30.10.1973
Sameinað þing: 10. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

1. mál, fjárlög 1974

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Af hverju getum við ekki sagt það sama í dag? endaði hv. síðasti ræðumaður á, og við sögðum, meðan viðreisn var við stjórn. Hvað sögðu viðreisnarmenn þá um kauphækkanir? Með hverju svöruðu þeir? Man þessi hv. þm. það ekki? Ég man það. Ég man það fyllilega, — ekki bara einu sinni, heldur margoft — hverju svarað var. Mér er ekki kunnugt um, að núv. hæstv. ríkisstj., — án þess að ég ætli að fara að verja ráðh., þeir geta varið sig sjálfir, — hafi gefið út yfirlýsinu um að það væri ekki hægt að hækka kaup. Ég veit ekki betur en kauphækkanir almennt og þá fyrst og fremst hjá þeim, sem lægst voru launin hjá, og þeim, sem viðreisnarstjórnin á sínum tíma smáði hvað mest, lægst launaða fólkinu, — ég veit ekki betur en kauphækkanir í tíð núv. ríkisstj. til þessara launþega hafi verið þær mestu, sem um getur um áratugi eða kannske frá upphafi baráttu verkalýðshreyfingarinnar hér á Íslandi.

Ég ætlaði að leiðrétta það, sem fram kom í ræðu þessa hv. þm., þegar hann talaði um niðurskurð á hafnarframkvæmdum á fjárl. ársins 1973. Það er ekki fyrir hendi neinn niðurskurður þar á. Það hefur heldur verið hætt við, þannig að það leiðréttist hér með. (LárJ: Ég sagði það ekki.) Ótiltekinn niðurskurður, orðrétt. Menn verða að muna, hvað þeir segja. Auk þess ætlaði ég að bæta því við, að því er kjördæmi þessa hv. þm. varðar, að það er ekki búið að taka inn í þessa mynd af uppbyggingunni hina svonefndu Norðurlandsáætlun. Hún kemur auk þessa. Menn verða heldur betur að loka augunum, ef þeir ætla að halda þessu fram við hvern sem er og þá ekki síst þá hv. þm. hér á Alþ., sem ættu að vita og vita a. m.k. allflestir betur en þessi hv. þm., hvað er að gerast í hans eigin kjördæmi.

En ég ætlaði einnig að bæta því við, — ég minntist síðast á það hér áðan, og það skulu vera mín lokaorð í þessum efnum, — ég ætla að bæta því við í sambandi við Breiðholtsframkvæmdirnar, að fyrrv. ríkisstj. sveikst um að fjármagna þá uppbyggingu eins og gert var ráð fyrir á sínum tíma. Það voru hrein svik. Aðeins 50 millj. hafa verið settar í það af því, sem átti að gera í upphafi. En þannig eru hundruð millj., sem búið er að taka út úr almenna byggingarkerfinu til uppbyggingar í Breiðholti. Þarna er um hrein svik að ræða. Þessa ættu þessir hv. stjórnarandstæðingar líka að minnast, þegar þeir tala um algera byggðaröskun í tíð núv. ríkisstj.