14.02.1974
Sameinað þing: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2204 í B-deild Alþingistíðinda. (1982)

148. mál, byggingasvæði fyrir Alþingi, ríkisstjórn og stjórnarstofnanir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að láta í ljós þá skoðun mína, að hér sé um merka till. að ræða og tímabært að taka þessi mál til skoðunar nokkuð í heild á svipaðan hátt og gert er ráð fyrir í till. Þó hef ég nokkuð aðrar skoðanir á ýmsu í því sambandi heldur en þar koma fram, eins og ég mun gera grein fyrir í örfáum orðum. En það breytir ekki því, að hér er hreyft mjög nauðsynlegu máli.

Fyrst vil ég segja þá skoðun mína, að ég tel, að það sé t.d. orðið alveg ljóst, að ekkert hæfilegt rúm fyrir stjórnarráðsbyggingu er í miðhænum. Sá staður, sem menn höfðu hugsað sér fyrir stjórnarráðsbyggingu, þ.e. við Lækjargötu, er slíkur frá mínu sjónarmiði séð, að ekki ætti að koma til greina að reisa slíka byggingu þar. Þar á ég við „Torfusvæðið“, sem farið er að kalla. Þótt ekki væri nema af þessari ástæðu, sýnist mér afar nauðsynlegt að taka þessi mál upp, ekki kannske með ólíku sniði og hér er gert ráð fyrir, því að þetta á þá ekki einungis við um stjórnarráðið, heldur nokkrar aðrar stofnanir, en einkanlega þó stjórnarráðið. Eins og við vitum, eru rn. nú orðin dreifð víðs vegar um borgina og er stórfellt óhagræði að á allan hátt. Ef í stjórnarráðsbyggingu er safnað saman öllum rn., verður þar um stórhýsi að ræða, sem ég get ekki séð, að komi til greina að setja nokkurs staðar á því svæði, sem við í daglegu tali köllum miðbæinn — eða miðborgina á nútíma máli.

Ég vil um leið taka fram, að mér sýnist ekki ástæða til að hnýta saman á þann hátt, sem gert er í þessari þáltill., húsnæðismál Alþingis og annarra ríkisstofnana, eins og t.d. stjórnarráðsins, því að það er skoðun mín, að ekki þurfi endilega að þjappa öðrum ríkisstofnunum, svo sem stjórnarráðinu né þess háttar stofnunum, þétt saman umhverfis alþingishúsið. Ég tel, að þótt sjálfsagt sé, að þessar stofnanir, stjórnarráðið og Alþ., séu í höfuðborginni, megi gjarnan vera þar nokkurt bil á milli og þurfi ekki að valda neinum vandkvæðum. Ég vil því skilja nokkuð á milli framkvæmda í húsnæðismálum Alþingis og annars efnis, sem þáltill. fjallar um, og mér finnst, að gæti vel komið til greina að taka húsnæðismál Alþingis út úr þáltill. Þó er það til athugunar. Ég slæ engu föstu um, að ég muni leggja það til. en ég vil, að þetta sjónarmið komi greinilega fram strax við fyrri umr.

Árið 1961 var samþykkt svofelld þáltill., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsetum þingsins í samvinnu við fulltrúa þingflokkanna að gera tillögur um framtíðarhúsnæði Alþingis.“

Þetta gerðist árið 1961, og þá var sett á fót eins konar þinghúsnefnd. En hún hefur sáralitlu komið áleiðis á þessum árum, þinghúsnefndin, og liggja til þess margar ástæður. M.a. befur það komið fram, að sumir í þinghúsnefndinni hafa heldur hallast að því, að Alþingi leitaði sér samastaðar annars staðar í borginni en hér á þinghúslóðinni eða þinghúslóðunum, en sumir í n. hafa talið, að stefna ætti að því, að Alþingi gæti verið áfram á þessum þinghúslóðum.

Málið allt hefur verið í mikilli sjálfheldu, vegna þess að fyrir nokkrum árum ákváðu borgaryfirvöld Reykjavíkur að reisa ráðhús við norðurenda Tjarnarinnar, og enn fremur vegna þess, að sett var í aðalskipulag Reykjavíkur, að framlengja skyldi Grettisgötu, ryðja henni braut áfram vestur á bóginn í gegnum byggðina, niður með Menntaskólanum, í gegnum byggðina fyrir vestan Lækjargötu, rétt við stafninn á Hótel Borg og milli hóteisins og Dómkirkjunnar, um hlaðið á þinghúsinu og utan í Austurvelli, þar á milli, og áfram vestur úr. Þessi ákvörðun við aðalskipulagið, að leggja aðalumferðaræð þarna beint í gegnum, og svo hin ákvörðunin, að reisa ráðhús norðanvert í Tjörninni, hefur sett húsnæðismál Alþingis í mörg ár í algera sjálfheldu, og mönnum fannst skynsamlegt að taka sér nokkurn frest og sjá, hverju fram yndi og hvað úr þessu öllu yrði.

Nú hefur þannig skipast, að ég hygg óhætt að fullyrða, og byggi ég það m.a. á því, sem borgarstjórinn í Reykjavík hefur látið hafa eftir sér, og hefur líka verið að síga í þá átt, að ráðhús verði ekki byggt við norðurenda Tjarnarinnar. Enn fremur þykist ég vita með nokkurn veginn vissu, að skipulaginu verður breytt þannig, að það verður ekki lögð aðalumferðaræð hér í gegn á milli Austurvallar og alþingishússins, því að það er ekki í samræmi við hugmyndir manna nú um, hvernig miðhluti borgar innar skuli vera. Það eru gerbreytt viðhorf í öllum umhverfismálum á örfáum árum, og ég þykist vita með fullri vissu, að við þá endurskoðun, sem fer fram á aðalskipulagi Reykjavíkur, verður þessu breytt og verður ekki lögð aðalumferðaræð við Dómkirkjuna eða fyrir framan þinghúsdyrnar.

Í þessu sambandi vil ég gera grein fyrir því, að forsetar Alþingis hafa hvað eftir annað snúið sér til borgaryfirvalda Reykjavíkur á s.l. ári og farið þess á leit, að bílaumferð yrði hætt um Kirkjustræti, þannig að það gæti orðið friðsælt bæði í Alþingi og Dómkirkjunni og sunnan við Austurvöll. Í viðtölum við borgaryfirvöld Reykjavíkur hefur verið látið í ljós, að það væri mikill skilningur á því í sambandi við endurskoðun allra þessara mála, sem fer fram á vegum Reykjavíkurborgar og þróunarstofnunar hennar, að hér þyrfti í raun og veru að verða friðsælt svæði. Mín persónulega skoðun er sú, sem ég hef látið í ljós þráfaldlega, að í raun og veru þyrfti að stefna að því, að engin bílaumferð yrði um Kirkjustræti, ekki heldur Vonarstræti og orðið gæti frá Austurstræti og suður fyrir Tjörn eins konar útivistarsvæði, og þyrfti þá helst að stefna að því, að á þessu svæði yrðu engar byggingar aðrar en byggingar Alþingis og Dómkirkjan. Þetta eru mínar persónulegu hugdettur í sambandi við þessi mál. að það ætti að stefna að því að koma upp þess háttar friðsælum reit í hjarta borgarinnar og í þeim reit gæti Alþingi haft aðsetur ásamt Dómkirkjunni. Þau hafa verið hér lengi saman, eins og kunnugt er, þessi hús, og farið vel á því.

Þessi n. hefur, samkv. þáltill. frá 1961, litlu komið áleiðis, því að þetta mál hefur legið mjög óskýrt fyrir, a.m.k. til að velja á milli þessara tveggja stefna eða úrræða, sem menn hafa bent á, annars vegar, að Alþingi flytti sig á alveg nýjar stöðvar, og hins vegar, að Alþingi kæmi húsakynnum sinum fyrir hér framvegis. En nú sýnast mér þessi mál liggja þannig fyrir, að hægt sé að taka þau upp, án þess að menn séu þvingaðir af einu eða neinu, það sé rétti tíminn nú til að taka þessi mál upp við borgaryfirvöld Reykjavíkur og reyna að gera upp við sig, hvað skynsamlegast sé í þessu tilliti. Þess vegna lagði ég fram í n, nú í jan. uppástungu, sem hv, frsm. sagði hér frá og er til athugunar á milli funda hjá nm. Hún er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta, þessi till., sem liggur fyrir til skoðunar og hefur ekki neina afgreiðslu hlotið enn:

„Þinghúsnefnd Alþingis efni í samráði við skipulagsyfirvöld Reykjavíkur og Arkitektafélags Íslands til samkeppni um húsnæði fyrir Alþingi á þinghúslóðunum á milli Kirkjustrætis og Vonarstrætis annars vegar og Tjarnargötu og Templarasunds hins vegar og nýtingu svæðisins alls.“

Þarna er sett fram sú hugmynd, að samkeppnin yrði ekki aðeins um þau hús, sem þyrftu að koma til. heldur um svæðið allt, um tilhögun á svæðinu öllu, hvernig færi best á því að nota þetta svæði framvegis. Mínar persónulegu hugmyndir um þetta svæði setti ég fram áðan, hvað mér finnst, að þar ætti að vera. Ætti að mínu viti að stefna að því, að þetta yrði eins konar friðsæll reitur í hjarta borgarinnar, en á þessum reit yrði Alþ. og Dómkirkjan og helst ekkert annað.

Ég á erfitt með að trúa því, að snjallir arkitektar geti ekki leyst þetta mál vel, að á þessum stóru lóðum, sem hér eru til umráða, kæmu fallegar byggingar samkv. því, sem Alþ, hentaði. Við verðum að gá að því, að hér er ekki um neitt smáræðissvæði að ræða, því að Alþingi á nú allar lóðir og öll hús á ferhyrningi á milli Templarasunds annars vegar og Tjarnargötu hins vegar og Vonarstrætis annars vegar og Kirkjustrætis hins vegar, nema Oddfellowhúsið. Mér finnst, að fyrsta skrefið í þessum efnum, eins og nú er komið, ætti að vera að kaupa Oddfellowhúsið og leggja það einnig til Alþingis, hvað svo sem yrði við það gert að lokum.

Ég tel, ákaflega vel farið, að Alþ. á nú allar þessar lóðir og öll þessi hús. Auðvitað er þetta alþingishús orðið allt of þröngt, eins og við þekkjum sjálfsagt manna best, enda hefur Alþingi þrjú önnur bús til afnota, og hefur það bætt vinnuaðstöðu Alþingis mikið að fá þau hús. Eitt af þeim er leiguhúsnæði, en tvö af þeim á Alþingi sjálft. En þó að sæmilega fari um menn nú eins og stendur, er mjög óhagfellt að dreifa þessari starfsemi í mörg hús, eins og verður að gera með þessu móti, og á engan hátt er það til frambúðar, þegar lengra er litið, þannig að það má ekkert hægja á í þessu máli, þó að aðstaðan hafi skánað ögn um stundarsakir við þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið upp á síðkastið. Þess vegna er ég sammála flm. þessarar þáltill. um, að það er meir en mál til komið, að skarað sé í þessu máli alla vega, þinghúsmálinu, alveg eins og hinum húsmálunum, sem þáltill. fjallar um.

Ég held, að ekki sé ástæða til þess fyrir mig að hafa þessi orð fleiri. Ég vildi, að þessar upplýsingar kæmu hér fram til íhugunar fyrir menn. Þetta er mín persónulega skoðun. Ég get ekki séð neina ástæðu til þess fyrir Alþ. að flytja sig, þegar það hefur möguleika til að vera á þessum stað, sem að mínu viti er glæsílegasti staður borgarinnar, ef þessi mál eru leyst af stórhug og framsýni. Það þýðir auðvitað, að menn verða að búa þannig um Alþingi á þessum myndarlega reit í hjarta Reykjavíkur, að vel fari það hús, sem reist yrði fyrir Alþingi til viðbótar, og umhverfi staðarins yrði um leið gert þannig úr garði, að það væri sómi fyrir landið, prýði fyrir borgina og hentugt fyrir Alþingi.