30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

342. mál, umsjónar- og eftirlitsstörf í heimavistarskólum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hér er hreyft afskaplega merkilegu máli af hv. 5. þm. Vesturl., og það er framkoma hæstv. núv. ríkisstj. til starfsmanna sinna. Eins og fram kom hjá þessum hv. þm., er hér verið að fjalla um einn hóp opinberra starfsmanna, þar sem launin virðast ákveðin, án þess að nokkur formleg þátttaka sé höfð uppi af hálfu launþega, og launin þar að auki ákveðin eftir á. Ég held, að það sé óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjmrh., hvort það séu fleiri ríkisstarfsmenn, sem eru ráðnir með þessum hætti hjá ríkinu, að launin séu ákveðin eftir á og án þess að nokkur formleg þátttaka sé höfð uppi af þeirra hálfu um laun þeirra og kjör. Ég held, að það sé líka rétt að spyrja hæstv. fjmrh., hvort það er rétt, sem haldið hefur verið fram af stjórnarmönnum í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, að menn séu ráðnir hér með kjörum Verzlunarmannafélags Reykjavíkur til ríkisins, þar sem samningar opinberra starfsmanna þykja of góðir, til þess að hægt sé að ráða menn eftir þeim. En það hefur komið fram sú gagnrýni af hálfu stjórnarmanna í BSRB, að ríkisstj. hafi nú uppi viðbrögð til að reyna að komast hjá því að ráða menn með þeim réttindum, sem lög um opinbera starfsmenn heimila.