11.03.1974
Neðri deild: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2693 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

241. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Það virðist vera erfitt að fá hv. 2. þm. Reykn. til að skilja það, sem raunverulega hefur gerst í sambandi við framlag Norðurlandanna. Ég vil vitna til þess, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan. Hann sagði, að rn. hefði gefið Viðlagasjóði frest á því að að greiða umrædda tolla. Tollarnir yrðu innheimtir, og hvaðan á að taka fé nema úr Viðlagasjóði til að greiða tollana? Og hvaða fé verður það? Auðvitað hluti af framlagi Norðurlandanna. Þetta er sú sorglega staðreynd, sem fyrir liggur, að þannig gengur málið fyrir sig. Ef tollarnir verða innheimtir, eins og þegar er búið að ákveða, og þeir renna ekki í Viðlagasjóð, þá verður fénu þarna snarað út til ríkissjóðs. Og það er hægt að segja með fullum rökum og fullum rétti, að það fé, sem Viðlagasjóður hefur til að standa skil á, er hluti af fé Norðurlandanna. Þetta liggur hreinlega fyrir og ætti ekki að þurfa að vera að deila neitt um.

Ég ætla ekki að fara að ræða við hv. þm. um stuðning stjórnvalda og Alþ. í sambandi við Vestmannaeyjagosið. Ég hef áður lýst því yfir og ég hef látið ánægju mína í ljós með þær undirtektir, sem þetta mál hefur fengið, og þær afgreiðslur, sem það almennt hefur fengið á hv. Alþ. En hérna skilja því miður leiðir. Það er ekki eingöngu vegna þess, að það standi ekki á sama raunverulega, hvaðan fé komi til Viðlagasjóðs. Því er lýst yfir, að það muni verða séð fyrir fjármagni til Viðlagasjóðs til uppbyggingar þar og bótagreiðslna. Þetta liggur fyrir. En ég tel, að það megi ekki, eins og ég hef sagt áður, henda Alþ., að það sé nokkurs staðar hægt að benda á það, að ríkissjóður fari að hagnast á þeim náttúruhamförum, sem skeðu í Vestmannaeyjum. En það skeður, ef dæmið gengur þannig fyrir sig, sem ég hef hér rætt um.