13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Í dag hafa farið fram umræður utan dagskrár í báðum deildum. Í þessari hv. d. hefur verið rætt um loðnuna, kjaramál o.fl., en í Ed. hefur verið rætt mál rússneska rithöfundarins Solzhenitsyns. Ég heyrði með öðru eyranu nokkuð af þeim umr. áðan, þegar ég stóð í því herbergi, sem við nefnum ráðherraherbergi. Þrír hv. þm. Sjálfstfl. fordæmdu framkomu rússneskra stjórnvalda gagnvart Solzhenitsyn, þeir Halldór Blöndal, Þorvaldur Garðar og formaður flokksins, Geir Hallgrímsson. Mér finnst hæfa, að einnig í þessari hv. d. heyrist einhverjar raddir varðandi þetta mál.

Ég þarf vonandi ekki að taka það fram, að ofsóknir þær og sú kerfisbundna grimmd, sem þessi ágæti rússneski rithöfundur hefur orðið að sæta af hálfu stjórnvalda í heimalandi sínu, valda mér og öðrum Alþb.-mönnum engu minni gremju, engu minni réttlátari reiði heldur en hv. þm. Sjálfstfl. í hádegisfréttunum áðan var frá því sagt, að Solzhenitsyn væri kominn til Vestur-Þýskalands, og þessa stundina dvelst hann að líkindum heima hjá Heinrich Böll. Það er sannarlega ánægjulegra að vita af honum þar heldur en til að mynda á geðveikrahæll eða í dýflissu, jafnvel í dýflissu dauðadæmdra, eins og margir óttuðust, að mundu verða afdrif hans eftir handtökuna í gær.

En hinu skulum við ekki gleyma, að Solzhenitsyn fór þessa ferð nauðugur. Þrátt fyrir allt vildi hann, þessi mikli ættjarðarvinur, vera heima. Hann var tekinn með valdi og sendur í þessa útlegð, og þar voru þeir að verki, sem í krafti kerfisins, í krafti opinberrar skrumskælingar á réttu og röngu telja sig þess umkomna að úrskurða, hvað sé sönn rússnesk ættjarðarást, og þá um leið það, að þessi maður, Solzhenitsyn, hinn sannasti allra rússneskra ættjarðarvina, sé þjóðníðingur og landráðamaður. Sú niðurlæging mannréttinda, sem þessir aðilar byggja vald sitt á og m.a. valdið til þess að taka Solzhenitsyn nauðugan og senda hann í útlegð, það kerfi heldur áfram þar austur frá, og sú staðreynd er síður en svo neitt fagnaðarefni.

Auðvitað hljótum við Íslendingar að láta í ljós samúð og siðferðilegan stuðning við Solzhenitsyn og aðra þá, sem orðið hafa að sæta afarkostum af hálfu rússneska ranglætisins, ella mættum við níðingar heita. En við skulum ekki gleyma því, að það er fleira ranglæti í heiminum en rússneskt ranglæti, og það er von mín, að þessir atburðir verði til þess, að við Íslendingar tökum upp manndómslegri hegðun heldur en við höfum hingað til tamið okkur varðandi ranglæti, sem aðrir sýna baráttumönnum frelsis og mannréttinda, — ranglæti, sem oft á tíðum er síður en svo afsakanlegra, síður en svo mildara en hið rússneska ranglæti.

Ofsóknunum gegn hinum bandaríska ættjarðarvini, David Ellsberg, þeim sem var kærður fyrir „þjóðhættulegt“ athæfi eins og Solzhenitsyn, birtingu Pentagonskjalanna svonefndu, þar sem skýrt var frá margvíslegum og viðbjóðslegum glæpaverkum bandarískra ráðamanna, þeim ofsóknum hefur aldrei verið mótmælt, svo að um muni af hálfu okkar Íslendinga, og er okkur lítill sómi að því.

Í skjóli þess hernaðarbandalags, sem við íslendingar erum aðili að, í skjóli þess herveldis, sem við Íslendingar leyfum afnot af landi okkar, í skjóli þess viðgengst fasistískt stjórnarfar í Grikklandi, stjórnarfar, sem hneppt hefur margan grískan Solzhenitsyn í fangelsi og pyntað og hrakið og tekið af lífi. Þeirri fasistastjórn og þeim ódæðum öllum höfum við Íslendingar sýnt svo mikið umburðarlyndi, svo mikið afskiptaleysi, að við hljótum að bera kinnroða fyrir.

Það herveldi, sem hefur herstöð hér á Íslandi til þess að vernda frelsi og mannréttindi samkv. útleggingu vissra samlanda okkar, þetta herveldi hefur líka herstöðvar á Spáni, þar sem tíu verkalýðsforingjar voru nýlega dæmdir fyrir mannréttindabaráttu ýmiss konar í 12–20 ára fangelsi hver. Sú svívirða lét okkur Íslendinga svo lítt snortna, að af öllum íslenskum fjölmiðlum var aðeins eitt dagblaðið, sem sagði frá henni.

Ég vil leyfa mér að vona það af einlægni, að allir góðir Íslendingar hugleiði þetta núna, þegar við sameinumst um að mótmæla vegna þeirra ódæða, sem hið rússneska ranglæti drýgir. Ég vænti þess, að allir góðir Íslendingar séu mér sammála um það, að jafnframt því sem við fordæmum slíkt ódæði, þá hljótum við einnig og ekki siður að fordæma þau ódæði, sem unnin eru af ýmsum þeim, sem standa okkur nær í því veraldarkerfi, sem nú ríkir, og eru sumir raunar bandamenn okkar. Það eigum við að gera og hljótum að gera, ella megum við svo sannarlega níðingar heita.