04.03.1974
Neðri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

244. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það var í sambandi við þá fsp., sem hér kom fram varðandi friðun Selvogsbankasvæðisins, og það svar, sem hæstv. ráðh. gaf, sem ég taldi ástæðu til að kveðja mér hljóðs.

Ég skildi það þannig nokkurn veginn afdráttarlaust, þegar verið var að ræða samninginn við Breta, að það mætti alveg treysta því, að þeir mundu virða þá friðun, sem er ákveðin í hinni íslensku reglugerð. Og ég vil ekki trúa því, fyrr en á það reynir, að svo verði ekki, enda væri það að sjálfsögðu alveg óverjandi, ef erlendum skipum yrði liðið að veiða þarna, en íslenskum skipum ekki.

En það var annað, sem ég vildi spyrja hæstv. ráðh. um í sambandi við Selvogsbankasvæðið. Um það var nokkur orðrómur á s.l. vetri, að friðunin, eins og hún var ákveðin þá, hefði ekki verið virt, hvorki af erlendum né íslenskum skipum. Það má vel vera, að einhver brögð hafi verið að þessu. En það var kannske afsakanlegra þá, þar sem þetta var í fyrsta skiptið, sem veiðar voru bannaðar þarna, og Landhelgisgæslan, sem á að hafa eftirlit með veiðum á þessu svæði eins og annars staðar, mun hafa haft öðrum hnöppum að hneppa þá. En mig langar að fá hér fram yfirlýsingu frá hæstv. sjútvrh. um það, hvort hann muni ekki fara fram á það við Landhelgisgæsluna, að hún muni sjá um, að þetta svæði verði alfriðað, eins og reglugerðin segir til um, yfir þann tíma, sem gert er ráð fyrir, eða frá 20. mars til 30. apríl. Ég tel, að ef nokkur mistök eða misbrestur verði á þessu í framtíðinni, sé alveg tilgangslaust fyrir Alþ. að vera að setja friðunarsvæði. Við verðum að geta treyst því, að okkar sjólögreglu verði beitt alveg miskunnarlaust og fortakslaust til þess að fylgja eftir öllum lögum, sem varða friðun á þeim svæðum, sem Alþ. ákveður, að friðuð skuli hverju sinni.