14.02.1974
Sameinað þing: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

179. mál, rannsókn á gerð nýrrar hafnar á suðurströndinni

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég kem ekki hér til að mótmæla því, að þessi till. nái fram að ganga. Ég er sammála því, að þetta er mjög þarft mál, ekki aðeins fyrir Sunnlendinga, heldur fyrir þjóðina í heild.

En ég vil benda á eitt atriði í sambandi við þetta mál, sem mér finnst ástæða til, að komi hér fram. Það er, að frsm. talaði um, að þetta mál ætti að vera hafið yfir pólitíska togstreitu og togstreitu milli byggðarlaga. En mér finnst einhvern veginn eftir að hafa kynnt mér svona mál og starfað að hafnamálum á Íslandi, að tillöguflutningurinn feli ekki í sér að koma í veg fyrir þetta. Mér fyndist hyggilegra, að það yrði lögð áhersla á ítarlega rannsókn á hafnarstæði fyrir suðurströndinni með sérfræðingum um þessi mál, og ég dreg í efa, að fulltrúar frá sýslunefndum á Suðurlandi geti verið færir um að láta fara fram þessa rannsókn, svo að til árangurs horfi. Svo vill til, að ekki alls fyrir löngu átti ég þess kost að sitja aðalfund Samtaka sveitarfélaga í Suðurlandi, og á þeim fundi var þetta mál eitt stærsta málið eðlilega. Þá var Vestmannaeyjavandamálið óleyst, og var verið að ræða almennt um stefnuna í hafnamálum fyrir Suðurlandi. Og ég verð að segja það, að miðað við þá till., sem hér liggur fyrir, er ég ekki bjartsýnn á, að fulltrúar frá þeim aðilum, sem hér er gert ráð fyrir, að skipi þessa n., mundu geta dregið rétta ályktun um það, sem væri skynsamlegast og hagstæðast fyrir þjóðina í heild. Ég tel, að þess vegna sé miklu heppilegra, að þessi n. stefni alla vega i upphafi að því að fá sérfræðinga til að gera úttekt á möguleikunum.

Það, sem er aðalatriði í þessu máli eins og mörgum hliðstæðum er, að reynt yrði að tryggja fjármagn til að láta gera slíka rannsókn g hygg, að það sé eitt stærsta vandamálið í svo stóru máli, sem hér er um að ræða, að það hefur til þessa ávallt skort fjármagn til að gera svo ítarlegar og yfirgripsmiklar rannsóknir í svona málum sem þörf er á. Ég efast ekki um að Hafnamálastofnun Íslands sé fær um að láta framkvæma svona úttekt, ef hún hefði til þess nægjanlegt fjármagn.

Ég vildi láta þessar aths. koma hér fram, ekki vegna þess, að ég sé á móti því, að þetta sé gert, — athugaðir möguleikar á því, hvar hagstæðast er að byggja höfn við Suðurland. Þess er þörf. En ég er ekki alveg viss um, að aðferðin, sem kemur fram f þessari þáltill., sé sú rétta eða sú besta. En ég vil undirstrika, að það vantar að tryggja fjármagn, til þess að slík rannsókn komi að þeim notum, sem að er stefnt. Það er veigamikið atriði, þegar verið er að fjalla um slík stórmál.

Ég vil endurtaka, að ég hef orðið var við mjög skiptar skoðanir um, hvort höfn á að koma að Eyrarbakka, Dyrhólaey, Þykkvahæ o.s.frv., og ég veit, að menn berjast hart á Suðurlandi í sambandi við þetta mál. Þess vegna er ég ekki viss um, að Sunnlendingar sjálfir séu endilega færastir um að finna réttu lausnina. — Ég vildi aðeins gera þessa athugasemd.