20.02.1974
Neðri deild: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2297 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil nú fyrst þakka sjútvn. fyrir greiða afgreiðslu á þessu máli og einnig fyrir góðar undirtektir við það hér í hv. d. Mér sýnist, að samstaða eigi að geta orðið um framgang málsins.

En í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram, hefur hv. 4. þm. Austf., sem nú var að enda að tala, vikið að einum mjög þýðingarmiklum þætti í sambandi við útflutning okkar á loðnuafurðum. Í fyrsta lagi vék hann nokkuð að því, að það ríkti nokkur óvissa um sölu á loðnumjöli, og ýmis vandamál hafa komið einnig upp í sambandi við löndun á loðnu, eins og menn þekkja nú að undanförnu. Það er rétt, að það er um mikla óvissu að ræða varðandi það verð, sem við væntanlega fáum fyrir útflutninginn á okkar loðnumjöli. En ég tel fyrir mitt leyti, að það sé til lítils gagns að ræða það, eins og málin standa nú. Við verðum þar að bíða nokkuð átekta og sjá, hvernig fer með verðlagsþróunina. Það er eins og sagt hefur verið hér í umr. á Alþ., að það er ýmislegt, sem bendir til þess, að verðið eigi eftir að koma upp aftur og eigi eftir að hækka á nýjan leik, þannig að hægt verði að fá fyrir alla framleiðsluna svipað verð og við höfum fengið fyrir þann hluta framleiðslunnar, sem þegar er seldur. En vissulega getur þetta líka orðið þannig, að við stöndum frammi fyrir talsverðri verðlækkun á mjölinu frá því háa verði, sem við höfum fengið fyrir þann hluta, sem seldur er. En það verður að bíða enn um sinn og sjá, hvað gerist í þeim efnum, því að framleiðendur og útflytjendur eru allir sammála um að bíða og selja ekki, eins og sakir standa, á því verði, sem nú er almennt í boði.

Hv. 4. þm. Austf., Sverrir Hermannsson, ræddi þó einkum og sérstaklega hinn nýja og þýðingarmikla útflutning okkar á loðnuafurðum til Japans, þ.e.a.s. sölu okkar á frystri loðnu á þann markað. Þar er um mjög þýðingarmikinn markað að ræða og alveg nýja útflutningsgrein, má í rauninni segja, og skiptir auðvitað miklu máli, hvernig til tekst með þann útflutning. Við höfum fengið að okkar dómi mjög hagstætt verð fyrir þessar vörur, og það hefur farið hækkandi. Ég get ekki á þessu stigi málsins gefið hér neina ítarlega skýrslu um það, hvernig staðið er að eða hvernig ætlunin er að standa að sölunni á þennan markað. En þó má gefa þær upplýsingar, sem komu sumpart fram hjá hv. þm., að fram að þessu ári hefur það verið svo, að frá okkar hálfu hefur verið um tvo útflytjendur að ræða og þó aðallega einn, þ.e.a.s. samtök frystihúsanna í landinu. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna annars vegar og Samband ísl. samvinnufélaga hins vegar hafa staðið saman að því að bjóða fram og selja þessa vöru á Japansmarkaðinn. Og það eru þessi tvö stóru félagasamtök, sem hafa haft á sínum vegum nær alla framleiðsluna eða yfirgnæfandi meiri hl. hennar. En auk þess hefur verið um einn annan aðila að ræða, sem hefur haft leyfi til þess að selja á þennan markað, hefur selt mjög lítið magn og hefur leyfi til þess enn. En það er mjög lítið magn, sem hann hefur selt á þennan markað.

Nú hefur það hins vegar gerst á þessu ári, að það samstarf, sem var á milli þessara tveggja stóru aðila, þ.e.a.s. Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sambands ísl. samvinnufélaga, rofnaði og þeir tóku það upp að selja hvor í sínu lagi á Japansmarkað. Við treystum okkur ekki í viðskrn. að knýja fram okkar vilja í þessum efnum, en létum skýrt í ljós, að við teldum, að það væri á margan hátt sterkast fyrir okkur, að þetta samstarf þeirra á milli héldist áfram og við byðum í rauninni helst fram sem einn aðili þessa vöru á Japansmarkaðinn með eðlilegu eftirliti og umsjá viðskrn., eins og verið hefur. En hjá þessum aðilum, sem starfa sjálfstætt að útflutningi hvor í sínu lagi í öðrum greinum, fór svo, að þeir gátu ekki haldið samstarfinu áfram og byggðu upp hvor sinn sjálfstæða útflutning.

Í þessum efnum varð það úr, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna sækir um að fá að verða aðili að sérstöku fyrirtæki í Japan, sem þá væri byggt upp með þeim japanska aðila, sem hefði aðallega keypt loðnuna áður héðan frá Íslandi. Þar með var farið inn á þá braut, að stærsti útflytjandi hér, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, byggði upp sérstakt félag með þeim, sem hafði verið aðalinnflytjandinn í Japan, og hér var orðið um útlent félag að ræða, sem íslenskur aðili var aðeins hluthafi í, og þá gert ráð fyrir því, að þetta félag, sem þannig yrði byggt upp í Japan, keypti framleiðsluna héðan aðallega frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. En það er ekki rétt, að nm það sé að ræða, að þetta japanska félag, sem svona er byggt upp, eigi að fá vöruna héðan á einhverju óákveðnu verði. Það verður að greiða fast verð fyrir vöruna, — verð sem ákveðið er hér á hverjum tíma af viðskrn., svo að þeir fái ekki að selja þessa vöru í neinni umboðssölu, heldur verður hið japanska fyrirtæki, sem svona er uppbyggt, að kaupa vöruna á föstu verði. Hitt getur svo að sjálfsögðu komið át úr þessu dæmi, að þetta japanska fyrirtæki sýni hagnað, sem íslenskur aðili á sinn þátt f. En ég skal ekki fara út í það á þessu stigi málsins að lýsa neinni afstöðu til þessarar sérstöku uppbyggingar. Hún er nokkuð sérstæð og fellur ekki almennt inn í okkar form í sambandi við utanríkisviðskipti, en er þó ekki óþekkt. Hins vegar er Samband ísl. samvinnufélaga eins og áður sjálfstæður útflytjandi og selur til ákveðinna innflytjenda í Japan og verður einnig að hlíta því verði, sem viðskrn, samþykkir, að gildi um útflutningsverð vörunnar á hverjum tíma. Og sama er að segja um þriðja aðilann, Útflutningsmiðstöðina, sem flytur út minni háttar magn. Hún hefur leyfi til þess nú eins og áður.

Það er enginn vafi á því, að það er þýðingar mikið að fylgjast með því, eins og hv. þm. vék hér að, hvernig tekst til með sölustarfsemi okkar á þessum japanska markaði, þannig að það verður reynt að koma í veg fyrir það, að íslensk fyrir tæki keppi þar á óeðlilegan hátt hvert við annað eða við verðum á nokkurn hátt til að lækka verð okkar vöru vegna þeirrar skiptingar, sem þarna er komin fram á sölunni á þennan markað. Ég vil aðeins nefna það sem dæmi, að Norðmenn, sem líka hafa verið á þessum markaði allan þann tíma, sem við höfum verið þar, hafa haldið sig fast við að bjóða þar fram vörur á vegum eins aðila. En ég held, að þeir samningar, sem hafa verið gerðir nú af öllum þessum þremur íslensku útflytjendum, séu allir í sams konar formi og tryggi sambærilegt verð, og var talið eftir allmikla athugun á því, að það væri besta verð, sem um væri að ræða, eins og nú stóðu sakir.

En það er rétt, að á þessum markaði í Japan hafa Rússar verið líka, þó að þeir vinni þar á dálítið öðrum grundvelli. Þeir geta auðvitað verið mjög stórir aðilar, og þarf að gefa þeim gaum í þessum efnum.

Ég get tekið undir það, sem hv. 4. þm. Austf. sagði, að það þarf sannarlega að gefa því gaum, hvernig staðið er að markaðsleit varðandi þessar nýju framleiðsluvöru eins og reyndar aðrar. Er fylgst með því af hálfu viðskrn., þó að því sé ekki að neita, að þar sem um er að ræða hjá okkur stór félagasamtök, eins og t.d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða Samband ísl. samvinnufélaga, sem annast meginhluta útflutnings í til tekinni grein, þá má segja, að markaðsleitin og vinnan á hinum erlendu mörkuðum sé langsamlega að mestu leyti í höndum þessara aðila, sem við teljum, að séu nokkuð sterk samtök til að vinna að sölu á sínum útflutningsvörum með eðlilegu eftirliti af hálfu ríkisvaldsins. En það er ekki ríkisvaldið nema að litlu leyti, sem tekur að sér sölusamninga, ef það tekur að sér beinlínis að vinna á þessum mörkuðum. Þetta skipulag hefur gilt hér.

Ég treysti mér ekki til að ræða þetta öllu frekar á þessu stigi málsins. Það er alveg skýrt, að af hálfu viðskrn. verður fylgst með því, hvernig staðið er að þessum markaðsmálum og sölumál um, og gripið inn í, ef okkur þykir bein ástæða til, ef sú skipting, sem þarna hefur komið upp, verður að okkar dómi þannig, að hún geti skaðað okkar almennu útflutningshagsmuni, því að það er skoðun okkar, að almennt séð væri sterkara, að hér væri um einn aðila á þessum markaði fyrir okkar hönd að ræða, en ekki marga. En hins vegar hikum við við að neita gamalgrónum og sterkum útflutningssamtökum, sem starfað hafa sjálfstætt að útflutningi á frystum afurðum, um að fá að vinna hvort í sínu lagi, á meðan við a.m.k. teljum, að þau geti haft sín á milli eðlilegt samstarf þrátt fyrir vissa samkeppni.

Ég vænti svo, að þetta frv. geti fengið hér greiða fyrirgreiðslu í gegnum deildirnar.