04.02.1974
Neðri deild: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1974 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

144. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það kom þó að því, að einn hv. þm. kom hér í ræðustól og beinlínis mælti með áframhaldandi drykkjuómenningu, eins og ég kalla það. Það var hv. síðasti ræðumaður. Það er ljóst, að eins og hann talaði, er hann andvígur því, að slíkar till. séu fluttar hér á Alþ., sem á nokkurn handa máta gætu orðið til þess að stemma stigu við vaxandi áfengisneyslu Íslendinga. Ég virði þennan hv þm. fyrir það að koma þó fram með þessa skoðun. En ég get sagt honum strax, að hann veit það, að ég er ósammála honum algerlega.

Um þetta frv. skal ég segja það strax, að ég er algerlega andvígur því og mun greiða atkv. á móti því. Ég tel, að þetta frv. feli í sér þá stefnu að lögleiða í skömmtum víndrykkju á vegum ríkisins. Það má kannske segja, að það yrði að einhverju leyti minna, ef menn tækju upp sjússafyrirkomulag hjá ríkisstj. eða í opinberum veislum og hver fengi sinn ákveðna skammt og ekki meir. En ég er einnig andvígur því, og tel, að framámenn þjóðfélagsins eigi ekki að ganga á undan í þessum efnum.

Ég get verið sammála frsm. þessa frv. um það, að alþm. ættu að kynna sér eða reyna að gera sér grein fyrir því, hvaða ástand ríkir í þessum málum meðal okkar Íslendinga. Ég er sammála honum í því. En ég verð að segja það, að ég held, að hv. flm. þessa frv. hafi ekki gert sér raunhæfa grein fyrir því, hvaða ástand er í raun og veru ríkjandi í áfengismálum hér á Íslandi. Það segir hér í 1. gr.: „Gæta skal hófs í veitingum áfengra drykkja í gestaboðum og öðrum samkvæmum á vegum ríkisins.“ Hvað er hóf í þessum efnum? (Gripið fram í: Það, sem ekki er óhóf.) Hvað er ekki óhóf? (Gripið fram í: Þetta er orðin gáta.) Já, þetta er orðin gáta. Ég er ekki sammála þeim mönnum, sem eru ætíð að klifa á drykkjumenningu eða hóflegri drykkju. Ég held, að öll drykkja á áfengi sé ómenning, enda undirstrika flm. þessa frv. þetta mjög rækilega í grg., sem frv. fylgir, en í henni segir m.a., með leyfi forseta:

„Áfengisböl er mikið á Íslandi og birtist í ýmsum myndum. Áfengissýki er útbreiddur sjúkdómur, áfengi er slysavaldur og ofneysla þess orsök vanrækslu í störfum og undirrót margs konar ógæfu í þjóðfélaginu. Auk þess er óhófsdrykkja illþolandi smekkleysi og menningarskortur.“

Þetta er að mínu viti algerlega rétt. Og ég get í meginatriðum verið sammála þeirri ræðu, sem frsm. fyrir þessu frv. hélt hér áðan. En mér finnst beinlínis, að hún gangi í meginatriðum í berhögg við það, sem þetta frv. boðar. Mér fannst hann vera í raun og veru að rífa niður allar þær röksemdir, sem hægt væri að finna fyrir því að flytja svona frv., með þeirri ræðu, sem hann flutti við framsögu þessa máls. En sé það rétt, sem ég tel, að óhófsdrykkja sé smekkleysi og menningarskortur, þá væri gaman að velta því fyrir sér, hvort hófdrykkja væri þá smekkleg og menningaraukandi. Mér finnst, að flm. þessa frv. með túlkun sinni á þessum málum geri ráð fyrir því, að svo sé. Ég hef hins vegar sagt og segi það enn: Öll neysla áfengra drykkja leiðir, að vísu á mismunandi vegu, til ófarnaðar, en í öllum tilvikum á einhverju stigi til ófarnaðar viðkomandi einstaklings.

Þá segir í þessu frv.: „Íslenska ríkinu er óheimilt að standa fyrir sérstökum vínboðum (eða cocktail-boðum) hér á landi, en heimilt er að veita vín í opinberum matarveislum.“ Hv. flm. þessa frv. virðist telja mikla nauðsyn að koma þessu inn í löggjöf á Íslandi, að ráðh. og öðrum forsvarsmönnum þjóðfélagsins sé það í öllum tilvikum heimilt að hafa áfengi um hönd í opinberum veislum. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef áður sagt, og vil ganga það langt og ætlast til þess af mönnum eins og stjórnmálamönnum, sem í tíma og ótíma tala um hið mikla áfengisvandamál meðal Íslendinga, að þeir beinlínis gangi á undan og afnemi þann ósóma, sem hér hefur verið viðloðandi og yrði áfram viðloðandi, ef þetta frv. fengi afgreiðslu og yrði samþykkt, þá kominn í lög, að íslenskum ráðh. og forsvarsmönnum þjóðfélagsins væri hálft í hvoru skylt að veita vín í hófi, eins og þeir kalla það.

Eins og ég sagði áðan, fannst mér öll ræða frsm. fyrir þessu frv. bera þess vott, að hann hefði a.m.k. gert sér grein fyrir því, hversu geigvænlegt vandamál er hér á ferðinni. En það hefur hlaupið fyrir hjá honum og hv. 2. flm. þessa frv., þegar þeir létu þetta koma fram á Alþ. Ég skil eiginlega ekkert í jafn greinargóðum þm. og þarna eiga hlut að máli, að þeir skuli láta sér detta í hug að koma fram hér á Alþ. með frv. þessa efnis. Það er rétt, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan, að bæði fyrr á þessu þingi svo og á þinginu á undan þessu var flutt hér þáltill. um að afnema bæri vínveitingar á vegum ríkisins í opinberum veislum. Hann lét að því liggja, þessi hv. þm., að bæði í þessari umræddu till. svo og í þessu frv. væri svo til enginn ábati, hvort sem gerðist nú, að þáltill. yrði samþ. eða þetta frv., allt væri kák í þessum efnum og til einskis nýtt í því að standa á móti þeirri óhóflegu vínneyslu, sem er ríkjandi hér á landi. Ég tek undir með hv. 2. þm. Vestf., að þetta frv. er ekki í þá átt að sporna neitt við vindrykkju á vegum ríkisins í opinberum veislum. Hún heldur áfram eftir sem áður, þótt það yrði samþ. En það er oft svo, að ef fyrir hendi er stórt vandamál, eins og hér er um að ræða, og menn innst við hjartarætur telja, að það sé kannske ekki rétt að hrófla mikið við þeim hlutum, þá segja menn gjarnan, ef reynt er að stinga á, þótt í litlum mæli sé, að þetta sé nú það lítilsvert, að það borgi sig ekki að vera að því. Mér fannst á hv. 2. þm. Vestf., að hans hugsanagangur væri eitthvað álíka og þetta. Að vísu hygg ég, að hann viðurkenni eins og ég, að hér er um stórkostlegt vandamál að ræða meðal Íslendinga. En hann vill ekki standa að því að byrja smátt og láta á það reyna, hvort hv. þm. vilja í raun og veru, þó að kannske í litlu skrefi sé í byrjun, takast á við þetta vandamál.

Þessi hv. þm. sagði, að hér væri um hræsni að ræða. Vel má vera, að svo sé. En ég skil ekki þann þankagang hjá þessum hv. þm., þegar hann ber mönnum á brýn hræsni í þeim efnum, að vil,ja á einhvern hátt koma í veg fyrir, að í auknum mæli eigi sér stað tjón á fjöldamörgum einstaklingum hér á Íslandi vegna vínneyslu. Það er miklu nær að kalla þm. eins og hv. 2. þm. Vestf. hræsnara, þá sem telja, að hér sé vandamál á ferðinni, en vilja ekki í einu eða neinu, a.m.k. ekki í verki, sýna það og sanna, að þeir séu til reiðu til að ganga til móts við vandamálið og stíga skref í þá átt að reyna að sporna við því. Það er að mínu viti mun meiri hræsni en þessi hv. þm. gæti látið út úr sér, að því er þá þm. varðar, sem hafa flutt hér till. til úrbóta í þessum efnum.

Þá vék hv. 2. þm. Vestf. að því, að hann væri þess sinnis, að það bæri að lækka þann aldur, lögaldur, sem menn mættu njóta áfengra drykkja, allt niður í 17 ára aldur. Þarna birtist í enn einni mynd sú undanhaldsstefna, sem íslenskir ráðamenn virðast hafa verið haldnir, þ.e. að slá á frest eða stiga til baka í stað þess að herða á og framkvæma þá löggæslu og þá löggjöf, sem í landinu er í þessum efnum. Ég er ekki viss um það, að löggæslunni í landinu gengi neitt betur að framkvæma löggæslu á þessum sviðum, þó svo að aldurinn væri lækkaður niður í 17 ár. Þarna er bara spurningin, hversu mikið við viljum af hendi leggja, til þess að hægt sé að framkvæma þá löggæslu, sem til þarf, til þess að lög í þessum efnum í landinu verði virk. Ég fyrri mitt leyti væri andvígur því að lækka þann aldur, sem hér um ræðir, úr 20 árum niður í 17. En ég viðurkenni og ég hef á það bent, að það fer allt á hinn verri veg, það lækkar alltaf aldursmarkið hjá unglingum, sem neyta áfengra drykkja, því miður. En skyldi það ekki vera fyrst og fremst vegna hegðunar hinna eldri í þessum efnum um áraraðir? Og það mætti segja við ýmsa: Maður, líttu þér nær. Þeir eldri hafa sitt fordæmi, og það er ekki við öðru að búast en hinir yngri taki það upp.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þetta lengra að sinni, en ég endurtek það, að í meginatriðum gengur þetta frv. í öfuga átt við mitt mat í þessum málum og ég mun því greiða atkv. gegn því.