18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2233 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég verð að segja, að það hryggir mig nokkuð, að hæstv. fjmrh., sem hér varð fyrir svörum í upphafi, er nú horfinn af vettvangi, annars hefði hann e.t.v. getað svarað ítrekaðri spurningu minni, sem sérstakt tilefni gefst til að bera fram, eftir að við höfum hlustað á ræðu hæstv. sjútvrh. Annar hæstv. ráðh. sagði, að ræða mín hefði verið svo yfirgripsmikil, að það væri erfitt að fara í einstök atriði hennar. Ástæðan til þess, að ræða mín kann að hafa virst vera yfirgripsmikil, var einfaldlega sú, að ég tók inn í þessa ræðu ágrip af þeim fréttum, sem fluttar voru í fjölmiðlum ríkisins í gær. Það var vegna þess, að ég bjóst við, að hér væru margir hv. þm., sem e.t.v. hefðu ekki heyrt þessar fréttir, og nauðsynlegt var að rekja þær að nokkru til þess að undirbyggja þær spurningar, sem ég hafði hugsað mér að bera fram. Og það, hversu hæstv. sjútvrh. virtist ræða mín afskaplega undarleg, stafar af því einu, að þessar fréttir, sem ég byggi ræðu mína á, voru ákaflega undarlegar. Og vegna þess, hve þessar fréttir voru undarlegar, sá ég ástæðu til að fá orðið hér utan dagskrár til þess að fá skýringar á afstöðu ríkisstj. til þess, sem fram fór í Norðurlandaráði í gær.

Hæstv. ráðh. fannst ekkert sérstakt tilefni til þess að láta sér detta í hug, að utanrrn. hefði að tilmælum utanrrh. séð ástæðu til þess að afla eintaka af þessum ræðum. En ég ítreka þá skoðun mína, að mér finnst fyllsta ástæða til þess, þegar fjallað er um svo viðkvæm mál sem öryggismál Íslands og íslenskur ráðh. setur fram sjónarmið, sem fjölmiðlafregnir segja, að íslenska ríkisstj. sé ekki sammála um. Sé ég ekki annað en það sé beinlínis verkefni utanrrh. að afla sér þeirra gagna sem fyrst, sem hann getur byggt sínar athuganir á, og þá því heldur, þegar það er upplýst, að hæstv. sjútvrh. á eintak af þessari ræðu, annaðhvort hér í tösku sinni eða einhvers staðar annars staðar. — Ég sé, að hæstv. ráðh. hristir höfuðið, svo að væntanlega er þetta frumritið, sem hæstv. ráðh. Magnús Kjartansson hefur haft með sér til Norðurlandaráðs og ekki til eintak af þessari frægu ræðu hér heima. — En spurning í tilefni af þessu er einfaldlega sú: Sá ríkisstj. þessa ræðu, eða sá hún hana ekki? Eða var þarna um að ræða leyndarplagg fyrir ráðh. Alþb.?

Hæstv. sjútvrh. talaði um, að ég hefði gert hér að umræðuefni ræðu, sem ég hefði ekki heyrt, ekki séð, aðeins byggt upplýsingar á skotspónafregnum. Eru það skotspónafregnir, sem Ríkisútvarpið og sjónvarpið flytja frásagnir af, bæði í sérstökum fréttaauka beint frá Stokkhólmi og í almennum fréttatíma? Ég get ekki séð annað en að það séu þær fregnir, sem eru taldar fullgóðar fyrir allan landslýð. Ef maður eftir öllum opinberum leiðum, bæði gegnum utanrrn. og hjá fjölmiðlum, reynir að afla sér þeirra umr. orðrétt, sem fregnirnar eru byggðar á, og þær tilraunir takast ekki, þá liggja fyrir allar þær upplýsingar, sem hægt er að ætlast til með nokkurri sanngirni, að menn hafi í dag um þetta mál, — þeir, sem ekki hafa notið þess sérstaka trúnaðar, sem hæstv. sjútvrh. hefur notið og e.t.v. ríkisstj. að öðru leyti. Um það er ómögulegt að fá svör, að því er virðist.

Ég skil út af fyrir sig, að hæstv. fjmrh. færist undan því að fara að ræða um utanríkismál landsins í einstökum atriðum, enda vakti það alls ekki fyrir mér. Það var aðeins að fá að vita þetta: Eru ummæli Magnúsar Kjartanssonar uppi höfð með samþykki og vitund ríkisstj. eða ekki? Þessu ætti hver ráðh. að geta gefið svar við.

Það hneykslaði hæstv. sjútvrh., að ég teldi það varpa ljósi á ástandið innan ríkisstj., hve mismunandi fregnir bárust af því umræðuefni, sem ætti að vera á dagskrá utanrrh. hér á Íslandi í dag. Hann kvað þessa fsp. eða þessa staðhæfingu mína aðeins varpa ljósi á sálarástand þm. Sjálfstfl. Það er rétt. Þessi spurning gerir það, þessi staðhæfing mín gerir það vissulega, því að ég efast um, að þm. Sjálfstfl. og margir aðrir þm., bæði í Alþfl. og öðrum flokkum þingsins, þessir þm. hafi varla af öðru meiri áhyggjur þessa dagana en því, hvernig öryggismálum landsins virðist vera komið í höndum þeirrar ríkisstj., sem hér situr að völdum.

Hæstv. ráðh. sagðist geta tekið undir hvert orð, sem hann las í ræðunni góðu eftir flokksbróður sinn, Magnús Kjartansson, og honum þótti hið mesta hneyksli, að norska ríkisstj. væri annarrar skoðunar í einhverjum einstökum atriðum utanríkismála heldur en íslenska ríkisstj., eins og hún setti sín sjónarmið fram í sínum málefnasamningi, sem var óglöggur mjög. Auðvitað getur íslenska ríkisstj. ekki ætlast til þess, að hver einasta ríkisstj. á Norðurlöndum sé sammála þeim sjónarmiðum, sem hún, vinstri stjórn á Íslandi, eins og hún er saman sett, setur fram í öllum utanríkismálum. Geri ég ekki ráð fyrir, að nokkrum manni detti það í hug.

Hv. formaður utanrmn., 4. þm. Reykv., gaf hér ýmsar upplýsingar úr norska Arbeiderbladet og sagði frá viðtölum þar við norska utanrrh., þar sem hann skýrir frá því, að hann muni ekki nota för sína til Íslands til þess að blanda sér í íslensk-bandaríska samninginn. Þó ekki væri. Hverjum hefur dottið í hug, að norski utanrrh. ætlaði sér að fara að blanda sér í samninga Íslands við önnur ríki? Þetta hrekur alls ekki það, sem sjónvarpið sagði um umræðuefni hæstv. utanrrh., Einars Ágústssonar, og hins norska utanrrh., vegna þess að það er munur á því, hvort ráðh. annars ríkis er að blanda sér í samningaviðræður hins við þriðja ríkið eða hvort þeir ræða mikilvæg mál sín á milli. Þetta er tvennt ólíkt.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist hér á ummæli — Trygve Brattelis, að vitanlega væru þessi mál ákvörðunarefni Íslendinga einna. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir. Það lá líka ljóst fyrir, þegar bréfið kom frá Korvald-stjórninni norsku, að svo væri, þó að norska ríkisstj. tjáði þar sín sjónarmið.

Hv. 10. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni, að það væri sannarlega tími til þess kominn, að birt væri þetta margumrædda norska bréf. En ég verð að segja, að miðað við þær litlu upplýsingar, ég vil segja miðað við það, að engar upplýsingar hefur verið hægt að fá fram frá ráðh. úr ríkisstj. Íslands um þetta mál, sem ég hef gert hér að umtalsefni, — þá sýnist mér augljóst, að utanríkismálum Íslands sé stefnt í það óefni í höndum þeirrar stjórnar, sem nú situr að völdum, að það sé fyllilega tími til kominn, að hún segi af sér.