05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2463 í B-deild Alþingistíðinda. (2279)

226. mál, leiga og sala fasteigna

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á s.l. vetri flutti ég þáltill. um leigu og sölu á íbúðarhúsnæði. Fó1 hún í sér áskorun á ríkisstj. að láta undirbúa frv. um þessi mál og leggja það fyrir Alþingi. Í frv. skyldi vera ákvæði um hámarksleigu íbúðarhúsnæðis og jafnframt sérstaklega fjallað um skipulag fasteignasölu í landinu. Tillögu þessari var vísað til ríkisstj. 6. apríl 1973. Í því fólst að sjálfsögðu ekki nein efnisleg afstaða til málsins frekar en endranær, þegar till. er vísað til ríkisstj., en miðað við þær umr., sem fóru fram hér á Alþingi, þegar till. var afgreidd, virtist ekki leika nokkur vafi á, að þm, væru þeirrar skoðunar, að um þessi mál væri þörf á lagasetningu, enda þótt sú leið væri valin við afgreiðslu málsins að binda ekki hendur ríkisstj. um ákveðna stefnumótun við undirbúning þessarar löggjafar.

1. liður fsp. minnar er því svo hljóðandi: „Mun félmrh. eiga frumkvæði að því, að sett verði lög um leigu og sölu fasteigna í samræmi við þáltill., sem vísað var til ríkisstj. 6. apríl 1973?“

Í öðru lagi spyr ég: „Er ráðherra hlynntur því, að sett verði ákvæði um hámarksleigu íbúðarhúsnæðis?“

Ég hef sem sagt aldrei skilið, hvers vegna svo treglega gengur að fá því framgengt, að einhver ákvæði verði sett um hámarksleigu íbúðarhúsnæðis, t.d. með því að miða hámarkið við ákveðinn hundraðshluta af fasteignamatsverði á ári hverju. Ég veit vel, að öll lög má sniðganga og brjóta. En það er engin afsökun fyrir því að setja ekki fastar reglur, sem yfirgnæfandi meiri hluti eigenda leiguhúsnæðis mundi vafalaust virða, ef þær væru til. Ég er einnig sannfærður um, að finna má ýmsar leiðir til að hafa eftirlit með því, að lögum um hámarksleigu yrði framfylgt, án þess að það kostaði hið opinbera óþarflega mikið fé eða óhóflega fyrirhöfn. Þess vegna spyr ég ráðherra, hvort hann sé ekki hlynntur því, að reynt verði að koma á einhverjum úrbótum á þessu sviði.

Í tengslum við þetta mál spyr ég einnig, hvort hæstv. ráðherra vilji ekki beita sér fyrir því, að húsaleiguútgjöld verði frádráttarbær við álagningu tekjuskatts, enda virðist það ekki óeðlilegt, bæði til að auðvelda eftirlit, ef sett verða hámarksákvæði um húsaleigu, til þess að ýta undir rétt framtöl eigenda leiguhúsnæðis og vegna þess að þetta virðist sanngjörn og eðlileg negla, meðan í gildi er heimild til þess að draga frá við álagningu tekjuskatts vexti af byggingarskuldum.

4. spurningin er svo borin fram að gefnu tilefni, eins og flestum er kunnugt, og skýrir sig nokkuð sjálf, en hún er svo hljóðandi: „Verða ráðstafanir gerðar af hálfu Húsnæðismálastofnunar ríkisins til þess að tryggja, að íbúðir, sem byggðar hafa verið í Breiðholti í þágu láglaunafólks af Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar, séu ekki misnotaðar í hagnaðarskyni?“