30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

350. mál, sjálfvirk viðvörunarkerfi

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svör hans. Mér er ljóst, að það tekur tíma af afla slíkra upplýsinga sem þessara. Mér er þó kunnugt um, að hér á landi er fyrirtæki ungra tæknifræðinga, Iðntækni h/f, sem hefur undanfarin ár leyst ýmis vandamál á þessum sviðum, og þessir menn hafa verulegan áhuga á því að taka þetta mál til meðferðar. Þeir telja, að fært sé án verulegs kostnaðar að setja upp staura með rafeindaútbúnaði, er mæli hita- og rakastig á vegum, og að þetta kerfi þurfi alls ekki að vera dýrt í notkun. Mér er hins vegar ljóst, að þessir menn munu þurfa einhverja aðstoð, einhvern styrk til sinna starfa, en þeir telja, að án mikils fyrirvara séu þeir reiðubúnir til þess að gera tilraunir með nokkra staura á viðkvæmustu blettunum til þess að fá að sjá, hvort þessi kerfi verki ekki hér á landi eins og til stendur. Ég veit reyndar, að þessir menn hafa sett sig í samband við Vegagerð ríkisins, og vona, að þessu máli verði hraðað, svo sem unnt er.