19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði, að ræða Magnúsar Kjartanssonar væri ekki að neinu leyti flutt á vegum ríkisstj., ekki nafni hennar og ekki samþykkt eða flutt með vitund ríkisstj. Þá er það upplýst, að hæstv. iðnrh. hefur verið að blekkja þingheim Norðurlandaráðs, þegar hann segir, eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir gat um og vitnaði í ræðu Magnúsar Kjartanssonar orðrétt: Hins er ekki að dyljast, að ríkisstj. Íslands finnst hún hafa ákaflega lítinn stuðning frá ríkisstj. annarra Norðurlanda í þessu örlagaríka máli.“ Þarna talar ráðherrann í nafni ríkisstj., þegar sjálfur forsrh. er viðstaddur, án þess að hafa til þess umboð eða bera sig saman við forsrh., þótt upplýst sé, að ræðan var samin viku fyrir fram.

Spurningin er þess vegna: Hvað ætlar hæstv. forsrh. að gera? — Hann svaraði því til, að það væri ekki að vænta neinna viðbragða af hans hálfu eða ríkisstj. Hér er ekki um lítillæti að ræða af hálfu hæstv. forsrh. Hér er um ótrúlega lítilþægni að ræða af hálfu forsrh., sem á auðvitað að tala í nafni ríkisstj., ef ríkisstj. ætlar sér að gefa yfirlýsingar. Og með því að ekki eru ráðgerð sérstök viðbrögð eða ráðstafanir vegna þessara ummæla, þá má spyrja hæstv. forsrh: er hann sammála því, að ríkisstj. finnist hún hafa lítinn stuðning frá ríkisstj. annarra Norðurlanda í varnarmálum? Það er sú spurning, sem hlýtur að vakna upp, þegar svör hæstv. forsrh. eru skoðuð.

Það er athyglisvert, að annars vegar er kvartað yfir litlum stuðningi frá ríkisstj. annarra Norðurlanda í varnarmálum og hins vegar er kvartað yfir orðsendingu Norðmanna frá sept. s.l. sem ótilhlýðilegri íhlutun um íslensk innanríkismál. Hér stangast eitt á annars horn. Það, sem úrslitum ræður, er ekki, að Norðmenn sendi Íslendingum orðsendingu og tjái vilja sinn, heldur hver vilji Norðmanna er, hver skoðun Norðmanna er. Vegna þess að skoðun Norðmanna er ekki í samræmi við skoðun Magnúsar Kjartanssonar, þá er um að ræða, íhlutun í íslensk innanríkismál, en í sömu andrá er samt kvartað yfir litlum stuðningi annarra Norðurlanda. Stuðningurinn átti að vera fólginn í því, að Norðurlöndin áttu að fallast á sjónarmið Alþb.-manna og kommúnista. Þetta er siðfræði kommúnista uppmáluð. Það er allt í góðu lagi að taka á móti orðsendingum annarra þjóða, ef efni þeirra er í samræmi við vilja þeirra sjálfra, en ef svo er ekki, þá er um ótilhlýðilega íhlutun um íslensk innanríkismál að ræða.

Þá kom það fram í ræðu Magnúsar Kjartanssonar, að fundið var að því, að fulltrúar frjálsra félagssamtaka í Noregi komu undir forustu norska stórþings forsetans í heimsókn til skoðanaskipta við sams konar samtök hér á landi um vestræna samvinnu. Slík frjáls skoðanaskipti eru ekki að skapi kommúnista og beinlínis talað um, að þau séu til þess fallin að hafa áhrif á ríkisstj. Íslands, En um sömu helgi og þessir ágætu gestir frá Noregi komu var fimm dálka fyrirsögn í Þjóðviljanum, blaði Alþb., með tilkynningu um, að tilgreindur norskur stórþingsmaður mundi verða á ferðinni næstu helgi þar á eftir til þess að túlka sjónarmið andstæð sjónarmiðum fulltrúa vestrænna samtaka í Noregi. Það er m.ö.o. ámælisvert að taka á móti norskum gestum, sem tjá hug sinn í varnar- og öryggismálum, ef þeir eru á öndverðum meiði við Alþb., en hins vegar er það fagnaðarefni að taka á móti gestum frá Noregi, ef þeir eru á sama máli og Alþb. Menn geta af þessum dæmum og samkvæmni gert sér ljósa grein fyrir því, hvaða ástand væri hér á landi og hvernig frjáls skoðanaskipti væru hér á landi, ef Alþb.-menn réðu hér lögum og lofum.

Það var eðli orðsendingar Norðmanna frá sept. s.l. að gera Íslendingum grein fyrir afstöðu Norðmanna innan Atlantshafsbandalagsins og þar með gefa íslensku ríkisstj. tækifæri til að tjá hug sinn og andsvör við þessari orðsendingu Norðmanna, áður en til fundar Atlantshafsbandalagsráðsins kæmi, þar sem endanlega væri gengið frá umsögn þess um endurskoðun varnarsamningsins.

Nú vildi ég spyrja hæstv. forsrh.: Hefur íslenska ríkisstj. svarað orðsendingu Norðmanna og tjáð skoðun sína um efni og innihald orðsendingar Norðmanna? Það væri eðlileg málsmeðferð, ef íslenska ríkisstj. hefði nokkra aths. við þá orðsendingu að gera, og ég tel það einmitt æskilegt, að sjónarmið íslensku ríkisstj. komi fram gagnvart norska utanrrh. í sambandi við beimsókn hans hingað til lands.

Það er athyglisvert, að kurteisi hæstv. iðnrh. er slík að velja ræðu sinni þann tíma, þegar norski utanrrh. er hér í vináttuheimsókn. Við enga þjóð aðra viljum við Íslendingar eiga frekar vinsamleg og góð samskipti en Norðmenn, og við teljum, að Norðmenn hafi verið okkur styrk stoð á mörgum sviðum á alþjóða vettvangi. Við eigum að rækta þá vináttu og frændsemi, en það gerum við ekki með slíkri ræðu sem fram hefur komið af hálfu hæstv. iðnrh. Hún gerir okkur mikinn skaða, og því er nauðsynlegt, að hæstv. forsrh. taki af öll tvímæli, að hann afneiti þeim skoðunum, sem hæstv. iðnrh. hefur flutt í sinni ræðu.

Ég vil ljúka orðum mínum, sem ég hér hef flutt, með því að ítreka þá spurningu: Telur hæstv. forsrh., að ríkisstj. hafi ekki fengið þann stuðning frá ríkisstj. annarra Norðurlanda í varnar- og öryggismálum landsins, sem hann eða ríkisstj. átti von á?