11.03.1974
Neðri deild: 77. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2672 í B-deild Alþingistíðinda. (2413)

244. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Varðandi þetta frv. sérstaklega tek ég það fram, að ég er að sjálfsögðu samþykkur því. Að vísu er leitt til þess að vita, að örskömmu eftir að heildarlöggjöf hefur verið sett í þessu efni, skuli þurfa að grípa til þessara lagfæringa. En satt að segja er þeim, sem að þessu stóðu, nokkur vorkunn, þar sem þær reglur, sem settar voru, voru mjög svo flóknar, og eins og áður hefur verið bent á, þá er það spauglaust við að etja, þar sem mönnum þótti bera nauðsyn til þess helst að skjalfesta sérvisku hvers einasta hreppsnefndarmanns í landinu. En um það ætla ég ekki að fara fleiri orðum.

En það, sem ég ætlaði aðeins að minnast á hér, er það, sem nýtt er varðandi friðunaraðgerðir í landhelgi okkar, en það er um friðun í Víkurál vestra. Þar skilst mér og veit það eftir nýlegri ákvörðun frá sjútvrn., að friðað hefur verið svæði u.þ.b., að mér skilst, 20 mílur á kant. Þetta hefur valdið mikilli óánægju þar vestra, og það sem verra er, því hefur verið haldið fram af togaraskipstjórum þar, að þessi friðunaraðgerð hafi einvörðungu komið vinum vorum Bretum til góða, þar sem íslensku skipin hafi að sjálfsögðu hlýtt þessum friðunarfyrirmælum, en það hafi hins vegar Bretar ekki gert.

Ég hefði nú óskað eftir því að fá upplýsingar um, hvaða rök lágu til þess, að þessi ákvörðun var tekin. Ég hef sannar spurnir af því, að þeir, sem best þekkja til. telja að þetta sé misráðið. Ég vil enn fremur beina því til hæstv. sjútvrh., hvaða skoðanir stofnanir okkar sérfræðinga hafa í þessu efni, eins og t.d. Hafrannsóknastofnunin og Fiskifélag Íslands. Þetta tel ég ástæðu til þess að ræða sérstaklega og fæ ekki betur séð en það eigi eðlilega við, þegar rætt er nm frv. til l. um breyt. á l. um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni.

Það er auðvitað sjálfsagður hlutur, það er mín bjargföst sannfæring, að veiðum okkar í landhelginni eigi einmitt að stjórna með lipurlegum hætti, að hægt sé með reglugerðarákvæðum og heimildum til þess að beita reglugerðum að breyta til, banna veiðar þar, sem sýnt þykir, að þær geta orðið til tjóns, t.d. vegna dráps á ungfiski, en ekki að hafa þetta eins og nú er niðurnjörvað í lögum. En það er annað mál, sem kemur áreiðanlega fyrr en síðar til kasta þingsins. Þessu tvennu vildi ég sérstaklega fá svör við, þ.e. varðandi þá nauðsyn, sem til þess lá, að þessi friðunaraðgerð var framkvæmd, og enn fremur, hvað hæft kunni að vera í því, að friðuninni sé ekki sinnt af erlendum veiðiskipum, og þá hvaða ráðstafanir eru uppi um að bægja slíku frá.