04.03.1974
Neðri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

207. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. gengur sjálfsagt gott eitt til um það að taka upp hanskann fyrir kaupendur, og ekki skal ég gera lítið úr því sjónarmiði, enda tel ég mig reyndar vera með flutningi þessa frv. að gæta hagsmuna kaupenda engu síður en seljenda.

Hv. 3. landsk. segir, að ég hafi lagt til með þessu frv. að heimila verðtryggingu á samninga. En ég er ekki að leggja það til. Ég er aðeins að fara fram á það, að Alþingi staðfesti þá venju, sem verið hefur. Hv. þm. segir, að það hafi verið bannað skv. lögum, en sagði síðar frá því í ræðu sinni, að yfirvöld hafi látið það afskiptalaust. Og það er einmitt mergurinn málsins. Það má túlka lögin og þau hafa verið túlkuð með þeim hætti, að það sé bannað að verðtryggja samninga. En engu að síður hefur þetta verið látíð óátalið af yfirvöldum og þessi venja hefur skapast, þannig að það má um það deila, hvort það standist gagnvart lögum nú að banna þessa vísitölukvöð svo skyndilega.

Hv. þm. fjallaði nokkuð um ástandið á fasteignamarkaðinum og ræddi um þá þenslu, sem þar ríkti, og ég get vel undir það tekið. En ég er ekki að gera tilraun til að leysa það með þessu frv. Það er auðvitað allt annað og miklu stærra mál. Ég er einfaldlega að taka mið af því ástandi, sem er staðreynd, og reyna að greiða þannig úr samningum og viðskiptum manna á þessum vettvangi, að bót fáist á því ástandi, sem ríkir. Ég held, að það verði að liggja ljóst fyrir, að við verðum að taka tillit til þeirrar verðbólgu og þeirrar þenslu, sem á sér stað í þjóðfélaginu, hvort sem okkur líkar betur eða verr, þangað til við sjálf tökum fyrir það.

Hv. þm. ræddi um verðtryggingu gróðans. Ég reyndi að skýra það út í framsöguræðu minni, að ég tel vera ómaklegt að tala um, að hér sé um aukna gróðastarfsemi að ræða hjá þeim, sem byggja og selja, vegna þess að þeir einfaldlega telja sér ekki fært annað en að taka inn í slíka samninga ákvæði, sem gera ráð fyrir þeim kostnaðarhækkunum, sem verða á samningstímanum. Reynslan og sagan hafa sýnt okkur það, hvort sem í hlut eiga svokallaðir braskarar, eins og hv. 3. landsk. vill kalla þá, sem byggja og selja, eða um er að ræða verktaka, aðila, sem taka að sér alls kyns verk fyrir einstaklinga, ríki og sveitarfélög, að þessir aðilar eru allir á einu máli um, að ekki sé hægt að gera slíka samninga nema hafa slík vísitöluákvæði með. Og ég held, að allir geti áttað sig á því, ef þeir vilja vera sanngjarnir, að þegar samið er til eins árs eða lengri tíma á þeim tímum, sem eru núna, þá er útilokað annað en að taka tillit til þeirra hækkana, sem eiga sér stað nánast frá degi til dags.

Við verðum að skoða þetta mál einmitt í því ljósi, hver sé staða t.d. kaupandans, ef vísitöluákvæði eru bönnuð. Ég var að benda á það áðan, að í fyrsta lagi má gera ráð fyrir því, að farið verði fram hjá þessu með einhverjum aðferðum, sem umdeilanlegar eru og eru miklu minni trygging fyrir kaupandann en ella. Í öðru lagi má gera ráð fyrir því, að aðilar, sem byggja og selja, þeir selji einfaldlega ekki, þeir bjóði ekki til sölu fyrr en húsin séu tilbúin til afhendingar, annað hvort tilbúin undir tréverk eða fullgerð, og sannleikurinn er sá, að þá verður verðið miklu hærra en það er nú í dag, þegar samið er fyrir fram. Einstaklingur, sem kaupir íbúð í dag upp á það, að hún verði afhent eftir eitt ár, gerir samning, sem gerir ráð fyrir vísitölukvöðum, fær íbúðina á umsömdum tíma, greiðir umsamið verð með vísitölubreytingunni eða vísitöluhækkuninni, hann fer betur út úr þeim kaupum heldur en ef hann drægi að kaupa íbúðina í eitt ár og keypti hana þá. Verðið verður honum hagstæðara. Ég get nefnt mörg dæmi máli mínu til sönnunar, hvað þetta snertir. Þriðji kosturinn er auðvitað sá, að það sé samið um verð, sem sé allt of lágt fyrir byggjandann að ráða við, hann ræður ekki við það að geta afhent íbúðina á þessu verði, hefur ekki upp í kostnað, og hann fer á höfuðið með allar sínar byggingar og allar sínar framkvæmdir, og auðvitað verður það mestur skaði fyrir kaupendurna.

Þetta eru rök, sem ég tel renna stoðum undir þetta frv. og staðfesta þá skoðun mína, að það sé kaupandanum til hagræðis, að vísitöluheimild sé fyrir hendi.

Ég skal ekki fjalla frekar um þetta mál. Ég held, að ég hafi vikið að þeim atríðum, sem fram komu í ræðu hv. 3. landsk. Það sýnist sitt hverjum um þetta, og auðvitað er hægt að mistúlka slík ákvæði og tala um verðtryggingu gróðans. En ef menn skoða málið af sanngirni og taka mið af þeim staðreyndum, sem blasa við í þjóðfélaginu, þá held ég, að menn hljóti að vera á einu máli um það, að slík vísitöluskilyrði séu nauðsynleg, a.m.k. að einhverju vissu marki.