12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

203. mál, úthlutun viðbótarritlauna

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans, sem voru skýr og skilmerkilega fram flutt, eins og hans var von og vísa. Ég legg áherslu á það, að við úthlutun þessa fjár í ár verði reynt að koma við því sjónarmiði, sem ég hygg, að hafi vakað fyrir hinu háa Alþ., að ekki verði neitt verið að draga úr eða skipta rithöfundum í réttláta og rangláta. Ég lýsi jafnframt yfir óánægju minni yfir því, að þessir nm. skyldu ekki hafa lagt vinnu í það að kynna sér sjálfir, hvaða höfundar gáfu út bækur á árinu 1972, og vona, að þeir taki þau vinnubrögð upp á yfirstandandi ári. Við vitum, að margir rithöfundar eru þannig gerðir, að þeim er óljúft að sækja eftir beinum framlögum eða fjárstyrkjum af þessu tagi, og þess vegna hefur reynslan orðið sú, að vinir þeirra hafa orðið að sækja um styrkina fyrir þá, stundum án þess að þeir viti af, til þess að þeir banni ekki slíkt. Einnig getur það borið við, að menn hreinlega gleymi að sækja eða viti ekki um, þegar auglýst er með þessum hætti. Og eins og úthlutunin s.l. ár bar með sér, hafa mörg þjóðkunn og ég vil segja ástsæl skáld orðið útundan. Ég nefni þar sérstaklega, eins og ég sagði áðan, Kristján frá Djúpalæk, sem hefur oft lagt í mikinn kostnað við að gefa út bækur sínar og átti sannarlega skilið, að þetta næði til hans.