06.03.1974
Efri deild: 71. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2540 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka góðar fyrirbænir hv. 5. þm. Reykn., sem mér og flokki mínum eru ákaflega mikils virði. Til viðbótar vildi ég aðeins taka fram í sambandi við þetta frv., sem hér er á dagskrá, að ég tel það bera þau tvö einkenni, sem helst marka stjórnarathafnir núverandi hæstv. sjútvrh. og hæstv, ríkisstj. annars vegar að beita úrræðum, sem gagnrýnd voru þegar núv. stjórnarsinnar voru í stjórnarandstöðu, og hins vegar að fleyta hlutunum áfram til bráðabirgða frá viku til viku eða mánuði til mánaðar, án þess að um nokkra heildstæða lausn sé að ræða.

Við þm. munum, að núv. hæstv. sjútvrh, og núv. stjórnarsinnar gagnrýndu mjög þá breytingu á hlutaskiptum, sem gerð var í tengslum við gengisbreytingar, sérstaklega 1968. Auðvitað er hér ekki um annað að ræða, þegar sérstakt 5% útflutningsgjald á tollverðmæti loðnuafurða er sett á, en breytingu á hlutaskiptunum. Það er verið að taka af hlut sjómannanna, og breytir þar engu um, hvort sjómennirnir hefðu fengið hækkunina strax í sínu vasa eða hefðu átt hækkunina geymda í Verðjöfnunarsjóði. Það er jafnvel enn þá alvarlegra að ræna sjómennina möguleikanum á því að eiga þessa upphæð geymda í Verðjöfnunarsjóði, vegna þess að til hans verður gripið, þegar verðlag á sjávarafurðum lækkar. Hins vegar bendi ég ekki á þetta til þess að tjá mig andvígan þessari lausn. Ég er aðeins að benda á þetta til að sýna fram á, að hæstv. sjútvrh, og stjórnarsinnar eru ekki sjálfum sér samkvæmir.

Varðandi hitt atriðið, að þessi lausn er aðeins til bráðabirgða gerð, er það að segja, að samkomulagið við útvegsmenn og væntanlega einnig við sjómenn tókst aðeins vegna þess, að ríkisstj. gaf út yfirlýsingu um, að sama olíuverð til fiskiskipa skyldi gilda allt árið, það mun hafa verið orðað eitthvað á þá leið, að rekstrargrundvöllurinn yrði ekki lakari en var síðustu mánuði s.l. árs. Í þessu felst, að tekjuöflun með þessu útflutningsgjaldi af tollverðmæti loðnuafurða er ekki nægileg til þess að greiða niður olíuverðið nema fyrstu 5 mánuði ársins, og þá er spurningin: Til hvaða ráða verður gripið til þess að greiða niður olíuverðið það sem eftir er ársins? Hér mun vera um að ræða upphæð, sem nemur um 350–400 millj. kr. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh., hvaða ráðstafanir hann hyggst gera í þeim efnum.

Þá er einnig ástæða til að spyrja hæstv, ráðh., hvað hann telji, að þessi tekjuöflun af 5% útflutningsgjaldinu nemi nú í dag, sérstaklega þar sem hann sagðist vera svartsýnn á áframhald loðnuvertíðarinnar. Við vonum allir þm., að loðnuvertíðin sé ekki á enda. En því miður er slík svartsýni sem hæstv. ráðh. lét í ljós og reyndar hv. 5, þm. Reykn. e.t.v. ekki óeðlileg, eins og á stendur. Og þá er spurningin: Þarf enn frekari tekjuöflun til þess að mæta niðurgreiðslu olíu til fiskiskipa fyrstu 5 mánuði ársins, til viðbótar því, sem á vantar til niðurgreiðslu olíunnar seinna á árinu.