05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2496 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

213. mál, beislun orku og orkusölu á Austurlandi

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir, er um margt eðlileg. Ástandið í orkumálum Austurlands og landsins alls reyndar er orðið mikið umræðuefni manna á meðal, og spurningar hafa vaknað um það, hvernig þar mætti best úr bæta, og ástandið á Austurlandi m.a. hefur orðið tilefni 2nikilla umræðna um það, á hvern hátt raforkumálum þar yrði best háttað.

Ég þarf litlu við það að bæta, sem hv. 1. þm. Austurl. talaði um áðan í sambandi við þau höfuðatriði, sem taka ber tillit til varðandi alla orkuöflun varðandi heildarstefnuna í okkar orkumálum. Ég hygg, að það séu æ fleiri að verða sammála um það, að ekki dugi að horfa beinlínis á megawatta-töluna og láta hana eina gilda. Það þurfi fleira að koma inn í og það séu fleiri verðmæti, sem þurfi að athuga, en aðeins þau verðmæti, sem orkan getur skapað í iðnaðarframleiðslu eða einhverju öðru ámóta. Menn eru sem sé orðnir á því, held ég, og það koma fram einnig í ræðu hv. flm., að menn eru farnir að leggja aukna áherslu á vistfræðina í þessu efni, áherslu á umhverfismálin, á hvern hátt þau blandast þar inn í, og að þar beri að varast allar sveiflur, sem geti orðið til óheilla um ófyrirsjáanlega framtíð.

Ég hygg, að það sé fullkomlega tímabært, að þessu máli sé hreyft, og því hefur þegar verið hreyft við raforkuráðh., eins og 1. þm. Austurl. gat um hér áðan. Og ég sé ekki ástæðu til að ræða sérstaklega um 1. lið till. og reyndar ekki þann 3. heldur. Það er sjálfsagt, að að því verði stefnt, að lokið verði hið fyrsta rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar, 1. áfanga Austurlandsvirkjunar, eins og lagt er til í 1. liðnum. Það verður sérstaklega að leggja áherslu á það, sem heimamenn hafa þar haft til málanna að leggja, alveg sérstaklega þó þeir menn, sem hv. 1. þm. Austurl. er alveg sérstakur fulltrúi fyrir raunar, þ.e.a.s. þá náttúruverndarmenn, sem hafa í sambandi við öll þessi mál lagt höfuðáherslu á vistfræðisjónarmiðin, að þau skipi þegar við upphaf athugana um orkuöflun jafnan sess á við verktæknileg atriði, bæði varðandi rannsóknir og ákvarðanatöku. Og ég held, að á það verði ekki lögð of þung áhersla, að það verði gert. Ég sé það t.d., að flm. segir í sinni grg., að landspjöll af völdum slíkrar stórvirkjunar séu í lágmarki. Ég hygg, að þarna vanti töluvert upp á, að fullnaðarrannsókn liggi fyrir, að það sé hægt að fullyrða slíkt beinlínis, þó að eflaust megi fara út í það vægan áfanga þar, að það verði ekki.

Það er sem sagt ýmislegt, sem kemur upp í hugann varðandi þessi mál, þegar rætt er um orkuöflun og nauðsyn þess að bæta þar úr.

En það var raunar aðallega 2. liðurinn, sem ég vildi hér minnast örlítið á. Hv. flm. var áðan að ræða um afturhaldsmenn, sem hefðu litið stóriðju óhýru auga. Þetta þótti mér fulleinföld afgreiðsla hjá hv. flm., að telja það aðeins bera vott um afturhaldssemi. Menn hafa vissulega verið nokkuð fullir efasemda í sambandi við stóriðju og þá sérstaklega þá tegund stóriðju, sem getur haft stórkostlega mengun í för með sér. Ég held, að öll varnaðarorð í því sambandi geti ekki talist til afturhaldssemi. Þau hljóta að teljast til sjálfsagðrar varasemi, ekki síst hjá lítilli þjóð, sem þarf líka að varast annars konar mengun en þá, sem kemur úr útblástursrörunum. Hún þarf líka að varast þá mengun, sem stafar af því, að Stend fyrirtæki eigi of stóran hlut í þjóðarframleiðslunni. Ég get að því leyti tekið fullkomlega undir með hv. 1. þm. Austurl. um það.

Ég sé ekki heldur beint, að við þurfum endilega, þrátt fyrir það að flm. hafi bent á það sérstaklega, að taka inn í þetta spurninguna um stóriðjuna, þó að við séum að huga að orkumálum og orkuöflun á Austurlandi yfirleitt. Við hljótum að lita á þetta sem hluta af heild í samtengingu orkuveitusvæðanna. Við hljótum að reikna með því, að slík stórveita yrði nýtt á heildarmarkaði landsmanna, að þetta yrði ekki lokuð eining, heldur hluti af samtengingunni í heild. Mér féll þess vegna miklu betur við þann hluta í ræðu hv. flm., sem laut að matvælaframleiðslunni, sem hann lagði í lokin mikla áherslu á. Það þótti mér góður kafli í ræðu hans að raforkuna ætti einmitt að nota til meiri og stærri verkefna í því skyni. Ég skal ekki draga á það neina dul, að mér er öll stóriðja, næstum að segja hverju nafni sem hún nefnist, heldur ógeðfelld fyrir okkar litla þjóðfélag, og ég skal ekki heldur draga á það neina dul, að fátt gæti ég hugsað öllu verra hlutskipti mínum heimastað en að fá þangað inn reykspúandi verksmiðju með tilheyrandi áhrifum. Þegar hv. þm. Jónas Pétursson flutti um þetta till. á Alþ. á sínum tíma, voru ýmsir góðir sveitungar mínir á Reyðarfirði fullir hrifningar og lotningar yfir þessum tillöguflutningi og töldu að loksins væri kominn snaður á Alþingi Íslendinga, sem tæki eitthvert tillit til þarfa og óska Reyðfirðinga. Þessi till. mun hafa verið samþ. (Gripið fram í.) Um stóriðju í Reyðarfirði. Ég hygg, að hún hafi verið samþ. Hún hefur a.m.k. komið frá n. samhljóða, þar sem segir svo: „Enn fremur að hefja nú þegar könnun til undirbúnings stóriðju á Reyðarfirði eða öðrum stað á Austfjörðum,“ mun það víst vera. Það kann vel að vera, að þetta sé rangt hjá mér, að hún hafi verið samþykkt, en alla vega hefur þetta komið þannig frá n., og ég reiknaði með því, að afgreiðslan hefði orðið jákvæð. En það kann vel að vera, að þetta sé rangt, svo að ég sé ekki að stela neinum heiðri eða þá öfugt frá hv. flm.

En varðandi þetta mál, kom það fljótt á daginn, að menn höfðu ýmsar efasemdir um þetta og báru í brjósti nokkurn ugg. Fyrst ætluðu menn að setja þessa stóriðju fyrir botni fjarðarins, eins og hv. flm. bendir á, þar sem landrými er nokkurt. En reynslan af reyknum úr okkar saklausu bræðslu hafði bent til þess, að reykur úr slíkri verksmiðju mundi liggja allþétt yfir í lognkyrrunni, sem oft er þarna eystra. Þeir hrifnustu voru því farnir að færa sig nokkuð með þessa stóriðju og settu hana ekki lengur fyrir fjarðarbotninum, heldur voru jafnvel komnir með hana allt út á Vattarnes. Þeir voru sem sagt ekki orðnir alveg eins hrifnir í lokin.

Ég vil alvarlega vara við þessum lið till., og ég vildi einfaldlega óska eftir því, að hv. flm. endurskoðaði afstöðu sína til þessa liðar till., vegna þess að að öðru leyti er till. fyllilega tímabær og fyllilega atbugandi. Ég held, að við eigum ekki að stefna að þessu. Ýmislegt, sem fram hefur komið varðandi stóriðju, alveg sérstaklega inni í þröngum, tiltölulega lokuðum fjörðum, bendir til þess, að það muni fátt gott af því leiða.

Einn er sá maður, sem mikinn áhuga hefur sýnt mínum heimastað, Reyðarfirði, og nefnt hann sem líklegan stað til að verða stóran á Austurlandi. Sá maður heitir Valdimar Kristinsson og hefur bent á það í ýmsum ritgerðum sínum um byggðakjarna.

Í júní-desemberhefti Fjármálatíðinda ræðir Valdimar Kristinsson enn þennan möguleika, og hann kemur einmitt inn á þetta mál, sem um getur í lið 2 hjá flm., þ.e.a.s. stóriðju á Reyðarfirði. En ég held, að við ættum báðir, hv. flm. og ég, að líta örlítið á, hvað Valdimar segir. Ég er bræddur um, að í orðum hans liggi nokkur sannleikur, og við mættum gjarnan reyna að athuga málin í ljósi þess, sem þar kemur fram. Með leyfi hæstv. forseta, segir Valdimar Kristinsson í þessari grein orðrétt, — hann er að tala um Austurland og uppbygginguna þar:

„Síðast, en ekki síst eru það svo orkumálin. Frumrannsóknir benda til, að á Austurlandi megi koma upp gríðarstóru vatnsorkuveri, sem geti orðið undirstaða mikils iðnaðar. Verði úr framkvæmdum af þessu tagi, sýnist eðlilegt, að meginhluti orkunnar verði notaður á Austfjörðum“. Og svo segir Valdimar: „Leggja mætti einn fjörðinn, svo sem Reyðarfjörð undir stóriðjuna, og þeir, sem við hana ynnu,“ — hann reiknar yfirleitt ekki með öðru á þessum stað en stóriðjunni þá, — „en vildu ekki búa í næsta nágrenni, gætu sem best komið sér fyrir á næstu fjörðum eða á Egilsstöðum.“ Og svo heldur hann auðvitað áfram og segir: „Í þessum möguleika liggja skilyrði til mikillar uppbyggingar og borgarmyndunar á Austurlandi, sem gæti haft mikil og heillavænleg áhrif á allt þjóðlífið.“

Það er a.m.k. ljóst af framansögðu, að Valdimar Kristinsson hefur skipt töluvert um skoðun varðandi Reyðarfjörð sem borg á Austurlandi, því að þar reiknar hann allt eins vel með landauðn, ef þangað kæmi stóriðja. Ég ætla alla vega að vona það og þykist reyndar vita, að hv. flm. ætlist ekki til þess, að sú stóriðja, sem kemur á Reyðarfjörð og hann er þarna að geta um, sé af því tagi, sem Valdimar Kristinsson reiknar með. Og ég ætla einnig að vona, m.a. í ljósi þessa og í ljósi fjölmargra staðreynda varðandi stóriðjuna, sem ég ætla ekki að fara að rekja hér og hættuna af henni, að hv. flm. muni geta orðið mér sammála að lokum um það, að þessi liður megi að skaðlausu niður falla.