05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

220. mál, starfsréttindi kennara

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., starfsréttindi kennara, kemur inn á mál, sem hefur verið mikið vandamál, sérstaklega úti á landsbyggðinni, Má kannske segja, að fyrst og fremst hefði þurft að hugsa um það á umliðnum árum að knýja á um raunhæfar úrbætur, til þess að landsbyggðin nyti sem bestra starfskrafta í kennarastétt, að það þyrfti fyrst og fremst að fá hæfa réttindamenn til starfa, og vissulega hefur orðið á þessu nokkur breyting til bóta nú síðustu árin. Sannleikurinn er, að hið mikla offjölgunarvandamál, sem varð í Kennaraskólanum fyrir nokkrum árum, varð til þess, þótt slæmt væri fyrir skólastofnunina sem slíka, að fleiri kennarar fengust til starfa, fleira fólk fékkst út á landsbyggðina til þess að kenna. Ástandið í þessum málum, eins og vitnað er í þarna og hv. flm, minnti á áðan, er að vissu leyti ekki gott, en það var þó fyrir t.d. 3 árum líklega nær þrisvar sinnum verra en það er þó nú. A.m.k. var það þannig á Austurlandi, að ég hygg, að þá hafi verið þar fjórum sinnum fleiri réttindalausir kennarar en eru þó þar í dag. Þar hefur orðið sú breyting á til batnaðar.

Ég verð að taka fyllilega undir það með hv. flm., að ég óttast mjög, að nýtt fyrirkomulag kennaramenntunarinnar, þ.e.a.s. það, að kennaranámið hefur verið lengt svo mjög og fært á annað stig, dragi úr aðsókn nemenda í þetta starf, og ég held, að þar verði einmitt sú raunin á, að landsbyggðin verði þar harðast úti, þegar fram í sækir. Ég skal játa það hér, að á sínum tíma, þegar þetta mál kom til umr. á kennaraþingi, vorum við aðeins þrír Austfirðingar, sem þar greiddum atkvæði á móti þessari breytingu og vorum vissulega kallaðir miklir afturhaldsmenn fyrir bragðið, að vilja ekki þessa auknu menntun kennarastéttarinnar, sem ein gæti orðið til þess að bæta launakjör kennara. Það voru þá ein helstu rök þeirra manna, sem stóðu fyrir þessari breytingu, að það yrði miklu léttari leikur fyrir kennarastéttina að sækja sinn rétt í launamálunum á eftir.

En ég skammast mín nú út af fyrir sig ekkert fyrir að hafa gert þetta og hafa allan tímann verið heldur tortrygginn á þessa breytingu yfir í Kennaraháskóla. Ég tel, að það hafi þurft að gera umtalsverðar breytingar á kennaranáminu, en það hefði mátt gera með öðrum hætti en hefur verið gert og raunin hefur nú á orðið.

Ég ræði þetta mál eingöngu hvað barnastigið snertir. Það hefur verið meira á reiki um réttindi á gagnfræðaskólastiginu. Eins og hv. flm, benti á, hefur Landssamband framhaldsskólakennara haft af þessu máli í sínum röðum alveg sérstakar áhyggjur og það skiljanlega. Ég hef lengi haft þetta vandamál í huga, og ástæðurnar eru mjög augljósar. Þær eru úr mínu eigin starfi. Ég hef t.d. haft ágæta kennara ólærða til þess starfs, og ég nefni það aðeins sem dæmi um það, hvað slíkur maður, sem er búinn að fá góða starfsreynslu og er að öðru leyti vel hæfur maður til starfs síns, getur í raun og veru verið góður starfskraftur, að þessi kennari hjá mér, hann t.d. einn, reyndist vera fær um það og vildi taka það að sér að gegna skólastjórastörfum í forföllum, þegar skólastjórinn veiktist, og voru þó 3 réttindamenn við skólann, sem hvorki treystu sér til þess né fólk út af fyrir sig treysti almennilega til þess að taka þetta verk að sér. Þetta starf leysti hann svo með miklum sóma, og er það út af fyrir sig engin sönnun eða afsönnun í sambandi við gildi þess arna, en kemur þó inn á þetta mál. Sá maður, sem hér um ræðir, er horfinn úr því starfi einmitt vegna þess öryggisleysis, sem hann varð við að búa, eftir að hafa verið í því í 12 ár, samfleytt, hann hreinlega gafst upp, og á mínum heimastað er hans sárt saknað úr starfi, bæði af nemendum og eins af foreldrum.

Ég játa það fullkomlega, að þetta er mjög erfitt og viðkvæmt mál fyrir mína stétt. Mín stétt, stétt barnakennara, hefur verið afar andvíg öllum tilslökunum, og ég verð að líta á það sem eðlilegt og sjálfsagt að mörgu leyti. Hver stétt heldur fast á réttindum sínum og vill, að þau séu metin, og vill ekki láta aðra komast þar upp með neitt múður. Og ég skil menn mætavel. þegar þeir segja, að úr því að þurfi aukalega 4 ára nám, eins og hefur verið hingað til, til að öðlast kennararéttindi, þá sé nokkuð hart aðgöngu og hæpið, að réttindi fáist út á starf, þó að það sé unnið í nokkur ár, jafnvel með sóma, þar sem um ekkert lágmarksnám sé að ræða. Ég skil sem sagt afstöðu stéttar minnar mjög vel, þó að ég hafi þar lent upp á kant við ýmsa starfsbræður mína, einfaldlega af því að ég þekki svo vel til hinnar hliðar málsins og hún er ekki siður mannleg en hin stéttarlega hlið, sem ég minntist á áðan.

Kennaraskorturinn úti á landsbyggðinni hefur verið svo geigvænlegur, að oft hefur verið gripið til þess ráðs að fá aðila, sem menn hafa treyst, á heimastaðnum til að hlaupa undir bagga, oft ár eftir ár, án nokkurs atvinnuöryggis. Og það hefur komið fyrir æ ofan í æ í þessum tilfellum, að kennaralærður maður hefur getað vikið til hliðar slíkum aðila, t.d. aðeins eitt ár, — maður, sem aðeins hefur verið að kanna aðstæðurnar á staðnum, aðeins verið að afla sér peninga til þess að halda áfram námi eða eitthvað því um líkt, og síðan hefur skólanefndin á staðnum orðið að ganga til þess réttindalausa manns, sem áður hafði verið í starfinu, árið eftir til að biðja hann um að koma í starfið að nýju.

Þetta fólk hefur sannarlega miklu bjargað. Ég hef alltaf litið svo á, að eftir vissan starfstíma ætti þetta fólk að fá einhverja umbun, það ætti á einhvern hátt að létta því möguleikana til að ná þessum réttindum. Menn hafa séð ýmsar leiðir til að flýta þessu og öðlast réttindi. Sumir hafa t.d. tekið það ráð, ef þeir hafa verið svolítið liprir í líkamanum, að þeir hafa farið í Íþróttakennaraskólann og lokið þar námi, fengið þar sín íþróttakennararéttindi eftir eitt ár. Það gerðu menn, að ég veit, á tímabili. Sumir, sem hafa verið mjög liprir til handanna, hafa farið í handavinnudeild Kennaraskólans, sem hefur ekki verið nema 2 ár, og sloppið þannig við að þurfa á þessu 4 ára námi að halda. Með því móti hafa þeir getað náð réttindum, að vísu takmörkuðum við þessar greinar, en víðast hvar hefur raunin orðið sú, að þessir menn hafa verið ráðnir í stöðurnar og skipaðir hreinlega í þær á eftir.

Ég sem sagt get lýst yfir hvað meginefni þessarar till. snertir fylgi mínu við hana. Ég tel, að námskeið sé nauðsynlegt, það sé í raun og veru lágmarkskrafa. Hvernig því eigi að vera háttað, hef ég nú ekki almennilega gert upp við mig, hvort það eigi að vera jafnvel meira en hér er fram á farið. Það er kannske fulllítið að vera með aðeins eitt námskeið, og ég held, að þar megi við bæta, að það megi auka þetta nám. Alveg sérstaklega verður að gera þær kröfur til þess fólks, sem er í þessu starfi, að það sæki vel þau námskeið, sem fræðsluyfirvöld efna til, þar sem verið er að kynna nýjungar. Það verður að fylgja þessu í raun og veru. En hingað til hefur þetta fólk yfirleitt gert það af þeirri einföldu ástæðu, að það hefur ekki séð neinn tilgang í því að auka þannig við þekkingu sína án þess að eiga nokkurt atvinnuöryggi. Margir hafa þó þrátt fyrir allt gert það. Ég álít, að meðmæli skólanefndar séu þarna sjálfsögð. Þeir eiga einir að njóta hér góðs af, sem hafa staðið sig í sínu starfi. Það er svo aftur annað mál, að kennarar ern misjafnir, og mætti sjálfsagt á hinn bóginn einnig benda á ýmsa, sem hafa sín fullu réttindi og fín próf, en ættu aldrei að hafa nálægt kennarastólnum komið. En það er annað mál, sem ekki er hér til umræðu. Hitt er rétt, að ég álit, að meðmæli skólanefndarinnar hljóti að vera sjálfsögð.

Það er eitt aðeins, sem ég vildi gera athugasemd við. Það er síðasta málsgrein, þar sem stendur: „Að því loknu skal viðkomandi kennari hafa full starfsréttindi á því stigi, sem hann kennir við.“ Hjá mér vaknar sú spurning, hvort þessi síðasta málsgr, sé ekki of sterk, hvort réttindin eigi ekki að vera staðbundin, bundin við þann skóla, sem kennarinn hefur kennt við, og þá á ég við barnastigið. Þessu háttar öðruvísi til á gagnfræðastiginu. Ég held t.d., að það sé tvímælalaust aðalatriðið hvað snertir fólkið sjálft, þetta fólk, sem hefur verið að starfa í þessu réttindalaust. Ég held, að nær allir, sem ég þekki til og hafa starfað réttindalausir í þessu starfi um nokkurra ára skeið, mundu telja sínu máli fullborgið með því að hafa réttindi til kennslu á þeim stað, þar sem þeir hafa reynst vel, þeim hefur gengið vel að kenna, og þetta væri ekki fullnægjandi hvað þá snertir. Örlítið vafasamt er einnig, vafasamur greiði við þá jafnvel að fara að gera þetta að fullum starfsréttindum. Þar kann þó annað að vera til staðar á gagnfræðastiginu, en um það stig ræði ég hreinlega ekki, það er allt annars eðlis.

Ég vil sem sagt, að þessi till. fái jákvæða skoðun, og þrátt fyrir það að menn ættu kannske að vera stéttvísir og halda fast á rétti sinnar stéttar, sé ég þá hlið málsins, sem vakir fyrir flm. og hlýtur að verða að athuga með tilliti til þess mikla starfs, sem þetta fólk hefur unnið til þessa, ég vil segja björgunarstarfs, sem það hefur víða unnið í skólum landsins.