11.03.1974
Efri deild: 74. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2655 í B-deild Alþingistíðinda. (2405)

65. mál, orlof

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég áttaði mig ekki á því, að þetta mál var fyrst á dagskránni. Það var ekki beinlínis út af þessu frv. sjálfu, sem ég kvaddi mér hér hljóðs, heldur af því að hæstv. félmrh. er hér í deildinni, þá langar mig aðeins að ræða þetta mál almennt í sambandi við orlofið og má vera örstutt.

Það hefur orðið svo í sambandi við þær breytingar, sem gerðar voru í sambandi við framkvæmdina á orlofslögunum í sambandi við póstþjónustuna, að þar hafa orðið á ýmsir örðugleikar, og þeir hljóta að vera eðlilegir með tilliti til þess, að þetta er framkvæmd, sem er í byrjun. En sannleikurinn er sá, að margir launþegar eru mjög uggandi, einkanlega yfir því, að í ljós hafa komið margar vitleysur frá póstþjónustunni varðandi orlofsgreiðslur. Eflaust verður það allt leiðrétt, og við skulum segja, að það verði í lagi. Ég reikna með því, að hér sé um byrjunarörðugleika að ræða, og margt spinnst þarna eflaust inn í. Ég hef verið spurður svo mikið um þetta af launþegum t.d. eystra, þar sem framkvæmd þessara mála hefur áreiðanlega verið með einhverjum misbrestum og póstþjónustan þar kannske ekki nógu vel undir það búin í dag að taka við þessu verkefni. Því langaði mig til að spyrja hæstv. félmrh., hvort framkvæmdin á þessu hafi í heild orðið svipuð og reikna mátti með vegna byrjunarörðugleika, hvort þetta sé nokkuð, sem hafi yfirleitt verið reiknað með í upphafi, að þetta gengi svona seint, og eins þá alveg sérstaklega um það, hvort þess megi ekki vænta engu að síður, þó að þarna hafi orðið misbrestur á, að þetta geti gengið nokkurn veginn nú á síðara hluta þessa tímabils, þannig að málið verði komið nokkurn veginn í lag við lok orlofstímabilsins og þá muni vera hægt að sinna skyldunni við launþega, sem orlofslögin fela í sér. Þetta vil ég aðeins biðja hæstv. ráðh. um að gera grein fyrir hér, ef hann gæti, vegna þess að um þetta er mikið spurt, og launþegar eru vissulega nokkuð uggandi um að þetta muni ekki takast.