30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

23. mál, bætt aðstaða nemenda landsbyggðarinnar

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Fsp. hv. 5. þm. Norðurl. e. er þessu til að svara:

Þál. frá 3. apríl 1973, sem vitnað er til, hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj, að beita sér fyrir því, að komið verði á fót mötuneytum og heimavistum á vegum hins opinbera, sem ætlaðar verði þeim nemendum af landsbyggðinni sem sækja verða sérskóla í Rvík, er ekki starfa annars staðar í landinu. Í þessu sambandi verði m. a. kannað, hvort ekki komi til greina að semja við starfandi hótel um slíkan rekstur“

Unnið hefur verið að framkvæmd þessarar þál. á eftirfarandi hátt:

1) Könnun á fjölda nemenda á landsbyggðinni, sem stunda nám á höfuðborgarsvæðinu.

2) Gerðar hafa verið kostnaðaráætlanir um byggingu heimavistar og mötuneytisaðstöðu í Rvík fyrir nemendur landsbyggðarinnar.

3) Gerð hefur verið könnun á því, hvort semja mætti við starfandi hótel um rekstur heimavistar, eins og þál. gerir ráð fyrir.

Í till. er gert ráð fyrir stuðningi við þá nemendur, er sækja sérskóla, er ekki starfa annars staðar á landinu. Það sérnám, sem ekki er aðgengilegt eða ókleift að stunda annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu, er fyrst og fremst eftirfarandi: 1) háskólanám, 2) framhaldsnám tækniskóla. 3) framhaldsnám sjóm. skóla, 4) hjúkrunar- og heilsugæslunám, 5) kennaranám, 8) ýmsar sérgreinar iðnnáms, 7) loftskeyta- og símvirkjanám, 8) fósturnám, 9) fiskvinnslunám, 10) framhaldsnám í myndlist og tónlist. 11), nám í Verslunarskóla Íslands, 12) nám í hótel- og veitingaskóla.

Fjöldi þeirra, er stunda ofangreint nám og hafa lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins, er um það bil 1000. Auk þess stunda svo 500 nemendur ýmislegt framhaldsnám annað á höfuð borgarsvæðinu, sem hægt væri að stunda annars staðar, svo sem nám í gagnfræða- og menntaskóla. Um 1500 nemendur, sem eiga lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins, eru þar við nám í ýmsum skólum. Aðstaða þessara nemenda er allmismunandi, t. d. hvað snertir aðstoð hins opinbera. Skal hér í stórum dráttum gerð grein fyrir aðstöðu nemendanna.

Um 400 nemendur, sem skrá lögheimili sitt utan Reykjavíkur og nágrennis, hljóta lán hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Til jafnaðar voru lán þessi 100 þús. kr. á nemanda árið 1972. Nemendur þessir stunda nám í Háskóla Íslands, Stýrimannaskólanum í Rvík. Vélskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, menntadeild, framhaldsdeild og handavinnudeild, Húsmæðrakennaraskóla Íslands á 3. námsári, Tækniskóla Íslands, 1.–3. hluta, auk meinatækni- og raftæknináms. Mestur hluti þessa fólks er um eða yfir 20 ára, býr á eigin vegum og í jafnmörgum tilfellum með eigin fjölskyldu. Aðstaða þessa fólks er því á ýmsan hátt hliðstæð aðstöðu um 500 lántaka hjá Lánasjóði ísl. námsmanna á höfuðborgarsvæðinu, sem ekki dveljast á heimilum foreldra. Mötuneytisaðstaða er fyrir nemendur Háskóla Íslands. Við háskólann er enn fremur heimavistaraðstaða fyrir um 100 nemendur. Þá er heimavistaraðstaða fyrir 40–50 nemendur í sjómannaskólanum, auk þess sem nú í haust var komið á fót mötuneyti fyrir nemendur Stýrimannaskólans og Vélskólans.

Flokkur hópur nemenda hlýtur laun, meðan á námi stendur, svo sem iðnnemar, símvirkjar og nemar í skólum fyrir heilbrigðisstéttir. Þeir síðasttöldu búa auk þess við möguleika til heimavistar og mötuneytisaðstöðu.

Um 1000 nemendur, sem stunda framhaldsnám á höfuðborgarsvæðinu, hljóta námsstyrk skv. l. nr. 69 frá 1972, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Námsstyrkir þessir voru til jafnaðar 25–30 þús. árið 1972. Nemendur þessir hafa ekki heimavistaraðstöðu og mjög takmarkaða mötuneytisaðstöðu. Helmingur þeirra stundar nám, sem ekki er unnt að stunda annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og sjá má af framantöldu, er högum námsmanna mjög mismunandi háttað og erfitt að gera sér grein fyrir, hver sé raunveruleg þörf fyrir heimavistaraðstöðu í Rvík. Við könnun á högum nemenda, kom t. d. í ljós, að rúml. 40% búa hjá ættingjum og venslafólki og að í hópi þeirra nemenda, sem leigðu hjá vandalausum, var allstór hópur, sem að öðru jöfnu hefði getað stundað nám við heimavistarskóla. Það þótti hins vegar sýnt, að m. a. vegna eldgossins í Vestmannaeyjum gætu húsnæðismál nemenda nú í vetur orðið meira vandamál en áður. Menntmrn. styrkti því húsnæðismiðlun framhaldsskólanemenda sérstaklega til þess að gera á s. l. sumri könnun á húsnæðisþörf framhaldsskólanema. Náði þessi könnun til allra nemenda, sem stunda nám á höfuðborgarsvæðinu, án tillits til búsetu. Könnun þessi var gerð í júlí og ágúst 1973, og kom í ljós, að 280 nemendur töldu sig húsnæðislausa. Voru það hvort tveggja nemendur, er áttu lögheimili á höfuðborgarsvæðinu og utan þess.

Jafnhliða þessu athugaði rn. möguleika á samningum við starfandi hótel, eins og gert er ráð fyrir í þál. frá 3. apríl. en slíkar viðræður hafa reyndar farið fram áður. Tóku hótelin málaleitan rn. mjög vel, en ýmis vandkvæði eru á því fyrir starfandi hótel að fastbinda svo og svo mikið af gistirými sínu 8–9 mánuði ársins á því verði, sem viðhlítandi gæti talist fyrir nemendur. Niðurstaða þessara athugana var sú, að fyrir milligöngu menntmrn. og með stuðningi námsstyrkjanefndar tóku nemendur allt Hótel City á leigu sem námsmannaheimili. Fékkst þarna húsnæði fyrir 51 nemanda, en þörfin reyndist hins vegar ekki meiri en svo, að ekki tókst að fá eins marga nemendur og rúm var fyrir, þannig að 7 nemendum fleira gæti verið á Hótel City en þar eru. Verð húsnæðis á Hóte1 City fyrir hvern nemanda er til jafnaðar 6 000 kr. á mánuði, og ýmist eru þeir einn eða tveir í herbergi.

Auk þessara ráðstafana styrkti rn. húsnæðismiðlun framhaldsskólanema til þess að annast húsnæðismiðlun. Einnig var boðin fram aðstoð við skipulagðan daglegan akstur, þannig að nemendur, sem búa nærlendis, en utan Reykjavíkursvæðisins, eigi auðveldara með að sækja hingað nám heiman frá sér.

Þessar aðgerðir, sem að framan greinir, virðast hafa leyst húsnæðisvanda nemenda nú í vetur.

Að því er varðar mötuneytisaðstöðu nemenda, var nú í haust sett á stofn mötuneyti í sjómannaskólahúsnæðinu, eins og áður segir, og mötuneytisaðstaða er við City Hótel fyrir þá nemendur, sem þar búa. Á s. l. ári var einnig komið upp aðstöðu fyrir nemendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð til kaupa á léttum hádegismat. Nokkur athugun fór fram á því, hvernig og hvort slíkri aðstöðu væri hægt að koma við víðar. Þá var sérstaklega rætt við fulltrúa nemenda um sameiginleg fæðiskaup og betri nýtingu þeirra mötuneyta, sem fyrir eru.

Þessar aðgerðir allar verða síðan teknar til sérstakrar athugunar með tilliti til þeirrar reynslu, sem fæst nú í vetur, þ. e. hvort betri nýting hótel-, veitinga- og mötuneytisaðstöðu, ásamt auknum styrkjum til nemenda, geti komið í stað byggingar sérstaks heimavistarhúsnæðis á Reykjavíkursvæðinu. Áætlun hefur verið gerð um kostnað við byggingu heimavistar og mötuneytisaðstöðu fyrir nemendur, er dvelja í Reykjavík vegna náms. Gert var m. a. ráð fyrir byggingu 100 manna heimavistar, 50 tveggja manna herbergja, með mötuneytisaðstöðu fyrir 250 nemendur. Slík bygging er áætlað að muni kosta, miðað við byggingarvísitölu 853 stig, samtals 100 millj. kr. Áætlað kostnaðarhlutfall er þetta: heimavist 68 millj. kr., mötuneyti 32 millj. kr. eða stofnkostnaður mötuneytis 120 þús. kr. á nemanda, stofnkostnaður heimavistar 680 þús. kr. á hvern nemanda. Rétt er að hafa í huga, að hér er eingöngu um stofnkostnað að ræða. Við þetta bætist svo almennur rekstrarkostnaður, svo sem viðhald, rafmagn, hiti o. fl., auk launakostnaðar við ræstingu, húsvörslu og mötuneyti. Þess má einnig geta, að rn. hefur fyrir löngu farið fram á það við borgaryfirvöld Reykjavíkur að fá aðstöðu í Tónabæ til mötuneytisrekstrar fyrir nemendur, þar sem það hús liggur mjög vel við fyrir fjölmenna skóla, svo sem Kennaraháskólann og Tækniskólann. Þessi málaleitan hefur ekki borið árangur.

Þál. gerði ráð fyrir aðstoð við nemendur landsbyggðarinnar, sem sækja verða sérskóla á höfuðborgarsvæðinu. Á hitt er þó einnig að líta, að líklega dvelur meiri hluti þeirra nemenda, er þurfa að vista sig utan lögheimilis vegna framhaldsnáms, annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Meginstefna rn. er að bæta aðstöðu allra nemenda með stofnun nýrra framhaldsskóla, svo sem fjölbrauta- og menntaskóla, sem geri nemendum kleift að stunda framhaldsnám í heimabyggð sinni eða næsta nágrenni við hana. Benda má á, að síðan 1970 hafa verið veittar í fjárl. samt. 100 millj. kr. til aðstöðujöfnunar nemenda og í fjárlagafrv. fyrir árið 1974 eru í þessu skyni 75 millj. kr. Um úthlutun þessa fjár árið 1970, 1971 og 1972 liggja fyrir ítarlegar prentaðar skýrslur, sem hv. alþm. hafa fengið í hendur.