einnig í tal við formenn stjórnarandstöðuflokkanna að ég treysti mér ekki til að sleppa þessu máli í gegnum Alþ. án þess að hafa tryggingu fyrir tekjum á móti því tekjutapi, sem þarna ætti sér stað. Það kom réttilega fram hjá þeim, að þeir væru ekki undir það búnir að samþykkja það, en það kom líka skýrt fram hjá mér, að ég væri ekki undir það búinn að hleypa þessu máli í gegn, nema ég hefði einhverja tryggingu fyrir, að tekjumissirinn yrði bættur aftur. Ég tel að það hafi komið fram í því, sem gerst hefur í málinu síðan, að stjórnarandstaðan hefur unnið að því fúslega að láta málið halda áfram, og um þetta eina atriði, sem á milli okkar bar, ber enn á milli.

Út af því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði hér áðan um frekari athugun á því máli, vildi ég gjarnan fá að ræða það betur við hann, áður en lokaafgreiðsla færi fram á þessu máli hér. Mér hefur verið fullkomlega ljóst, að ekki er hægt að koma þessu máli í gegn nema með samkomulagi við stjórnarandstöðuna, og það er mér jafnljóst enn þá. Hins vegar, ef málið bíður til framhaldsþings, þá höldum við okkar samningum, það er framkvæmanlegt, en hins vegar er ekki hægt að láta koma til framkvæmda frekari tollaívilnanir, fyrr en ný tollskrá hefur verið samþykkt, svo að það yrði að bíða þess tíma. Þetta vildi ég segja til þess að leggja áherslu á, að frá mínum bæjardyrum séð hefur þetta tvennt verið tengt saman, og gerði ég þeim grein fyrir því í þeim viðræðum, sem við áttum um þetta mál. Ég vona, að það sé ekki hægt að segja, að ég hafi á neinn hátt reynt að koma aftan að þeim með þá hluti. Hvort við finnum svo sameiginlega leið, — því að mér virðist vera áhugi á því, að tollalækkunarfrv. komist í gegn, — til þess að leysa þennan vanda, þannig að báðir geti við unað, ég fái tryggt tekjurnar og málið nái fram að ganga, það vil ég athuga betur, sérstaklega við hv. 7. þm. Reykv. út af orðum hans áðan.

Að öðru leyti verður raun að ráða, hvernig um þetta fer. Frá mínum bæjardyrum séð er ekki framkvæmanlegt, að frekari tollalækkun geti átt sér stað, nema tekjutapið verði bætt. Það er, held ég, nokkuð í lagt útreikninga hv. 1. þm. Reykn. um tekjurnar af söluskattinum á næsta ári, því að hann skilar sér ekki nema að nokkru leyti, og ef hann mundi reynast þetta miklu betur en ég reikna með, mundi tekjutapið af tollalækkuninni líka reynast meira en ég reikna með, því að það tengist nokkuð saman.

Ég vil því, að við skoðum þetta mál, og ég geri ráð fyrir, að n. taki málið efnislega til meðferðar í fyrramálið, og þá kemur í ljós, hverju hægt er að ná samstöðu um. En ég vil ræða betur við hv. 7. þm. Reykv. um það atriði, sem hann ræddi hér áðan.