22.01.1974
Sameinað þing: 45. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

76. mál, stytting vinnutíma skólanemenda

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Sá hv. þm., sem framsögu hafði fyrir till., sem hér liggur fyrir til umr., er einnig kennari, og ef sú lýsing, sem hann gaf á íslensku skólastarfi, ætti hvarvetna við, væri hverju orði sannara, að þar væri um mikið óefni að ræða. En hv. þm. er ekki aðeins kennari, hann er líka skáld, og ýmislegt af þeim ummælum, þar sem hann tók dýpst í árinni, hef ég tilhneigingu til að skrifa á reikning skáldgáfu hans frekar en kennarareynslu. Nú finnst mér það mikil prýði á íslenskukennara, að hann sé hagmæltur, og ég veit sem betur fer mörg dæmi þess, að slíkir kennarar hafa átt þess kost að lífga mjög móðurmálstímana með því að þjálfa nemendur sína í kveðskap og náð þar oft almennum og góðum árangri. Ég læt þá von í ljós, að eitthvað af hæfileikum hv. þm. til að setja saman hnyttilega vísu hafi hrinið á nemendum hans, sem að vísu stefndu ekki að skáldstarfi, heldur sjómennsku, en hefur frá ómunatíð þótt prýði á hverjum íslenskum sjómanni, að hann gæti ljóðað á báruna af skipsfjöl.

Ef allt, sem hv. þm. taldi skólastarfi til annmarka, væri almennt í íslensku skólakerfi, held ég, að brýnasta nauðsyn væri að senda kennarastéttina, eins og hún leggur sig, í endurþjálfun og endurhæfingu, því að það væri að mínu viti vottur um geysilegan misskilning á hlutverki kennarans, ef þar væri eins að verki staðið og hann vildi, að mér fannst, vera láta.

Hitt er hverju orði sannara, að á þessu sviði eins og reyndar á ýmsum öðrum í þjóðfélaginu er mörgu áfátt. Vegna vitneskjunnar um það m. a. liggur fyrir hv. d. frv. um grunnskóla, sem hv. þm. drap lítillega á og virtist hafa heldur litla trú á, að yrði til bóta. Ég vil samt mælast til þess við hv. þm., að hann lesi það frv, gaumgæfilegar en hann virðist hafa gert til þessa. Ef hann gerði það, trúi ég ekki öðru en hann tæki eftir því, að þar er meðal margs annars fjallað um þau viðfangsefni, sem till. hans og hv. þm. Pálma Jónssonar fjallar um. Þar er til að mynda sú stefna mörkuð, að að því skuli unnið í skólastarfi og við skólabyggingar, að skólastarfið fari að sem mestu, leyti fram innan veggja skólans, til þess að fyrirbyggja þannig, að nemendum sé íþyngt með óhæfilega löngum vinnudegi eða þeim sé gert að skila meiri heimavinnu en með góðu móti má ætlast til af fólki á þeirra aldursskeiði. Sömuleiðis er það mjög ríkt grundvallarsjónarmið í grunnskólafrv. að í skólastarfi öllu skuli taka sem ríkast tillit til þarfa, hæfileika og áhugasviðs hvers og eins í nemendahópnum. Þetta frv. er einmitt til þess sniðið að girða sem mest fyrir, að skólinn verði ítroðslustofnun, þar sem reynt sé að troða í alla nemendur sama afmarkaða námsefninu, heldur sé þar unnið að því að koma hverjum og einum af mjög misjafnlega gerðum og gefnum nemendahóp til nokkurs þroska.